Samgöngumál. Ökuréttindi.

(Mál nr. 7109/2012)

A, sem hafði verið sviptur ökurétti, kvartaði yfir því að þurfa að þreyta próf vegna endurveitingar aukinna ökuréttinda, og taldi þá reglu ekki eiga að gilda í sínu tilviki þar sem dómur í máli hans féll áður en hún gekk í gildi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerðar nr. 830/2011, um ökuskírteini, þar sem m.a. kemur fram að umsækjandi um ökuskírteini skuli, áður en ökuskírteini er gefið út, þreyta bóklegt próf fyrir B-flokk og jafnframt verklegt próf fyrir hvern ökuréttindaflokk sem umsóknin varðar þegar hann hefur verið sviptur ökurétti í meira en ár, sbr. 28. gr. Umboðsmaður tók fram að fyrirkomulag prófa vegna endurveitingar ökuréttinda hefði að einhverju leyti verið annað fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Þar sem umkvörtunarefnið varðaði reglugerð sem er sett af innanríkisráðherra taldi umboðsmaður hins vegar rétt að afstaða innanríkisráðuneytisins lægi fyrir áður en hann tæki málið til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lauk því meðferð sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að leita til ráðuneytisins með málið og teldi sig enn beittan rangindum að fenginni úrlausn þess væri honum að heimilt að leita til sín að nýju.