Lífeyrismál.

(Mál nr. 6929/2012)

A kvartaði yfir því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefði skert lífeyrisréttindi hans þegar hann fékk fjögurra mánaða launalaust leyfi úr föstu starfi sínu á meðan hann sinnti öðrum verkefnum fyrir íslenska ríkið. A var sjóðfélagi í B-deild LSR en á meðan hann sinnti umræddum verkefnum greiddi hann í A-deild. A taldi að ekki ætti að líta á þau verkefni sem hann sinnti fyrir ríkið sem nýráðningu heldur tilfærslu í starfi og að lífeyrisgreiðslur hans ættu því að að renna í B-deild.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti ákvæði 4. og 5. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og tók fram að af þeim yrði ekki annað ráðið en að til þess að heimilt væri að greiða iðgjöld til B-deildar LSR yrði hvert og eitt starf sem viðkomandi einstaklingur tæki að sér yrði að fullnægja skilyrðum 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna um að það væri til a.m.k. eins árs eða með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og væri ekki minna en hálft starf. Umboðsmaður tók jafnframt fram að af ákvæðum laganna leiddi að einstaklingur sem færi í launalaust leyfi til að gegna öðru starfi greiddi iðgjöld sín í A-deild LSR þar til hann færi annaðhvort aftur í gamla starfið eða færðist í starf sem uppfyllir aðildarskilyrði að B-deildinni. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við afgreiðslu LSR á málinu. Umboðsmaður tók jafnframt fram að engar upplýsingar lægju fyrir um að framkvæmd lífeyrissjóðsins hefði í einhverjum tilvikum verið á annan veg en byggt var á í máli A. Þar með taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess skoða málið sérstaklega með tilliti til jafnræðisreglna. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast í tilefni af kvörtuninni og lauk umfjöllun sinni um hana.