Menntamál. Grunnskólar. Undanþága frá skyldunámi. Eftirlitshlutverk ráðuneytis. Rannsóknarreglan. Læknisvottorð.

(Mál nr. 6490/2011)

A kvartaði yfir úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun skólastjóra grunnskóla um að synja beiðni A um að dóttur hennar, B, yrði veitt undanþága frá skyldunámi í íþróttum vegna hættu á álagsmeiðslum. Bekkjarsystur B hafði verið veitt undanþága gegn framvísun læknisvottorðs. Því var hins vegar hafnað að unnt væri að leggja læknisvottorð sem A framvísaði vegna B til grundvallar slíkri undanþágu, m.a. á þeim grundvelli að vottorðin tvö væru ekki sambærileg. A taldi að ekki hefði verið gætt samræmis og jafnræðis við ákvörðunartöku í málum stúlknanna tveggja.

Settur umboðsmaður Alþingis rakti að þegar málið barst mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefði ágreiningurinn beinst að því hvort grunnskólinn hefði gætt að jafnræðisreglu í máli B. Í ljósi hlutverks ráðuneytisins hefði því borið á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að gera viðhlítandi ráðstafanir til að afla gagna sem voru nauðsynleg til að varpa ljósi á það, einkum um efni læknisvottorðsins sem lá til grundvallar ákvörðun um að veita bekkjarsystur B undanþágu frá skyldunámi í íþróttum. Það var hins vegar ekki gert. Settur umboðsmaður tók því fram að ráðuneytið gæti ekki leyst sig undan þessari skyldu með því að vísa til staðhæfinga sveitarfélagsins og án þess að rannsaka þetta atriði sjálfstætt. Þá féllst settur umboðsmaður ekki á þær skýringar að ráðuneytið hefði skort skýra lagaheimild til að afla vottorðs bekkjarsystur B í ljósi reglna um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Settur umboðsmaður taldi að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki haft undir höndum nægar upplýsingar til að taka afstöðu til þess hvort leyst hefði verið úr máli B með sama hætti og máli bekkjarsystur hennar. Hann taldi því að málsmeðferð ráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Settur umboðsmaður taldi jafnframt að ekki hefði verið forsvaranlegt að synja beiðni B um undanþáguna án þess að afla frekari gagna af sérfræðilegum toga. Þar hafði hann í huga að fyrir lá sérfræðilegt mat læknis á því að það gæti skaðað heilsu stúlkunnar að stunda frekari íþróttir í skólanum. Mæltist hann því til þess að beiðni A um undanþágu fyrir B yrði tekin til endurskoðunar kæmi fram beiðni þess efnis frá henni og að þá yrði tekið mið af sjónarmiðum sem væru rakin í álitinu. Að öðru leyti tók hann ekki afstöðu til þess hvort skilyrði væru til þess að taka beiðnina til greina að hluta eða öllu leyti.

I. Kvörtun.

Hinn 20. júní 2011 leitaði A, fyrir hönd dóttur sinnar, B, til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 10. júní 2011. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun skólastjóra X-skóla um að synja beiðni A um að B yrði veitt undanþága frá skyldunámi í íþróttum.

Í kvörtun málsins kemur m.a. fram að þegar A sótti um undanþáguna hafi B verið nemandi í 8. bekk X-skóla og jafnframt stundað nám á fimmta stigi við Listdansskóla Íslands. Hún hafi verið eini nemandinn á því námsstigi við Listdansskólann sem ekki hafi fengið undanþágu frá skyldunámi í íþróttum. Þá hafi bekkjarsystir B, sem stundar listhlaup á skautum, fengið slíka undanþágu gegn framvísun læknisvottorðs. Kvörtunin beinist annars vegar að því að nemendum Listdansskólans sé mismunað eftir því hvaða grunnskóla þeir sæki og hins vegar að mismunun nemenda við X-skóla.

Með bréfi forseta Alþingis 5. júlí 2012 var undirritaður settur á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis til að fjalla um mál þetta þar sem kjörinn umboðsmaður hafði ákveðið að víkja sæti í því.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 22. nóvember 2012.

II. Málavextir.

Samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins óskaði A eftir undanþágu frá skyldunámi í íþróttum fyrir B með bréfi 8. september 2010. Í rökstuðningi fyrir beiðninni kom m.a. fram að B æfði listdans í átta og hálfa klukkustund í viku, að tímarnir væru fjölbreyttir og að A teldi B fá meira en næga hreyfingu með þessari ástundun. Hún vakti jafnframt athygli á því að margir samnemendur B við Listdansskóla Íslands, sem stunduðu nám við aðra grunnskóla í Reykjavík, hefðu fengið undanþágu frá skyldunámi í íþróttum.

Skólastjóri X-skóla synjaði beiðninni með bréfi 22. september 2010. Í bréfinu segir svo:

„Það er mat undirritaðs að áðurnefnt ballettnám uppfylli ekki eitt og sér lokamarkmið í íþróttum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla 2007. Ennfremur vill undirritaður vekja athygli á að veiti skólastjóri tímabundna undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein skulu foreldrar sjá til þess að nemendur vinni upp það sem þeir kunna að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Slíkt telur undirritaður skólastjóri ekki mögulegt í þessu tilviki. Undanþágu er því hafnað.

Undirritaður skólastjóri vekur athygli á því að skipulegt nám, sem stundað er utan [X-skóla}, fæst metið sem valgrein við skólann.“

Með tölvubréfi 24. september 2010 óskaði A eftir því að ákvörðunin yrði endurskoðuð með tilliti til læknisvottorðs frá heimilislækni B. Í læknisvottorðinu, sem er dagsett 21. september 2010, segir eftirfarandi:

„Það staðfestist að [B] er við nám í Listdansskóla Íslands. Þar stundar hún listdans undir leiðsögn kennara 8 ½ klst. á viku.

