Skattar og gjöld. Meðlag.

(Mál nr. 6608/2011)

A kvartaði yfir framkvæmd Innheimtustofnunar sveitarfélaga á niðurfellingu meðlagsskuldar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Innheimtustofnun samþykkti beiðni A um niðurfellingu meðlagsskuldar vegna lágra tekna og erfiðrar fjárhagsstöðu 22. júlí 2011 með þeim hætti að afskrifa 75% af höfuðstól skuldarinnar og ákveða að framvegis greiddi hann einfalt meðlag þar til hann hefði gert skuldina upp. Samþykktin tók gildi 1. ágúst 2011. Áður en afskrifað var af höfuðstólnum ákvað innheimtustofnun hins vegar að skuldajafna á móti vaxtabótum sem komu til útborgunar 29. júlí 2011. A taldi að höfuðstólinn hefði átt að afskrifa áður en skuldajöfnuðinum var beitt. Umboðsmaður tók fram að af 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, sbr. 14. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og óskráðum meginreglum kröfuréttar um skuldajöfnuð, leiddi að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefði heimild til að skuldajafna vaxtabótum á móti meðlagsskuld. Í ljósi þess að innheimtustofnun lagði fram beiðni um skuldajöfnuð hjá Fjársýslu ríkisins 11. júlí 2011 og lýsti þar með yfir skuldajöfnuði áður en samþykkt var að afskrifa höfuðstól skuldarinnar að hluta, auk þess sem opinber gögn bentu til þess að skuldajöfnuðinum hefði að fullu verið lokið 29. júlí 2011, þ.e. áður en ákvörðunin tók gildi, taldi umboðsmaður rétt að ljúka athugun sinni á máli A. Hann ritaði stjórn innheimtustofnun hins vegar bréf og gerði athugasemdir við að í bréfi þar sem A var tilkynnt um að fallist hefði verið á beiðni hans um niðurfellingu að hluta hefði gildistökudagur ákvörðunarinnar ekki verið tilgreindur og að ekki hefði komið fram með skýrum hætti hvaða áhrif samþykkt greiðsluívilnunarinnar hefði á skuldastöðu hans. Umboðsmaður mæltist því til þess að betur yrði hugað að því í starfi stofnunarinnar.