A kvartaði yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði skuldajafnað meðlagsskuld á móti vaxtabótum við útgreiðslu þeirra í júlí/ágúst 2011. Kvörtunin laut m.a. að því að tilkynnt hefði verið um skuldajöfnunina með skömmum fyrirvara.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Athugun umboðsmanns beindist að því hvort heimilt hefði verið að skuldajafna vaxtabótunum á móti meðlagsskuld A í ljósi þess að stjórn innheimtustofnunar hafði tekið ákvörðun um greiðsluívilnun honum til handa. Heimild til skuldajöfnunar vaxtabóta á móti vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar eru í 14. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta.
Af gögnum málsins og skýringum innheimtustofnunar til umboðsmanns var ljóst að þegar upphafleg ákvörðun um greiðsluívilnun til handa A var tekin gilti sú framkvæmd að skuldajafna ekki vaxtabótum á móti meðlagsskuldum. Á stjórnarfundi 17. september 2010 var hins vegar ákveðið að breyta þeirri framkvæmd. Samningar um greiðsluívilnun eru tímabundnir samkvæmt lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, og endurskoðaðir á a.m.k. sex mánaða fresti. Umboðsmaður taldi því að stofnuninni hefði verið heimilt að breyta framkvæmd sinni að því gefnu að gætt hefði verið að því að tilkynna um hana með nægjanlegum fyrirvara og þannig að þeir sem breytingin varðaði gætu gætt hagsmuna sinna og gert viðeigandi ráðstafanir. Í skýringum Innheimtustofnunar til umboðsmanns kom fram að breyting framkvæmdarinnar hefði verið kynnt á heimasíðu stofnunarinnar, í tilkynningum sendum á þriggja til fjögurra mánaða fresti til allra meðlagsgreiðenda sem skulduðu meðlög, í umsóknareyðublöðum um greiðsluívilnanir og í öllum bréfum um niðurstöður stjórnar um greiðsluívilnanir. Þá hefði öllum skuldurum með greiðsluívilnanir verið send sérstök tilkynning 4. júlí 2011 þar sem upplýsingar um skuldajöfnuðinn komu fram. Umboðsmaður taldi að sá fyrirvari hefði ekki verið það óskýr að það leiddi til þess að óheimilt hefði verið að beita skuldajöfnuði gagnvart A. Að þessu virtu gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði skuldajafnað vaxtabótum á móti meðlagsskuld A. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu.
Í tilefni af kvörtun A og málum nr. 6544/2011 og 6550/2011 ákvað umboðsmaður þó að rita innheimtustofnun bréf þar sem hann kom tilteknum ábendingum á framfæri. Umboðsmaður benti m.a. að mál sem varða greiðsluívilnanir yrði að setja í skýrari búning og farveg. Þátt fyrir að umboðsmaður teldi fyrirvara í tilkynningum innheimtustofnunar til skuldara um að framvegis yrðu „vangreidd meðlög“ ávallt dregin frá vaxtabótum „óháð samþykktum stjórnar Innheimtustofnunar um ívilnanir eða öðrum ívilnunum“ ekki hafa verið það óskýran að honum yrði ekki beitt, benti hann stofnuninni einnig á að það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að orða fyrirvarann með ótvíræðari hætti. Að lokum hafði komið fram við meðferð málsins að stofnunin geymdi ekki afrit af öllum tilkynningum sem sendar væru skuldara en að verið væri að innleiða nýtt innheimtukerfi þar sem varðveisla gagna yrði bætt. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að fjalla frekar um þann þátt athugunarinnar en mæltist til þess að betur yrði hugað að þessu atriði til framtíðar, sbr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í lokamálsl. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, er gert ráð fyrir því að nánari ákvæði um framkvæmd greiðsluívilnunar skuli sett í reglugerð. Umboðsmaður sendi því innanríkisráðherra afrit af þessu bréfinu.