Menntamál. Leikskólar.

(Mál nr. 6954/2012)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins í máli vegna ákvörðunar sveitarfélags um að hafna beiðni hans um leiðréttingu leikskólagjalda frá og með upphafi leikskólavistar dóttur hans. A greiddi leikskólagjöld án þess að njóta afsláttar vegna örorku sinnar en kvaðst hafa framvísað örorkuskírteini við innritun barnsins og leikskólastjóri hefði tekið afrit af því. Innanríkisráðuneytið lagði aftur á móti til grundvallar að sú staðhæfing ætti sér ekki stoð í gögnum málsins og staðfesti því niðurstöðu sveitarfélagsins um að endurgreiða einungis mánuð aftur í tímann í samræmi við gildandi reglur.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins og bréfi sveitarfélagsins til umboðsmanns þar sem fram kom að ný leit að afriti af skírteininu hefði ekki borið árangur taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu innanríkisráðuneytisins að ekki væri unnt að leggja til grundvallar að A hefði framvísað örorkuskírteininu við innritun barnsins.

Í ljósi þess að í dvalarsamningi sem A gerði vegna innritunarinnar var vakin athygli á því hvar upplýsingar um gjaldskrá væri að finna, að gildandi reglur um leikskólaþjónustu voru kynntar fyrir foreldrum og þar sem ekki varð séð að þau gögn málsins sem umboðsmaður hafði undir höndum hefðu átt að verða leikskólastjóra eða öðru starfsfólki sveitarfélagsins tilefni til að kanna sérstaklega hvort afrit af örorkuskírteini A lægi fyrir og þá, eftir atvikum, vekja athygli hans á að það skorti taldi umboðsmaður sig jafnframt ekki hafa forsendur til að draga í efa að sveitarfélagið hefði fullnægt rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga gagnvart honum. Umboðsmaður taldi því rétt að ljúka málinu.