Sjávarútvegsmál. Strandveiðar.

(Mál nr. 7131/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með erindi sem laut að stjórn strandveiða. Í erindinu voru settar fram spurningar í ellefu liðum og kom fram að A teldi þau atriði m.a. til marks um brot gegn jafnræðisreglu og samkeppnislögum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með framkvæmd laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og reglugerðar nr. 206/2012, um strandveiðar fiskveiðiárið 2011/2012, taldi umboðsmaður rétt að A leitaði til ráðherra með erindið áður en það kæmi til umfjöllunar hjá embætti sínu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Hann lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að leita með erindið til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gæti hann leitað til sín á nýjan leik teldi hann enn á rétt sinn hallað að fenginni afstöðu ráðherra.