Listdansinn er mjög líkamlega krefjandi og útheimtir mikið líkamlegt álag.

Það er mat undirritaðs að skólaleikfimi til viðbótar auki hættuna á álagsmeiðslum og væri því æskilegt út frá læknisfræðilegu sjónarmiði að undanþága væri gefin frá leikfimi í skólanum, þar sem [B] er þegar í mikilli líkamsrækt.“

Skólastjóri X-skóla vísaði málinu til menntasviðs Reykjavíkurborgar og tilkynnti A um það 30. september 2010. Af því tilefni ritaði fræðslustjóri mennta- og menningarmálaráðuneytinu bréf 4. október 2010 og óskaði álits ráðuneytisins á því hvernig skyldi haga meðferð beiðna um undanþágur frá skyldunámi. Hins vegar verður ekki séð að skólastjóri eða menntasvið hafi tekið efnislega afstöðu til beiðni A um endurskoðun málsins. Í tölvubréfi fræðslustjóra til A 5. október 2010 kemur fram að ekki sé hægt að kæra ákvarðanir skólastjóra um að hafna beiðni um undanþágu til menntaráðs og að menntasvið hafi ekki heimild til að leggja fyrir skólastjóra að veita nemanda tímabundna undanþágu frá því að mæta í tíma í tilteknum námsgreinum.

A lagði fram stjórnsýslukæru hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu 7. október 2010. Greinargerð Reykjavíkurborgar vegna málsins barst ráðuneytinu 26. nóvember 2010. Í greinargerðinni er m.a. vísað til þess að samkvæmt skólareglum X-skóla sé einungis veitt undanþága frá skyldunámi í íþróttum eða sundi til lengri tíma en tveggja vikna gegn framvísun læknisvottorðs sem gildi fyrir þann tíma sem tilgreindur er á vottorði. Þá er því hafnað að unnt sé að leggja læknisvottorðið sem A framvísaði vegna B til grundvallar slíkri undanþágu. Fyrir þeirri afstöðu eru tilgreindar tvær ástæður. Í fyrsta lagi staðfesti það ekki að B geti ekki sinnt skyldunámi sínu sökum læknisfræðilegra ástæðna heldur víki einungis að því að skyldunámið auki hættu hennar á álagsmeiðslum. Í öðru lagi sé læknisvottorðið hvorki tímabundið né ótímabundið. Í greinargerðinni segir einnig:

„Í bréfi kæranda til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 7. október 2010, er því haldið fram að bekkjarsystir dóttur kæranda hafi fengið undanþágu frá skyldunámi í íþróttum, þar sem hún stundi listdans á skautum. Undirritaður bar þessa fullyrðingu undir skólastjóra [X-skóla], sem vísaði þessu alfarið á bug og upplýsti um að öðrum nemendum en þeim, sem hafa framvísað gildu vottorði læknis, hafi ekki verið veitt undanþága frá skyldunámi í íþróttum.“

Með bréfi 6. desember 2010 kom A þeirri athugasemd á framfæri við ráðuneytið að henni væri kunnugt um að sú bekkjarsystir dóttur sinnar sem hefði fengið undanþágu stundaði listhlaup á skautum tvisvar á dag og væri því ekki ófær um að stunda íþróttir af heilsufarsástæðum. Hún hefði því grun um að orðalag í læknisvottorðum stúlknanna tveggja væru sambærileg.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ritaði skólastjóra X-skóla bréf 28. apríl 2011 og óskaði þar eftir nánari skýringum skólastjórans vegna fullyrðinga A um mismunun nemenda innan skólans. Óskað var eftir að upplýst yrði um forsendur fyrir mismunandi afgreiðslu á málum stúlknanna tveggja „að því marki sem unnt [væri] að teknu tilliti til persónuverndar þess nemanda sem ekki [ætti] aðild að máli þessu“. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvort X-skóli gerði undantekningarlaust kröfu um að læknisvottorð staðfesti að álagsmeiðsl hefðu þegar átt sér stað svo undanþága frá skyldunámi í íþróttum yrði veitt eða hvort slík undanþága hefði í einhverjum tilvikum verið veitt vegna hættu á álagsmeiðslum í ljósi mikillar íþróttaiðkunar nemanda.

Reykjavíkurborg svaraði ráðuneytinu með bréfi 11. maí 2011. Þar segir m.a.:

„Reykjavíkurborg hafnar því að verið sé að mismuna nemendum í sambærilegri aðstöðu innan [X-skóla]. Í því máli sem kærandi líkir máli dóttur sinnar við, lá læknisvottorð til grundvallar ákvörðun skólastjórans. Umrætt læknisvottorð er með öllu ósambærilegt því læknisvottorði sem lá til grundvallar í máli kæranda. Þegar af þeirri ástæðu er því hafnað að um sambærileg mál sé að ræða.

[...]

[X-skóli] gerir undantekningarlaust kröfu um að læknisvottorð sé lagt fram þegar sótt er um undanþágu frá skyldunámi í íþróttum. Skólinn gerir hins vegar ekki kröfu um að læknisvottorð staðfesti að álagsmeiðsl hafi þegar átt sér stað svo undanþága frá skyldunámi í íþróttum verði veitt. Þá er skólastjóra [X-skóla] ekki kunnugt um að læknisvottorð um hættu á álagsmeiðslum í ljósi mikillar íþróttaiðkunar nemanda hafi nokkru sinni legið til grundvallar ákvörðunartöku í máli af þessu tagi innan skólans, en sem fyrr segir eru engar ákvarðanir um undanþágubeiðnir frá skyldunámi í íþróttum teknar í skólanum án fyrirliggjandi læknisvottorðs.“

