Skattar og gjöld. Afslættir og bætur.

(Mál nr. 6522/2011)

A kvartaði yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði skuldajafnað meðlagsskuld hans við norska ríkið, sem stofnunin hafði til innheimtu, á móti vaxtabótum við útgreiðslu þeirra í júlí/ágúst 2011 og framkvæmd þeirrar ákvörðunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Athugun umboðsmanns beindist að því hvort heimilt hefði verið að skuldajafna vaxtabótunum á móti meðlagsskuld A í ljósi þess að stjórn innheimtustofnunar hafði tekið ákvörðun um greiðsluívilnun honum til handa. Heimild til skuldajöfnunar vaxtabóta á móti vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar eru í 14. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta.

Af gögnum málsins og skýringum innheimtustofnunar til umboðsmanns var ljóst að þegar upphafleg ákvörðun um greiðsluívilnun til handa A var tekin gilti sú framkvæmd að skuldajafna ekki vaxtabótum á móti meðlagsskuldum. Á stjórnarfundi 17. september 2010 var hins vegar ákveðið að breyta þeirri framkvæmd. Samningar um greiðsluívilnun eru tímabundnir samkvæmt lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, og endurskoðaðir á a.m.k. sex mánaða fresti. Umboðsmaður taldi því að stofnuninni hefði verið heimilt að breyta framkvæmd sinni að því gefnu að gætt hefði verið að því að tilkynna um hana með nægjanlegum fyrirvara og þannig að þeir sem breytingin varðaði gætu gætt hagsmuna sinna og gert viðeigandi ráðstafanir. Í umsókn A um endurnýjun á greiðsluívilnun í janúar 2011 og bréfi Innheimtustofnunar í febrúar sama ár þar sem tilkynnt var um að fallist hefði verið á umsóknina var fyrirvari um skuldajöfnuðinn. Í skýringum Innheimtustofnunar til umboðsmanns kom jafnframt fram að breyting framkvæmdarinnar hefði verið kynnt á heimasíðu stofnunarinnar, í tilkynningum sendum á þriggja til fjögurra mánaða fresti til allra meðlagsgreiðenda sem skulduðu meðlög, í umsóknareyðublöðum um greiðsluívilnanir og í öllum bréfum um niðurstöður stjórnar um greiðsluívilnanir. Þá hefði öllum skuldurum með greiðsluívilnanir verið send sérstök tilkynning 4. júlí 2011 þar sem upplýsingar um skuldajöfnuðinn komu fram. Umboðsmaður taldi að sá fyrirvari hefði ekki verið það óskýr að það leiddi til þess að óheimilt hefði verið að beita skuldajöfnuði gagnvart A. Að þessu virtu gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði skuldajafnað vaxtabótum á móti meðlagsskuld A.

Þar sem Innheimtustofnun hefur það lögbundna hlutverk að innheimta erlendar meðlagsskuldir og að fullnusta þeirra fer samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 1. mgr. 4. gr. Norðurlandasamnings um innheimtumeðlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 93/1962, og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971, taldi umboðsmaður sig að lokum ekki hafa forsendur til að fullyrða að óheimilt væri að skuldajafna vaxtabótunum á móti erlendri meðlagsskuld.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtun A en sendi honum til upplýsingar bréf sem hann hafði ritað innheimtustofnun í tilefni af svipuðum kvörtunum. Sjá mál nr. 6524/2011, 6544/2011 og 6550/2011.