Skattar og gjöld. Meðlag.

(Mál nr. 7098/2012)

A kvartaði yfir því að hafa ekki verið tilkynnt um samkomulag sem Innheimtustofnun sveitarfélaga gerði við launagreiðanda hans um innheimtu meðlagsgreiðslna. A gerði einnig almennar athugasemdir við samskiptaleysi stofnunarinnar gagnvart skilvísum meðlagsgreiðendum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1987, taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að leita með erindi sitt til stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga, sem gegnir tilteknu hlutverki við eftirlit með starfsemi stofnunarinnar, áður en málið kæmi til umfjöllunar hjá embætti sínu, enda ætti stjórn stofnunarinnar þá eftir atvikum kost á því að taka afstöðu til þess hvort erindi A heyrði undir starfssvið hennar. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að leita til stjórnar innheimtustofnunar og teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni afstöðu hennar til erindisins gæti hann leitað til sín að nýju.