Í bréfi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 25. maí 2011 áréttaði A fyrri athugasemdir sínar um ólíka meðferð X-skóla á máli B og bekkjarsystur hennar. Í því sambandi tók hún fram að stúlkan hefði sjálf tjáð B að í læknisvottorði hennar væri vísað til hættu á álagsmeiðslum vegna mikillar íþróttaiðkunar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti ákvörðun X-skóla með úrskurði 10. júní 2011. Í niðurlagi úrskurðarins segir svo:

„Með hliðsjón af því sem að framan er rakið hafa skólastjórar grunnskóla rúmt svigrúm til að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein, mæli gild rök með því. Þá kemur bæði fram í gildandi námskrá fyrir greinasviðið íþróttir – líkams- og heilsurækt og skólanámskrá [X-skóla], sem sett er á grundvelli 29. gr. laga um grunnskóla, sú áhersla sem lögð er á tækifæri nemenda til að ástunda fjölbreytta íþróttaþjálfun sem ætlað er að þjóna námsmarkmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár. Þá er í aðalnámskrá gert ráð fyrir því að veiting undanþágu frá skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá megi til að mynda nýta í þeim tilvikum er nemendur hafa sýnt afburðaárangur á ákveðnu sviði, t.d. í íþróttum. Undanþáguheimild frá skólaíþróttum hefur þannig ekki verið afmörkuð með nánari hætti í gildandi aðalnámskrá en skólastjórum einstakra grunnskóla falið svigrúm til mats og ákvörðunar í þessum málum að öðru leyti, eins og kveðið er á um í 15. gr. laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Það fyrirkomulag og sá sveigjanleiki sem skólastjórum er búinn að þessu leyti leiðir hins vegar til þess að ekki er tryggt að umsóknir um undanþágu frá aðalnámskrá séu afgreiddar með samræmdum hætti milli einstakra grunnskóla sveitarfélaga, án þess þó að það kunni að vera í ósamræmi við framangreinda heimild og ákvörðunarvald skólastjóra í þessum efnum. Skólastjórum grunnskóla er þó skylt að byggja slíka ákvörðun á gildum og málefnalegum rökum, að undangenginni þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum, og leysa úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða. Eins og að framan er rakið hefur kærandi fullyrt að tveimur nemendum í sambærilegri aðstöðu væri mismunað innan skólans. Þar sem sá samnemandi dóttur kæranda sem vísað er til í kæru er ekki aðili að máli þessu, og persónuupplýsingum hans því ekki til að dreifa í máli þessu, ákvað ráðuneytið að óska nánari skýringa skólastjóra [X-skóla] í tilefni af framangreindum fullyrðingum kæranda. Í bréfi borgarlögmanns, sem svaraði fyrirspurnum ráðuneytisins, er því haldið fram að læknisvottorð samnemandans sé með öllu ósambærilegt því læknisvottorði sem lá til grundvallar í máli dóttur kæranda og þegar af þeirri ástæðu sé því hafnað að um sambærileg mál sé að ræða. Í ljósi afdráttarlausra fullyrðinga borgarlögmanns, sem og hinnar ríku skyldu og ábyrgðar að lögum sem hvílir á skólastjórnendum að gæta jafnræðis milli nemenda, og góðra stjórnsýsluhátta að öðru leyti, þá telur ráðuneytið ekki unnt að véfengja sannleiksgildi svara borgarlögmanns, sem haft geta úrslitaþýðingu í málum sem sæta endurskoðun æðra stjórnvalds. Þá er það mat ráðuneytisins, með hliðsjón af þeim réttarheimildum sem hin kærða ákvörðun byggir á og þeim áherslum sem þar eru nánar útfærðar, að hin kærða ákvörðun sé studd nægilega málefnalegum rökum og rúmist innan þess svigrúms sem skólastjórum er veitt að þessu leyti samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem kveðið er á um í gildandi aðalnámskrá.

Samkvæmt öllu framansögðu skal hin kærða ákvörðun staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.“

III. Bréfaskipti umboðsmanns Alþingis og mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir gögnum málsins og skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í tilefni af kvörtun málsins. Ég tel aðeins þörf á að gera grein fyrir bréfaskiptum umboðsmanns og svörum ráðuneytisins að því leyti sem nauðsynlegt er vegna umfjöllunar minnar eins og hún er nánar afmörkuð í kafla IV.1 hér síðar.

Með bréfi 14. júlí 2011 óskaði umboðsmaður Alþingis þess m.a. að mennta- og menningarmálaráðuneytið hlutaðist til um að veita honum nánari upplýsingar um það á grundvelli hvaða ástæðna bekkjarsystir B í X-skóla hafi fengið undanþágu frá skyldunámi í íþróttum og jafnframt um það að hvaða leyti mál hennar væri talið ósambærilegt máli B. Þar sem þessar upplýsingar virtust ekki hafa legið fyrir þegar ráðuneytið kvað upp úrskurð í máli B óskaði umboðsmaður einnig eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort úrskurðurinn hefði byggst á fullnægjandi grundvelli og hvort meðferð málsins hefði verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins 15. september 2011 segir m.a. svo:

„Í símtali við skólastjóra [X-skóla] staðfesti hann að vottorð samnemanda [B] hafi [...] ekki verið sambærilegt [við vottorð hennar], þar hafi læknisfræðilegar orsakir (veikindi) verið til staðar sem hafi verið lögmætur grundvöllur undanþágu frá skólaleikfimi. Skólastjóri skýrði ekki nánar frá því um hvaða veikindi hafi verið að ræða. Samnemandi [B] er ekki aðili máls þessa og það er mat ráðuneytisins að um væri að ræða brot á reglum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs ef ráðuneytið færi fram á framlagningu vottorðs þriðja aðila án skýrrar lagaheimildar, sbr. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 9. gr. laganna um viðkvæmar persónuupplýsingar svo og 71. gr. stjórnarskrár Íslands um friðhelgi einkalífs.“

Jafnframt segir:

