Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6987/2012)

Hinn 12. apríl 2012 kvörtuðu félagasamtökin A yfir því að umsókn félagsins frá 1. febrúar 2012 um úthlutun úr Æskulýðssjóði hefði ekki verið svarað.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að samkvæmt upplýsingum frá stjórnarformanni Æskulýðssjóðs væri afgreiðslu umsókna vegna úthlutunar 1. febrúar 2012 lokið og samþykkt hefði verið að veita félaginu styrk að tiltekinni fjárhæð. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina og lauk athugun sinni á málinu. Hann ritaði mennta- og menningarmálaráðuneytinu þó bréf og gerði athugasemdir við að í skýringum ráðuneytisins hefðu ekki komið fram nákvæmar upplýsingar um hvenær erindi A var afgreitt. Í því sambandi benti umboðsmaður á að Æskulýðssjóður auglýsti eftir styrkjum fjórum sinnum á ári og það gæti því skipt máli fyrir þá sem vilja koma til greina við úthlutun hvort fallist hefði verið á umsókn sem lögð hefði verið fram vegna fyrri úthlutunar. Þá minnti umboðsmaður á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem m.a. væri mælt fyrir um tilkynningar til málsaðila um tafir á erindum. Umboðsmaður benti ráðuneytinu á að gæta framvegis betur að þessum atriðum í starfi Æskulýðssjóðs. Stjórn Æskulýðssjóðs var sent afrit af bréfinu.