Skattar og gjöld. Meðlag.

(Mál nr. 6874/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga um að endurgreiðslu greiddra meðlaga. Með ákvörðuninni var samþykkt að endurgreiða A greitt meðlag fjögur ár aftur í tímann þar sem komið hafði í ljós að hann var ekki faðir barnanna sem hann greiddi með. A taldi sig aftur á móti eiga rétt á að fá endurgreitt að fullu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi að lög nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, og reglugerð nr. 491/1996, um innheimtu og skil á meðlögum o.fl. á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga, kvæðu aðeins á um heimild, en ekki skyldu, Innheimtustofnunar til að endurgreiða greitt meðlag auk þess sem sú heimild ætti aðeins við um meðlag sem hefði verið greitt eftir að niðurstaða blóðrannsóknar eða ógildingardómur lægi fyrir. Af skýringum stjórnar stofnunarinnar yrði hins vegar ráðið að rétt hefði þótt að beita almennum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár og endurgreiða A greitt meðlag fjögur ár aftur í tímann. Í ljósi laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, og áðurgildandi laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, taldi umboðsmaður ljóst að endurgreiðslukrafa A lyti hinum almenna fjögurra ára fyrningarfresti. Umboðsmaður taldi því rétt að ljúka athugun sinni á málinu og tók m.a. fram það félli almennt utan við starfssvið umboðsmanns að fjalla um það hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefði samþykkt og því væru ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina að því marki sem hún sneri að efni þeirra lagareglna sem um ræddi.

Umboðsmaður ákvað þó að rita Innheimtustofnun sveitarfélaga bréf þar sem hann áréttaði mikilvægi þess að betur yrði gætt að því í svörum við beiðnum um endurgreiðslu greiddra meðlaga vegna útilokunar faðernis að fram kæmi hvort um væri að ræða ákvörðun stjórnar stofnunarinnar eða aðeins starfsmanns stofnunarinnar sem borin yrði undir stjórnina til endanlegrar ákvörðunar. Umboðsmaður minnti einnig á að ef litið væri svo á að rökstuðningur fylgdi við birtingu ákvörðunar bæri að haga efni hans í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.