„Þótt ekki hafi legið [fyrir] nákvæmar upplýsingar um álagsmeiðsl/veikindi samnemandans hjá ráðuneytinu þá ítrekar ráðuneytið orð sín í úrskurðinum, að í ljósi afdráttarlausra fullyrðinga borgarlögmanns, sem og hinnar ríku skyldu og ábyrgðar að lögum sem hvílir á skólastjórnendum að gæta jafnræðis milli nemenda, og góðra stjórnsýsluhátta að öðru leyti, þá telji ráðuneytið ekki unnt að véfengja sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar að læknisvottorðin hafi verið með öllu ósambærileg. Í ljósi ofangreinds telur ráðuneytið að úrskurður þess hafi byggst á fullnægjandi grundvelli og verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.“

Í úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytisins í máli B er ekki vikið að heimildum ráðuneytisins til að afla eða kanna efni læknisvottorðs bekkjarsystur hennar. Umboðsmaður óskaði þess því með bréfi 8. nóvember 2011 að honum yrðu afhent öll þau gögn sem kynnu að liggja fyrir er bæru með sér hvaða mat hefði farið fram á því við meðferð málsins hvort slíkt væri heimilt samkvæmt lögum nr. 77/2000, s.s. á grundvelli 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Umboðsmaður spurði einnig hvort ráðuneytið hefði kannað þann möguleika að afla læknisvottorðsins með samþykki bekkjarsysturinnar og forsjármanna hennar. Hefði það ekki verið gert óskaði umboðsmaður eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það athafnaleysi hefði áhrif á það hvort ráðuneytið teldist hafa rannsakað málið með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Í svarbréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins 10. janúar 2012 kemur fram að í ráðuneytinu liggi ekki fyrir skrifleg minnisblöð um þennan þátt málsins en vísað er til gagna sem fylgdu bréfinu sem sögð eru „svara að einhverju leyti til þessarar lýsingar“. Í svarbréfi ráðuneytisins til umboðsmanns segir síðan eftirfarandi:

„Borgarlögmaður, sem kannaði bæði vottorðin fyrir ráðuneytið, er háttsettur embættismaður borgarinnar og nýtur óyggjandi trausts sem slíkur. Ráðuneytið treysti því borgarlögmanni til að komast að ábyrgri og óvilhallri niðurstöðu. Að mati borgarlögmanns voru læknisvottorð stúlknanna tveggja með öllu ósambærileg. Einnig hefur komið fram að ráðuneytið taldi það brot á lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að fara fram á framlagningu vottorðs þriðja aðila án skýrrar lagaheimildar. Að þessu athuguðu er það mat ráðuneytisins að það hafi með málsmeðferð sinni ekki brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið ákvað þó, í tilefni fyrirspurnar umboðsmanns Alþingis, að fara fram á afhendingu læknisvottorðs bekkjarsystur [B] og eru bæði vottorðin meðfylgjandi. Að mati ráðuneytisins er ekki um sambærileg vottorð að ræða, þar sem greinilega kemur fram að bekkjarsystirin er þegar komin með ýmis álagsmeiðsl. Í læknisvottorði [B] segir hins vegar aðeins að skólaleikfimi til viðbótar listdansinum auki hættu á álagsmeiðslum. Einnig kemur fram að bekkjarsystir [B] æfir íþrótt sína í 14 tíma á viku, en [B] æfir listdans í átta og hálfan tíma á viku, sem þar að auki er ekki skilgreindur sem íþrótt eins og áður hefur komið fram. Þar munar um fimm og hálfan æfingartíma á viku, en skólaleikfimi er aðeins tveir tímar á viku.“

Bréfinu fylgdi læknisvottorð bekkjarsystur B, dagsett 3. september 2010. Í því er ekki sérstaklega tilgreint hvort umræddur læknir telji nægja að tímabinda undanþáguna. Í vottorðinu segir:

„Það vottast hér með að viðkomandi er komin með ýmis álagsmeiðsli sökum æfinga á skautum. Að hætta æfingum kemur ekki til greina hjá henni en hún æfir samtals 14 klukkutíma á viku í þreki, ballett og skautum. Íþróttir í skóla væru til hins verra fyrir hana.“

Umboðsmaður Alþingis ritaði mennta- og menningarmálaráðherra bréf 14. mars 2012 þar sem tekið var fram að úrskurður ráðuneytisins virtist hafa byggst á ófullnægjandi eða jafnvel röngum upplýsingum um málsatvik, þ.e. að veikindi hefðu legið til grundvallar undanþágunni sem bekkjarsystur B var veitt. Í því sambandi var minnt á að í úrskurðinum hefði verið lagt til grundvallar að þetta atriði gæti haft „úrslitaþýðingu“. Jafnframt var minnt á að í bréfi Reykjavíkurborgar til ráðuneytisins frá 11. maí 2011 kæmi fram að ekki væri gerð krafa um að læknisvottorð staðfesti að álagsmeiðsl hefðu þegar átt sér stað svo að undanþága frá skyldunámi í íþróttum yrði veitt. Þegar hér var komið sögu hafði ráðuneytið þegar lýst ákveðnum viðhorfum sínum til sambærileika vottorðanna tveggja. Af hálfu umboðsmanns var þó óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það teldi annmarka hafa verið á úrskurði þess í máli B að þessu leyti, þ.e. hvort úrskurðurinn hefði byggst á röngum eða ófullnægjandi forsendum og ef svo væri hvort annmarkinn væri þess eðlis að leitt gæti til þess að ráðuneytinu væri skylt að ógilda ákvörðun sína að eigin frumkvæði.

