Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að sjúkraskrá.

(Mál nr. 6672/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem laut að afhendingu gagna úr sjúkraskrá hennar á Landspítalanum og bréfaskipta við landlæknisembættið og velferðarráðuneytið af því tilefni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2012.

Í skýringum til umboðsmanns vegna málsins lýsti velferðarráðuneytið þeirri afstöðu að í lögum nr. 55/2009, um sjúkraskrár, væri gert ráð fyrir að tilteknar synjanir væru kæranlegar til landlæknis en synjanir byggðar á öðrum lagagrundvelli væru hins vegar kæranlegar til velferðarráðuneytisins á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þeirrar afstöðu ráðuneytisins taldi umboðsmaður rétt, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að A leitaði til ráðuneytisins með sérstakt erindi. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að A gæti leitað til sín að nýju að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins teldi hún enn á rétti sínum brotið. Þar sem ekki varð séð að Landspítalinn eða landlæknir hefðu upplýst A um að hún gæti leitað til ráðuneytisins vegna málsins ákvað umboðsmaður jafnframt að rita landlæknisembættinu bréf þar sem hann mæltist til þess að embættið gætti þess að veita þeim sem til þess leituðu viðeigandi upplýsingar um kæruleiðir jafnvel þótt talin væri ástæða til að hafa afskipti af máli á öðrum grundvelli, t.d. vegna almenns eftirlits.

Umboðsmaður ákvað einnig að rita velferðarráðuneytinu bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að ráðuneytið hefði ekki, í ljósi yfirstjórnunarhlutverks síns, vakið athygli landlæknis og Landspítala á nauðsyn þess að upplýsa borgarana réttilega um kæruleiðir innan stjórnsýslunnar og eftir atvikum veita A viðeigandi leiðbeiningar að þessu leyti. Umboðsmaður beindi að lokum tilmælum til ráðuneytisins um að veita umsjónaraðilum sjúkraskráa leiðsögn um kæruleiðir vegna synjunar um aðgang að sjúkraskrá ef talið væri hugsanlegt að þeir væru ekki nægilega upplýstir um þær.