Fjármála- og tryggingastarfsemi. Einkaréttarlegir aðilar.

(Mál nr. 7097/2012)

A kvartaði yfir háttsemi fyrrverandi starfsmanna fjármálafyrirtækis, sem síðar störfuðu fyrir skilanefnd félagsins, í tengslum við gjaldeyrislán A og konu hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að kvörtunin beindist að starfsmönnum einkaaðila og varðaði ekki beitingu opinbers valds sem þeim aðila hefði verið fengið með lögum. Það félli því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um málið, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 85/1997. Ekki skipti máli að Fjármálaeftirlitið hefði, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, tekið yfir vald hluthafafundar og skipað skilanefnd sem tók við heimildum stjórnar félagsins, eða að fjármálafyrirtæki sem tók síðar við láninu væri að hluta til í eigu ríkissjóðs.

Þar sem kvörtunin beindist einnig að Fjármálaeftirlitinu, fjármálaráðherra og hugsanlega efnahags- og viðskiptaráðherra tók umboðsmaður fram að ekki yrði ráðið af erindi A að þau stjórnvöld hefðu tekið ákvörðun í eða komið á einhvern hátt að máli hans og því væru ekki skilyrði til þess að fjalla frekar um þann þátt kvörtunarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A færi þá leið að bera mál sitt undir þau stjórnvöld sem hann tilgreindi í kvörtuninni og yrði ekki sáttur við afgreiðslu þeirra á erindinu gæti hann leitað til sín að nýju.