Í svarbréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins 5. júní 2012 er áréttað að ráðuneytið hafi talið það samrýmast góðum stjórnsýsluháttum að treysta staðhæfingu Reykjavíkurborgar um að vottorð stúlknanna tveggja væru ósambærileg. Þá er vísað til þess að framlagning vottorðanna hafi staðfest að vottorðin væru ósambærileg. Síðan segir:

„Ráðuneytið vill að fram komi að þrátt fyrir að vottorðin séu ekki sambærileg og hefði samnemanda [B] verið synjað um undanþágu frá skólaíþróttum þrátt fyrir læknisvottorðið þá hefði niðurstaða málsins orðið sú sama og í máli [B] hefði það komið inn á borð ráðuneytisins. Ráðuneytið leggur áherslu á að skólaíþróttir eru meðal skilgreindra skyldunámsgreina samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla 2011, þar sem fjölbreytni og uppbyggjandi íþrótta- og hreyfinám er mikilvægur þáttur. Alhliða hreyfing og leikir, sem höfða til beggja kynja og allra aldurshópa eru þættir sem íþróttakennsla á að byggjast á og getur lagt grunninn að heilsusamlegum lífsstíl allra nemenda. Skólaíþróttir eru tvær kennslustundir í viku og skal miðað við að allir geti stundað þær. Í íþróttakennslu, líkt og í kennslu annarra námsgreina er leitast við að koma sem best til móts við þarfir hvers nemanda. Ef um einhverja líkamlega veikleika er að ræða, þá er æfingum sem reyna á veikari hluta líkamans iðulega skipt út fyrir aðrar æfingar eða komið til móts við viðkomandi nemanda með öðrum hætti. Þannig gætu æfingum sem t.a.m. reyna meira á fætur verið skipt út fyrir aðrar æfingar sem reyna meira á efri hluta líkamans. Ef á einhverjum tímapunkti álagið virðist vera nemandanum ofviða ber íþróttakennara að mæta því með viðeigandi hætti sem hugsanlega gæti falið í sér líkamlega hvíld en að nemandi fylgist þess í stað með í tímanum.

Ráðuneytið leggur áherslu á að þó röng ákvörðun hafi verið tekin af hálfu skólastjóra í einu máli, þá réttlætir það ekki að allar aðrar ákvarðanir verði að fá sömu niðurstöðu á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Rangar ákvarðanir myndu þá vera fordæmisgefandi fyrir skólastjóra allra grunnskóla landsins og er það mat ráðuneytisins að slíkt sé ekki í anda jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framansögðu telur ráðuneytið ekki vera grundvöll til þess að afturkalla úrskurði í framangreindu máli frá 10. júní 2011 á grundvelli 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga.“

IV. Álit.

1. Afmörkun málsins.

Athugun mín hefur beinst að því hvort mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi lagt fullnægjandi grundvöll að úrskurði sínum 10. júní 2011 í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í upphafi vík ég að lagagrundvelli málsins.

2. Lagagrundvöllur málsins.

Lög um grunnskóla eru nr. 91/2008. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 91/2008 fer ráðherra m.a. með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til, setur grunnskólum aðalnámskrá og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lögin kveða á um. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/2008 er rekstur almennra grunnskóla hins vegar á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Þau bera m.a. ábyrgð á heildarskipan skólahalds og framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu og setja sér almenna stefnu um grunnskólahald.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 91/2008 kemur fram að skólaskylda á grunnskólastigi sé að jafnaði í tíu ár, en geti verið skemmri, sbr. 32. gr. laganna, og að öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6-16 ára, sé skylt að sækja grunnskóla. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er áréttað að nemendum sé skylt að sækja grunnskóla en í 3. og 4. mgr. ákvæðisins er fjallað um tvær matskenndar undanþágur frá þeirri skyldu.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 er skólastjóra heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Enn fremur er skólastjóra heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/2008 er ekki að finna frekari skýringar á því hvers konar tilvik falli undir ákvæðið eða hvaða rök kunni að teljast gild í skilningi þess. Þó kemur fram að gert sé ráð fyrir að almenn viðmið um heimildir til að veita undanþágur verði settar í aðalnámskrá. (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1813.) Sambærilega heimild var að finna í 6. mgr. 35. gr. eldri laga um grunnskóla nr. 66/1995. Í athugasemdum við það ákvæði frumvarps er varð að lögum nr. 66/1995 segir að lagt sé til að heimilt verði að veita einstökum nemendum undanþágu frá því að stunda tilteknar námsgreinar. Þá segir að beiðnum af þessu tagi fjölgi, m.a. vegna fjölgunar nemenda af erlendum uppruna og heimkomu íslenskra nemenda sem hafa stundað nám í skólum erlendis. Þannig verði t.d. heimilt að meta móðurmálskunnáttu erlendra nemenda jafngilda námi í Norðurlandamáli. Lagt sé til að heimilt verði að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngilt tilteknu skyldunámi. Sem dæmi um þetta megi nefna sund, tónlistarnám eða listdans. Nemendur sem stundi slíkt nám utan grunnskólans hafi oft tileinkað sér kunnáttu og færni sem sé langt umfram það sem grunnskólinn geri kröfur um. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 1171.)

Í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 er mælt svo fyrir að sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti sé skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Þessi undanþága er bundin því skilyrði að foreldrar skulu sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Í athugasemdum við 15. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 91/2008 kemur fram að ekki séu settar í lögum eða reglugerðum frekari leiðbeiningar um hvað teljist gildar ástæður, en í öllum tilvikum sé ábyrgðin sett á foreldrana að sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Gildar ástæður geti t.d. tengst þátttöku í landsliðsverkefnum á sviði íþrótta, við æskulýðsstarf, ferðalög fjölskyldu og sjálfboðastarf. (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1812.) Sambærilegt ákvæði var áður í 8. gr. eldri laga nr. 66/1995. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 66/1995 segir að tímabundnar undanþágur séu t.d. keppnisferðir í íþróttum, aðstoð við bændur á álagstímum, eins og um réttir og sauðburð, og aðrar tímabundnar fjarvistir sem skólastjóri metur gildar. Þá segir að lagt sé til að lögfest verði að þegar undanþága af þessu tagi er veitt verði forráðamaður nemandans ábyrgur fyrir því að nemandi vinni upp það sem hann missir úr námi, enda eigi greinin við um þær undanþágur sem foreldrar eða forráðamenn sækja um. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 1163.)

