Eignir ríkisins.

(Mál nr. 6357/2011)

A kvartaði yfir niðurstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins í máli sem varðaði ákvörðun stjórnenda Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri að stofna einkahlutafélag um búrekstur sem skólinn hafði með höndum og segja þeim sem höfðu starfað við búreksturinn, þ. á m. A, upp störfum.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Settur umboðsmaður taldi sér ekki fært að gera athugasemdir við þá ákvörðun Landbúnaðarháskóla Íslands að stofna opinbert hlutafélag um búrekstur skólans á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga nr. 57/1999 um búnaðarfræðslu. Í þessu sambandi leit hann einnig til þess að Alþingi hefði nú veitt skólanum heimild til að stofna hlutafélag um búreksturinn og leggja til félagsins bústofn og lausafé sem stofnfé, sbr. 4. gr. fjáraukalaga sem samþykkt voru á Alþingi 7. desember 2010.

Umboðsmaður lagði til grundvallar að lög nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, giltu um aðilaskipti að rekstri frá hinu opinbera til einkaaðila eða eftir atvikum frá einkafyrirtækjum til hins opinbera að uppfylltum öðrum ákvæðum þess. Eins og atvikum var háttað í þessu máli taldi settur umboðsmaður þó verða að hafa í huga að væri rekstur fluttur frá hinu opinbera til einkaaðila, og samhliða því væri af rekstrarlegum ástæðum tekin ákvörðun hjá opinberum aðila að segja upp starfsfólki eða leggja niður opinber störf, færi jafnan um slíkar ákvarðanir eftir reglum opinbers starfsmannaréttar. Takmarkanir á heimildum stjórnvalda til að segja starfsmanni upp réðust þá af reglum laga nr. 70/1996 og yrði ekki séð að 4. gr. laga nr. 72/2002 hefði þannig sjálfstæða þýðingu í því sambandi. Þar sem sú ákvörðun að færa búrekstur skólans í einkahlutafélag leiddi óhjákvæmilega til þess að leggja niður stöður þeirra starfsmanna sem unnu við búrekstur skólans taldi umboðsmaður hins vegar ekki forsendur til að álíta að ákvörðun um að leggja niður starf A hefði brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá taldi hann ekki að átt hefði að fara með málið í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996, þar sem fram kemur að skylt sé að veita starfsmanni áminningu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Settur umboðsmaður tók fram að af gögnum málsins yrði ráðið að uppsögn A hefði byggst á rekstrarlegum forsendum og hefði verið liður í víðtækari aðgerðum með það að markmiði að spara og hagræða í starfsemi skólans. Með vísan til þess og þegar litið væri til gagna málsins í ljósi þess svigrúms sem forstöðumenn ríkisstofnana hafa í þessu efni taldi settur umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ákvörðun um uppsögn A vegna stofnunar einkahlutafélags um búrekstur skólans hefði verið ólögmæt. Jafnframt taldi hann ekki forsendur til athugasemda við aðra þætti er vörðuðu málsmeðferð mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Að lokum taldi settur umboðsmaður, að fengnum skýringum ráðuneytisins á atriðum er vörðuðu tiltekin réttindi starfsmanna hins nýja einkahlutafélags, ekki forsendur til að aðhafast vegna þeirra.