Skattar og gjöld. Erfðafjárskattur.

(Mál nr. 7102/2012)

A kvartaði yfir því að hafa ekki fengið fullnægjandi leiðbeiningar hjá sýslumannsembætti um reglur um skattlagningu á tekjum dánarbúa í tengslum við skil sín á erfðafjárskýrslu og greiðslu erfðafjárskatts.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, og tók fram að álagning erfðafjárskatts væri m.a. í höndum ríkisskattstjóra þótt sýslumaður gegndi þar einnig hlutverki. Með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, hlutverks ríkisskattstjóra við framkvæmd laga nr. 14/2004 og 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem kemur fram að ríkisskattstjóri fari með framkvæmd álagningar opinberra gjalda og skuli í því skyni setja framkvæmdar- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og verklagsreglum, birta reglur og ákvarðanir sem hann metur að hafi þýðingu fyrir skattaðila og eftir atvikum gefa slíkar ákvarðanir og reglur út og hafa til sölu, taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefnið undir ríkisskattstjóra áður en það yrði tekið til frekari umfjöllunar hjá embætti sínu. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A færi þá leið að leita með erindið til ríkisskattstjóra vegna starfshátta sýslumanns ætti hann þess kost, teldi hann enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu ríkisskattstjóra í málinu, að leita til sín á nýjan leik.