Í aðalnámskrá grunnskóla, sbr. augl. 1111/2006, sem í gildi var þegar A sótti um undanþágu frá skyldunámi í íþróttum fyrir B, segir eftirfarandi í kaflanum: „Undanþágur frá aðalnámskrá“:

„Samkvæmt grunnskólalögum er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef gild rök mæla með því. Þá er t.d. átt við undanþágu nemenda með annað móðurmál en íslensku frá skyldunámi í dönsku og undanþágu fyrir nemendur með sérþarfir eða fötlun frá ákveðnum námsgreinum. Einnig er hægt að nýta þessa undanþáguheimild fyrir nemendur sem hafa sýnt afburðaárangur á ákveðnu sviði, t.d. í íþróttum, og hefur menntamálaráðuneytið útbúið leiðbeinandi reglur um meðferð slíkra mála.“

Þær „leiðbeinandi reglur“, sem vísað er til í niðurlagi aðalnámskrárinnar hér að ofan, hafa verið birtar á vefsíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en eins og athugun minni er háttað er ekki nauðsynlegt að fjalla um efni þeirra.

Í 5. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 er fjallað um málsmeðferð við töku ákvarðana um hvort veita skuli undanþágu samkvæmt 3. eða 4. mgr. ákvæðisins. Fram kemur að um töku slíkrar ákvörðunar gildi ákvæði stjórnsýslulaga. Þá segir að ákvörðun sé kæranleg eftir fyrirmælum 47. gr. laganna. Í úrskurði geti ráðherra mælt fyrir um að undanþága verði veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að af hálfu sveitarfélags hafi ekki verið fallist á slíka beiðni. Í athugasemdum við framangreinda 5. mgr. 15. gr. segir eftirfarandi um þetta atriði:

„Ef ekki næst samkomulag milli forráðamanna og skólastjóra um slíka undanþágu geta foreldrar kært synjun skólastjóra samkvæmt fyrirmælum 47. gr. Um meðferð kærumála vísast nánar til athugasemda við þá grein frumvarpsins. Rétt þykir að veita menntamálaráðuneytinu heimild til að mæla svo fyrir í úrskurði að undanþága skuli veitt í heild eða að hluta, jafnvel þó að sveitarfélag hafi ekki fallist á slíka beiðni. Ástæða þess að talið er rétt að fela ráðuneytinu valdheimild þessa er fyrst og fremst sú að þrátt fyrir sjálfstæði sveitarfélaga um rekstur grunnskóla verður að telja eðlilegt að hægt sé að tryggja a.m.k. að nokkru marki samræmi í því í hvaða tilvikum einstakir nemendur eigi að lögum rétt á undanþágu frá skólasókn. Hér getur verið um mikilvæg réttindi einstakra nemenda að ræða og þá er gert ráð fyrir að almenn viðmið um heimildir til að veita undanþágur verði settar í aðalnámskrá.“ (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1812-1813.)

Samkvæmt 47. gr. laga nr. 91/2008 eru tilteknar ákvarðanir um rétt og skyldu einstakra nemenda sem teknar eru í grunnskólum, þ. á m. ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli 3. og 4. mgr. 15. gr., kæranlegar til ráðherra. Um meðferð kærumála fer að ákvæðum stjórnsýslulaga. Af samspili framangreindrar 5. mgr. 15. gr. og 47. gr. laga nr. 91/2008, að virtum tilvitnuðum athugasemdum að baki fyrra ákvæðinu, verður með skýrum hætti ráðið að mennta- og menningarmálaráðherra er bæði ætlað að taka afstöðu í kæruferli til þess hvort grunnskóli hafi gætt að réttum formreglum við töku ákvörðunar og einnig eftir atvikum að taka beinlínis nýja ákvörðun, fallist það ekki á ákvörðun skólastjóra. Þegar ráðuneytinu berst kæra á þessum grundvelli vegna ákvörðunar grunnskóla leiðir af þessu hlutverki ráðuneytisins að það þarf að gæta að því hvort skólastjóri grunnskóla hafi lagt réttan grundvöll að málinu og þá í samræmi við gildandi lagareglur. Hafi gögn málsins ekki að geyma fullnægjandi upplýsingar getur komið til þess að ráðuneytið þurfi í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en það kveður upp úrskurð.

Með þessi lagasjónarmið að leiðarljósi vík ég nú að atvikum málsins.

3. Úrskurður mennta- og menningarmálaráðuneytisins og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í athugasemdum greinargerðar við 10. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum kemur fram að áður en hægt sé að taka stjórnvaldsákvörðun í máli verði að undirbúa það og rannsaka með það að markmiði að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Í rannsóknarreglunni felst m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Einnig kemur fram að það fari eftir eðli stjórnsýslumáls, svo og réttarheimild þeirri sem verður grundvöllur ákvörðunar, hvaða upplýsinga stjórnvald þurfi sjálft að afla svo að rannsókn máls teljist fullnægjandi. Mál teljist nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hafi verið aflað sem séu nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3293-3294.) Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga gildir við meðferð kærumála, sbr. 1. mgr. 30. gr. laganna, og verður æðra stjórnvald því að sjá til þess að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að hægt verði að taka efnislega rétta ákvörðun í máli.

