Atvinnuleysistryggingar. Vinnumarkaðsúrræði.

(Mál nr. 6192/2010)

A kvartaði yfir því fyrirkomulagi vinnumarkaðsúrræða að þeir sem hefðu þegið atvinnuleysisbætur eða átt rétt á slíkum bótum væru teknir fram fyrir þá atvinnuleitendur sem ekki væru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í erindi A kom m.a. fram að hann hann hefði sótt um fjöldann allan af störfum hjá Vinnumálastofnun en án árangurs og hefði fengið þau svör að þeir sem fengju úthlutað úr Atvinnuleysistryggingasjóði gengju fyrir í störfin. Umboðsmaður afmarkaði athugun sína við það hvort almennt væri heimilt að veita þeim sem væru tryggðir í atvinnuleysistryggingakerfinu forgang að störfum sem væru hluti af sérstökum átaksverkefnum stjórnvalda í atvinnumálum.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Settur umboðsmaður tók fram að störfin sem A sótti um hefðu verið hluti af sérstöku átaksverkefni sem var að miklu leyti fjármagnað af Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli 62. gr. laga nr. 54/2006 og þá í þágu þeirra sem áttu rétt til fjárhagsaðstoðar úr því greiðslukerfi. Settur umboðsmaður taldi því að ef tryggðum einstaklingum hefði verið veittur forgangur að slíku úrræði væri ekki tilefni til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag í ljósi gildandi laga og reglna um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Í ljósi þeirra upplýsinga frá velferðarráðuneytinu að unnið væri að úrlausn mála er vörðuðu almenna aðkomu ótryggðra einstaklinga að vinnumarkaðsúrræðum taldi settur umboðsmaður ekki rétt að svo stöddu að halda athugun sinni á þeim þætti málsins áfram. Hann lauk því athugun sinni á málinu en ritaði velferðarráðherra bréf þar sem hann kom þeirri ábendingu á framfæri að af 1. mgr. 7. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsgerðir, og lögskýringargögnum að baki lögunum væri ekki unnt að draga aðra ályktun en að löggjafinn hefði ákveðið að útfæra aðstoð samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar með þeim hætti að þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum væri almennt ekki háð því að atvinnuleitandi væri tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Hann tók einnig fram að ef til þess kæmi að umboðsmanni bærist erindi frá einstaklingi sem teldi sig beittan rangsleitni með framkvæmd vinnumarkaðsúrræða kynni hann m.a. að taka til athugunar hvort og þá með hvaða hætti stjórnvöld hefðu leitast við að ná þeim markmiðum sem að væri stefnt með lögum nr. 55/2006.