Félagasamtökin A kvörtuðu yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að vísa frá kæru samtakanna á hendur ríkisstjórninni og fleiri nánar tilgreindum aðilum vegna starfsemi og fjármögnunar Evrópustofu.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður rakti að samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, væri tekin matskennd ákvörðun um hvort hefja skyldi rannsókn vegna vitneskju eða grunsemda um refsivert athæfi. M.a. bæri að meta hvort fyrir lægi grunur ólögmæta og saknæma háttsemi og hvort fyrir lægju gögn eða vitneskja um atvik sem styddu eða gerðu sennilegt að refsiverð háttsemi hefði átt sér stað. Umboðsmaður tók jafnframt fram að almennt væri viðurkennt að handhafar ákæruvalds hefðu ákveðið svigrúm til að meta hvort fjármunum, mannafla og öðrum takmörkuðum gæðum skyldi varið í þágu rannsóknar tiltekins máls.
Ríkissaksóknari taldi að ekki hefði verið sýnt fram á eða gert líklegt að stjórnmálasamtök sem tilgreind voru í kærunni hefðu tekið á móti framlögum frá Evrópustofu vegna starfsemi sinnar eða sérstök tengsl væru á milli svo bryti í bága við lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Að virtum gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat.
Af skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns varð jafnframt ráðið að ekki hefði verið talið að refsiheimild 5. gr. laga nr. 62/1978, um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi, væri nægjanlega skýrt til að byggt yrði á henni í sakamáli. Með vísan til grunnreglunnar um lögbundnar og skýrar refsiheimildir, sbr. 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þeirrar reglu að ákæruvaldinu ber almennt að túlka vafa á refsilöggjöf sakborningi í vil, sbr. 3. mgr. 18. gr. og 108. gr. laga nr. 88/2008, taldi umboðsmaður ekki efni til að gera athugasemdir við það mat ríkissaksóknara.
Að lokum tók umboðsmaður fram að í lögum nr. 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband, þar sem m.a. kemur fram að það sé skylda þeirra sem njóta forréttinda og friðhelgi að skipta sér ekki af innanlandsmálum móttökuríkis, væri ekki að finna refsiheimild og því gæti ekki komið til rannsóknar sakamáls út af meintum brotum gegn þeim lögum.
Að þessu, gögnum málsins og atvikum virtum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við mat ríkissaksóknara á því að skort hefði tilefni til að hefja rannsókn í málinu eða telja matið óforsvaranlegt.
Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um þá kvörtun A að innanríkisráðuneytið hefði ekki svarað tilteknu erindi samtakanna þar sem einungis voru liðnar um tvær vikur frá sendingu bréfsins þegar kvörtunin barst umboðsmanni. Hann tók hins vegar fram að ef bréfinu hefði enn ekki verið svarað eða ef samtökin væru ósátt við svarið gætu þau leitað til sín á ný vegna þess.