Fyrir liggur að A hefur haldið því fram í málinu að X-skóli hafi ekki gætt samræmis og jafnræðis við ákvörðunartöku í málum B og bekkjarsystur hennar með því að komast að ólíkri niðurstöðu um beiðnir þeirra um undanþágu frá skyldunámi þrátt fyrir að læknisvottorð þeirra væru sambærileg. Þegar málið barst mennta- og menningarmálaráðuneytinu á grundvelli stjórnsýslukæru, sbr. 5. mgr. 15. gr. og 47. gr. laga nr. 91/2008, beindist ágreiningurinn þannig að ólíkri afstöðu málsaðila til þess hvort X-skóli hefði gætt að jafnræðisreglu í máli hennar að virtu eldra tilviki. Í ljósi hlutverks ráðuneytisins, eins og það hefur verið afmarkað hér að framan, bar því á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga að gera viðhlítandi ráðstafanir til að afla þeirra gagna sem nauðsynleg voru til að varpa ljósi á þennan þátt málsins. Var þá fyrst og fremst um að ræða upplýsingar um eldra málið og einkum efni þess læknisvottorðs sem lá til grundvallar ákvörðun skólastjóra um að veita undanþágu í því. Ráðuneytið gat ekki leyst sig undan þeirri skyldu með því einu að vísa til staðhæfinga í skýringum borgarlögmanns til ráðuneytisins án þess að rannsaka þennan þátt sjálfstætt.

Í skýringum ráðuneytisins til mín kemur fram að það hafi skort skýra lagaheimild til að afla vottorðs bekkjarsystur B í ljósi reglna um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Á þessa afstöðu get ég ekki fallist af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi leiðir af almennum reglum stjórnsýsluréttar að þegar kærusamband er á milli stjórnvalda ber lægra settu stjórnvaldi almennt að veita hinu æðra setta stjórnvaldi öll gögn og nauðsynlegar upplýsingar við meðferð kærumáls, sjá Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit. Reykjavík 1994, bls. 278-279. Þegar lög gera ráð fyrir að ráðuneytið fari með úrskurðarvald í kærumálum vegna ákvarðana sveitarfélaga eða stofnana þeirra verður að ganga út frá því að samsvarandi regla gildi.

Í öðru lagi verður að horfa til þess að samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra „laganauðsynja“. Ákvæðið er ekki bundið við kröfugerð fyrir dómstólum heldur tekur til ýmiss konar lögskipta, þ. á m. töku stjórnvaldsákvarðana, sjá Páll Hreinsson: Rafræn vinnsla persónuupplýsinga við meðferð stjórnsýslumála. Reykjavík 2007, bls. 21. Þá er mælt fyrir um það í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil ef hinn skráði samþykkir vinnsluna. Þó verður ekki séð að ráðuneytið hafi freistað þess að afla vottorðsins með því að leita eftir samþykki bekkjarsystur B og forsjármanna hennar. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður raunar ekki ráðið að X-skóli eða Reykjavíkurborg hafi nokkurn tímann hafnað því beinlínis að afhenda ráðuneytinu vottorðið eða haldið því fram að þeim væri það óheimilt.

Eins og fram kemur í kafla III í áliti þessu kallaði mennta- og menningarmálaráðuneytið að lokum eftir vottorði bekkjarsystur B í tilefni af athugun umboðsmanns Alþingis á málinu. Í svörum sínum til umboðsmanns hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið lagt til grundvallar að vottorð stúlknanna tveggja séu ekki sambærileg þar sem ástundun B sé talsvert minni í klukkustundum talið en ástundun bekkjarsystur hennar. Ég tel ekki þörf á að taka afstöðu til þessa atriðis, eins og athugun minni er háttað, sbr. kafla IV.1 hér að framan.

Eins og áður er rakið er skólastjóra samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 heimilt að veita nemanda undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein ef „gild rök? mæla með því. Þá getur hann samkvæmt 4. mgr. sömu greinar veitt tímabundna undanþágu frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti telji skólastjóri til þess „gildar ástæður?. Slík undanþága er bundin því skilyrði að foreldrar skuli sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Í ljósi efnis þeirrar undanþágu sem A fór fram á fyrir hönd dóttur sinnar reyndi hér eðli máls samkvæmt á hvort skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 væru uppfyllt. Í bréfi Reykjavíkurborgar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 11. maí 2011, í tilefni af kæru móður B, kemur fram að X-skóli geri undantekningarlaust kröfu um að læknisvottorð sé lagt fram þegar sótt er um undanþágu frá skyldunámi í íþróttum. Skólinn geri hins vegar ekki kröfu um að læknisvottorð staðfesti að álagsmeiðsl hafi þegar átt sér stað svo undanþága frá skyldunámi í íþróttum verði veitt. Þá sé skólastjóra X-skóla ekki kunnugt um að læknisvottorð um hættu á álagsmeiðslum í ljósi mikillar íþróttaiðkunar nemanda hafi nokkru sinni legið til grundvallar ákvörðunartöku í máli af þessu tagi innan skólans.

Samkvæmt framangreindu verður ekki annað ráðið en að X-skóli hafi lagt til grundvallar í störfum sínum að unnt sé að byggja undanþágur frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein á læknisfræðilegu ástandi barns sem gerð er grein fyrir í gildu læknisvottorði. Þá leiðir af lögskýringargögnum að baki þessum ákvæðum að undanþága frá skyldubundinni íþróttaiðkun kemur hér sannarlega til greina.

