Lögreglu- og sakamál. Niðurfelling máls.

(Mál nr. 6935/2012)

A o.fl. kvörtuðu yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að staðfesta ákvörðun sérstaks saksóknara um að hætta rannsókn kærumáls vegna samningsgerðar um kaup á fyrirtæki. Hin meintu brot fólust í því að við samningsgerðina hefðu kærðu framvísað verðmati sem gaf ranga mynd af stöðu fyrirtækisins. Kvörtunin beindist einnig að svarbréfi ríkissaksóknara í tilefni af athugasemdum A við niðurstöðuna þar sem fram komu viðbótarröksemdir fyrir afgreiðslu embættisins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti að orð stæðu gegn orði um efni tiltekins skjals sem framvísað var við samningsgerðina og innihélt verðmat á umræddu fyrirtæki, nánar tiltekið um það hvort kærendum hefði verið sýnd breytt útgáfa af skjalinu sem ekki innihélt vissa fyrirvara. Í ljósi þess hvernig kæra A o.fl. var úr garði gerð taldi umboðsmaður skjalið hafa verulega þýðingu við mat á því hvort tilefni væri til að halda rannsókn málsins áfram. Ekki varð séð að af öðrum gögnum málsins yrði ráðið hvort hið fyrirliggjandi skjal væri það sama og framvísað var við samningsgerðina eða hvort því hefði verið breytt. Umboðsmaður vísaði til þess að það kæmi í hlut ríkissaksóknara að leggja mat á hvort ástæða væri til að ætla að við rannsókn máls kæmu fram upplýsingar sem gætu leitt til saksóknar og jafnframt bæri ákæruvaldið sönnunarbyrði um málsatvik og refsiábyrgð. Umboðsmaður taldi sig enn fremur ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat ríkissaksóknara á því að ekki hefði verið grundvöllur til að halda rannsókn málsins áfram hefði verið óforsvaranlegt.

Enn fremur fékk umboðsmaður ekki betur séð en að það mat ríkissaksóknara væri forsvaranlegt að þar sem A o.fl. hefðu samið um verulega hærra söluverð en umrætt verðmat gerði ráð fyrir væri ekki augljóst að þeir hefðu verið beittir svikum með refsiverðum hætti við samningsgerðina.

Þá féllst umboðsmaður ekki á að tiltekinn starfsmaður sérstaks saksóknara hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli fyrri aðkomu sinnar að því, fyrst hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og síðar hjá sérstökum saksóknara. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að starfsmaður sem hefði áður fjallað um sama mál í öðru opinberu starfi yrði ekki vanhæfur af þeirri ástæðu einni. Þá væri ríkislögreglustjóri ekki lægra sett stjórnvald gagnvart sérstökum saksóknara heldur hefði embætti sérstaks saksóknara tekið yfir starfsemi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Jafnframt féllst umboðsmaður ekki á að embætti sérstaks saksóknara hefði verið vanhæft að annast rannsókn málsins enda lá ekki fyrir að sérstakur saksóknari, og þá starfsmenn hans á grundvelli undirmannavanhæfis, hefðu verið vanhæfir. Enn fremur taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu ríkissaksóknara að staða tiltekins endurskoðanda, sem var ráðgjafi í verktöku hjá sérstökum saksóknara, ylli ekki vanhæfi annarra starfsmanna embættisins. Þá lægju engin gögn fyrir um að endurskoðandinn hefði komið að rannsókn eða ákvarðanatöku í málinu.

Að lokum gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við að ríkissaksóknari hefði ekki brugðist sérstaklega við bréfi sem A ritaði embættinu enda var ekki að finna í því nýjar upplýsingar um málsatvik sem kölluðu á að tekin yrði afstaða til hugsanlegrar endurupptöku málsins. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið.