Opinberir starfsmenn. Laun og starfskjör.

(Mál nr. 6982/2012)

A kvartaði yfir ákvörðunum um breytingu á starfskjörum sínum hjá sýslumannsembætti, nánar tiltekið niðurfellingu á greiðslum fyrir fasta yfirvinnu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki annað ráðið af kvörtun A og gögnum málsins en að erindi hennar lyti að sömu efnisatriðum og fjallað var um í dómi héraðsdóms í máli sem hún höfðaði gegn sýslumannsembættinu og íslenska ríkinu til ógildingar á ákvörðuninni og greiðslu skaðabóta. Því brast lagaskilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað í kvörtunina, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður vakti athygli A jafnframt á að kvörtun hennar hefði verið borin fram utan ársfrests samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem A vék m.a. að jafnræðissjónarmiðum við framkvæmd launabreytinga hjá ríkinu í kvörtun sinni tók umboðsmaður að lokum fram að þar sem hún vísaði ekki til einstakra tilvika sem hún teldi til marks um að ekki hefði verið gætt jafnræðis gagnvart sér teldi hann ekki unnt að fjalla um það. Upplýsingar sem komu fram í erindinu yrðu hins vegar hafðar til hliðsjónar við ákvörðun um framhald á almennri athugun á framkvæmd launabreytinga hjá ríkinu.