Í læknisvottorði því sem lá til grundvallar beiðni móður B um undanþágu er sérstaklega vísað til þess að listdansinn sem stúlkan stundi sé „mjög líkamlega krefjandi og [útheimti] mikið líkamlegt álag“. Það sé mat læknisins að „skólaleikfimi til viðbótar auki hættuna á álagsmeiðslum og [sé] því æskilegt út frá læknisfræðilegu sjónarmiði að undanþága væri gefin frá leikfimi í skólanum, þar sem [B] [sé] þegar í mikilli líkamsrækt“. Þegar skólastjóri X-skóla, og ráðuneytið í kæruferli málsins, tóku afstöðu til beiðninnar á grundvelli 15. gr. laga nr. 91/2008 lá þannig fyrir sérfræðilegt mat læknis á því að það gæti skaðað heilsu stúlkunnar að stunda frekari leikfimi í skólanum. Af gögnum málsins verður ekki séð að skólastjórinn, eða ráðuneytið á kærustigi, hafi samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga aflað annarra sérfræðilegra gagna, t.d. afstöðu trúnaðarlæknis, sem gátu stutt þá afstöðu að ekki væru fram komin „gild rök“ í merkingu 3. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 til að fallast á beiðnina. Þar sem ákvæði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 91/2008 mælir fyrir um einstaklingsbundið mat var að mínu áliti ekki fyrirfram hægt að útiloka að læknisvottorð af þessu tagi gæti leitt í ljós að gild rök í merkingu ákvæðisins væru til staðar í máli B. Til hliðsjónar bendi ég á að grein 16.8 í gildandi aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er að finna „leiðbeinandi reglur um verklag grunnskóla vegna beiðni foreldra um undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein, samkvæmt 15. gr. grunnskólalaga“. Þar segir að grunnskóli „[afli] nánari skýringa ef þess er talin þörf. Leitað [sé] álits sérfræðinga eða annarra aðila ef þurfa þykir?.

Að virtu því sem að framan er rakið er það í fyrsta lagi niðurstaða mín að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki haft undir höndum nægilegar upplýsingar til að leysa úr þeirri meginmálsástæðu A að ekki hefði verið leyst úr máli B með sama hætti og máli bekkjarsystur hennar. Með því að láta hjá líða að gera viðhlítandi ráðstafanir til að afla slíkra upplýsinga, einkum læknisvottorðsins sem lá til grundvallar eldri ákvörðun X-skóla, áður en ráðuneytið lagði úrskurð á málið, var málsmeðferð þess ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Í öðru lagi er það niðurstaða mín að hvað sem líður samanburði á þessum tveimur læknisvottorðum hafi ekki verið forsvaranlegt við úrlausn málsins að synja beiðni B um undanþáguna án þess að frekari gagna af sérfræðilegum toga væri aflað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar hef ég í huga að fyrir lá sérfræðilegt mat læknis á því að það gæti skaðað heilsu stúlkunnar að stunda frekari leikfimi í skólanum. Eru því forsendur til þess að ég setji fram tilmæli um að ráðuneytið taki mál A, fyrir hönd B, til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá henni. Ég legg á það áherslu að með framangreindum niðurstöðum hef ég ekki tekið afstöðu til þess að öðru leyti hvort skilyrði séu til að taka beiðni A, fyrir hönd B, efnislega til greina að hluta eða að öllu leyti. Hef ég því t.d. ekki tekið afstöðu til þess hvort til greina komi að gera þær ráðstafanir um sérstakt fyrirkomulag leikfimikennslu vegna aðstæðna B sem lýst er í bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins 5. júní 2012 til umboðsmanns Alþingis.

Ég tel að lokum rétt að fara nokkrum orðum um það sjónarmið sem fram kom í bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis 5. júní 2012, að hefði bekkjarsystur B verið synjað um undanþágu frá skyldunámi í íþróttum hefði niðurstaða ráðuneytisins í kærumáli vegna þeirrar synjunar orðið sú sama og í máli B. Þá segir að „þó röng ákvörðun hafi verið tekin af hálfu skólastjóra í einu máli, þá [réttlæti] það ekki að allar aðrar ákvarðanir verði að fá sömu niðurstöðu á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga“ og að „[rangar] ákvarðanir myndu þá vera fordæmisgefandi fyrir skólastjóra allra grunnskóla landsins [...]“.

Hvorki ráðuneytið né Reykjavíkurborg hafa lagt til grundvallar við meðferð málsins að ákvörðun í máli bekkjarsysturinnar hafi verið ólögmæt. Það er fyrst í skýringum ráðuneytisins til mín 5. júní 2012 sem hún virðist talin „röng“. Mér er ekki kunnugt um að X-skóli eða Reykjavíkurborg hafi haldið því fram að mistök hafi verið gerð þegar bekkjarsystur B var veitt undanþága. Að þessu virtu fæ ég ekki séð hvaða þýðingu framangreind sjónarmið ráðuneytisins gátu haft við mat á því hvort skilyrði væru til að afturkalla úrskurð þess í máli B.

V. Niðurstaða.

Að virtu því sem að framan er rakið er það í fyrsta lagi niðurstaða mín að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki haft undir höndum nægilegar upplýsingar til að leysa úr þeirri meginmálsástæðu A að ekki hefði verið leyst úr máli B með sama hætti og eldra máli bekkjarsystur hennar. Með því að láta hjá líða að gera viðhlítandi ráðstafanir til að afla slíkra upplýsinga, einkum læknisvottorðsins sem lá til grundvallar eldri ákvörðun X-skóla, áður en ráðuneytið lagði úrskurð á málið var málsmeðferð þess ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Í öðru lagi er það niðurstaða mín að hvað sem líður samanburði á því læknisvottorði sem lá til grundvallar beiðni B, og því sem fyrir hendi var í eldra málinu, hafi ekki verið forsvaranlegt við úrlausn málsins að synja beiðni hennar um undanþágu án þess að frekari gagna af sérfræðilegum toga væri aflað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar hef ég í huga að fyrir lá sérfræðilegt mat læknis á því að það gæti skaðað heilsu stúlkunnar að stunda frekari leikfimi í skólanum. Með framangreindum niðurstöðum hef ég ekki tekið afstöðu til þess að öðru leyti hvort skilyrði séu til að taka beiðni A, fyrir hönd B, efnislega til greina að hluta eða að öllu leyti.

Ég mælist til þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið taki mál A, fyrir hönd B, til endurskoðunar, komi fram beiðni þess efnis frá henni og taki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu.

Undirritaður hefur fjallað um mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

Róbert R. Spanó.