Sveitarfélög.

(Mál nr. 6484/2011)

A og B kvörtuðu yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem kæru þeirra, er varðaði lántöku sveitarstjóra í nafni sveitarfélags, var vísað frá á þeim grundvelli að þriggja mánaða kærufrestur væri liðinn í málinu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við að innanríkisráðuneytið hefði fjallað um erindi A og B á grundvelli 103. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 fremur en 102. gr. laganna. Ráðuneytið miðaði upphaf kærufrests við fund sem A og B, er þá sátu í sveitarstjórn, áttu með lánveitandanum í september 2009, en þá kom lántakan til umræðu. Umboðsmaður taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það. Í ljósi þeirra skyldna og ábyrgðar sem hvílir á sveitarstjórnarmönnum samkvæmt lögum taldi umboðsmaður ekki heldur ástæðu til að gera athugsemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ekki væru fyrir hendi afsakanlegar ástæður, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem réttlættu að kæran yrði tekin til meðferðar að liðnum kærufresti. Í ljósi undirliggjandi ágreinings í málinu og aðkomu fyrrverandi sveitarstjóra að því taldi umboðsmaður enn fremur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu ráðuneytisins að rétt væri að líta til einstaklings- og starfstengdra hagsmuna sveitarstjórans við mat á því hvort veigamiklar ástæður, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, mæltu með því að kæran yrði tekin til meðferðar og að þeir vægju þyngra en hagsmunir A og B af málinu. Jafnframt taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu ráðuneytisins að hagsmunir almennings af efnismeðferð málsins væru ekki slíkir að þeir réttlættu að frávik frá kærufresti og hafði þar m.a. hliðsjón af því að valdheimildir ráðuneytisins tækju ekki til þess að kveða á um skuldbindingargildi samningsins um lántökuna.

Að lokum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat ráðuneytisins að umfjöllun þess um málið hefði ekki „efnislegar afleiðingar fyrir almenning“ og þar með væru ekki fyrir hendi slíkir almannahagsmunir að tilefni væri til almennra eftirlitsathafna á grundvelli 102. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Þar leit umboðsmaður m.a. til atvika málsins og þess að ákvæði 102. gr. veitti ráðuneytinu verulegt svigrúm til þess að ákveða hvaða mál það tæki upp á þeim grundvelli. Í málinu lá fyrir að ráðuneytið taldi sig ekki hafa sinnt fyllilega þeirri skyldu sinni að tilkynna A og B um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins og að afgreiðslutíminn í málinu hefði ekki samrýmst 2. mgr. 103. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Auk þess áformaði ráðuneytið að taka upp nýjan verkferil við meðferð stjórnsýslukæru. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar út af þeim atriðum.

Í ljósi þess að málinu var að vísað frá og þar með ekki tekin efnisleg afstaða til þess taldi umboðsmaður að lokum ekki tilefni til að fjalla um hvort innanríkisráðuneytinu hefði verið skylt að gefa A og B tækifæri til að tjá sig um efni umsagna sem ráðuneytið óskaði vegna málsins, en af forsendum úrskurðar ráðuneytisins í málinu varð ekki séð að þær hefðu haft sérstaka þýðingu fyrir mat á því hvort kæran yrði tekin til efnismeðferðar. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að fjallað frekar um kvörtunina og lauk málinu.