Skattar og gjöld. útvarpsgjald.

(Mál nr. 7087/2012)

A kvartaði yfir álagningu útvarpsgjalds á sameignarfélag sem hann kvað aldrei hafa verið í rekstri.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 hvíldi álagning útvarpsgjalds m.a. á þeim lögaðilum sem skattskyldir væru samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003. Skattskylda lögaðila væri óháð því hvort viðkomandi lögaðili hefði starfsemi með höndum. Erindi A sneri því að löggjöf settri af Alþingi. Umboðsmaður benti á að skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það væri því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á því hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi. Umboðsmaður taldi því ekki uppfyllt skilyrði laga til að taka erindi A til frekari meðferðar og lauk afskiptum sínum af því.