Skattar og gjöld. Meðlag.

(Mál nr. 7079/2012)

Félagasamtökin A kvörtuðu yfir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga nýtti sér óspart heimild sína samkvæmt 1.-lið 7. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, til að krefja kaupgreiðendur um að halda eftir hluta af kaupi eða aflahlut meðlagsgreiðenda til lúkningar meðlögum. Þá laut erindið að því að þegar meðlagsskuldarar leituðu til félagsþjónustu Reykjavíkur og óskuðu eftir fjárhagsaðstoð væri þeim neitað um hana á grundvelli heildarlauna, þótt í raun fengju þeir engin laun.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að af 2., 4. og 6. gr. laga nr. 85/1997 leiddi að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds yrði að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar á grundvelli kvörtunar, heldur yrði kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum eða ákvörðunum stjórnvalds sem beinast að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. Af erindi A varð ráðið á náðir samtakanna hefðu leitað meðlagsgreiðendur sem hefðu átt í persónulegum samskiptum við Innheimtustofnun sveitarfélaga og félagsþjónustu Reykjavíkur. Í ljósi þess og með tilliti til verkefnastöðu embættisins taldi umboðsmaður því rétt að þeir leituðu sérstaklega til sín eða veittu A formlegt umboð til þess að leita til sín fyrir þeirra hönd, fremur en málið yrði tekið til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5.gr. laga nr. 85/1997. Þá benti umboðsmaður á, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að ákvörðun um synjun Reykjavíkurborgar á umsókn um fjárhagsaðstoð mætti vísa til velferðarráðs Reykjavíkurborgar, sbr. 34. og 35. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, og ákvörðun velferðarráðs væri síðan unnt að skjóta til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Áfrýjun til velferðarráðs væri þó ekki nauðsynlegur undanfari kæru til úrskurðarnefndarinnar.