Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 7077/2012)

Hinn 28. júní 2012 kvartaði A yfir töfum á afgreiðslu sýslumannsembættis á máli sem laut að umgengni við börn.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. ágúst 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum sýslumanns til umboðsmanns vegna málsins kom fram að beiðni um umgengni hefði borist frá öðru sýslumannsembætti í júní 2011. Í kjölfarið hefði m.a. verið óskað eftir því að félagsþjónusta heimasveitarfélags barnanna kannaði hagi og aðstæður þeirra og sendi rökstuddar tillögur um fyrirkomulag umgengninnar. Sveitarfélaginu hefði verið sent bréf 7. maí og 12. júlí 2012 til að kanna hvað liði afgreiðslu málsins og þá borist þau svör að unnið væri að því að ljúka málinu sem fyrst. Í ljósi þessara svara og þar sem stefnt var að því að ljúka málinu sem fyrst taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar og lauk athugun sinni. Hann tók þó fram að drægist meðferð málsins enn á langinn gæti A leitað til sín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita sýslumanni bréf þar sem hann benti á að þegar stjórnvald leitaði upplýsinga eða afstöðu annars stjórnvalds til máls bæri það eftir sem áður ábyrgð á því að hafa meðferð málsins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, þ. á m. að afgreiðsla málsins tefðist ekki af þeim sökum. Umboðsmaður taldi að meðferð málsins hefði ekki verið í nægilega góðu samræmi við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og benti sýslumanni á að gæta framvegis betur að því með meðferð sambærilegra mála. Þá vakti hann athygli embættisins á skyldu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga til þess að tiltaka í umsagnarbeiðni fyrir hvaða tíma umsagnar væri óskað. Að lokum vakti umboðsmaður athygli sýslumanns á sjónarmiðum og tilmælum í áliti frá 7. nóvember 2006 í máli nr. 3566/2002 varðandi m.a. setningu fresta þegar leitað er umsagna og beitingu ítrekana í þeim tilvikum þegar svör berast ekki innan tilskilins frests.