Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 7071/2012)

Hinn 26. júní 2012 kvartaði A yfir því að Landspítalinn hefði ekki svarað bréfi, dags. 4. maí 2012, sem varðaði beiðni um að blóðsýni yrði sent erlendis til rannsóknar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum Landspítala til umboðsmanns vegna málsins kom fram að dregist hefði að svara erindinu en að það hefði verið gert 24. júlí 2012. Umboðsmaður taldi því ekki rétt að aðhafast frekar og lauk athugun sinni á málinu. Hann vakti þó athygli A á að möguleikum hennar á að leggja fram kvörtun hjá landlækni, s.s. á grundvelli 2. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, eða 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, en tók fram að hann hefði enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð eða afgreiðslu erindið kynni að hljóta af hálfu landlæknis.