Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6925/2012)

A ehf. kvartaði yfir niðurstöðu yfirskattanefndar þar sem hafnað var kröfu félagsins um að fella úr gildi úrskurð skattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af forsendum í úrskurði yfirskattanefndar varð ráðið að nefndin hefði lagt sjálfstætt mat á skattalegt eðli tiltekinna greiðslna frá A ehf. til B ehf., svo sem nefndinni er heimilt, og talið að þar væri um arðgreiðslur að ræða en ekki greiðslur fyrir aðkeypta þjónustu. Að gögnum málsins virtum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að það mat yfirskattanefndar væri óforsvaranlegt. Þá féllst umboðsmaður ekki á að rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu stæðist ekki að formi og efni til.

Umboðsmaður gat ekki heldur fallist á það með A ehf. að yfirskattanefnd hefði notað rýmkandi lögskýringu við mat á því hvenær greiðsla úr félagi með takmarkaða ábyrgð eigenda teldist vera arður. Í því sambandi vísaði hann til þess að hugtakið arður í skilningi 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, væri sjálfstætt hugtak í skattarétti sem ekki væri sjálfgefið að hefði ætíð sama inntak eða skýra bæri með sama hætti og samsvarandi hugtak á sviði félagaréttar. Af ákvæðinu yrði ráðið að undir hugtakið félli ekki eingöngu venjuleg arðgreiðsla heldur einnig sérhver afhending verðmæta til viðkomandi með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja yrði sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.

Umboðsmaður tók enn fremur fram að ólíkt mat skattstjóra annars vegar og yfirskattanefndar hins vegar leiddi ekki til þess að yfirskattanefnd teldist hafa leyst úr málinu á öðrum grundvelli en stuðst var við við meðferð málsins hjá skattstjóra eða í kæru til yfirskattanefndar. Hann fékk því ekki séð að það hefði ekki rúmast innan valdheimilda yfirskattanefndar að endurskoða það mat skattstjóra að um launagreiðslur hefði verið að ræða eða að nefndin hefði með því raskað grundvelli málsins eins og hann var afmarkaður í kæru A ehf. Í ljósi fyrirliggjandi andmælabréfs A ehf. til skattstjóra vegna málsins gat umboðsmaður jafnframt ekki fallist á að félaginu hefði ekki gefist færi á að tjá sig um þetta atriði.

Umboðsmaður fékk ekki séð að atvik í öðru máli sem A ehf. vísaði til væru sambærileg atvikum í máli félagsins. Hann fékk því ekki séð að úrskurður í því máli renndi stoðum undir þá ályktun A ehf. að afgreiðsla á máli félagsins fæli í sér frávik frá gildandi rétti. Í ljósi þeirrar óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að æðra stjórnvald geti vísað máli frá, fellt það niður, staðfest ákvörðun lægra setts stjórnvalds eða breytt henni nema annað leiði af lögum gat umboðsmaður ekki fallist á að áralöng hefði væri fyrir því að yfirskattanefnd felldi mál niður þegar ríkisskattstjóri gerði ekki kröfu um breyttan málsgrundvöll. Umboðsmaður benti einnig á að mörg þeirra mála sem A ehf. vísaði til til stuðnings þeirri staðhæfingu væru ekki sambærileg máli félagsins.

Í kæru A ehf. var ekki gerð krafa um niðurfellingu álags. Með vísan til lögskýringargagna að baki 2. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þar sem fram kemur sú ætlun löggjafans að skýrt verði að koma fram í kæru til nefndarinnar hver kæruefni eru, taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fallast á það með A ehf. að venja væri að krafa um niðurfellingu ákvörðunar fæli jafnframt í sér kröfu um niðurfellingu álags. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu yfirskattanefndar að ekki væru efni til að fella ákvörðun skattstjóra um virðisaukaskatt niður.

Að lokum tók umboðsmaður fram að hann hefði ekki forsendur til að aðhafast vegna þess kvörtunarefnis að í lög skorti úrræði til að jafna stöðu nátengdra aðila sem skulda virðisaukaskatt og eiga kröfu á ríkissjóð vegna sömu skatta, enda tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.