Opinberir starfsmenn. Ráðning í starf deildarstjóra. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Mat á hæfni umsækjenda. Forsvaranlegt mat. Skráningarskylda.

(Mál nr. 6614/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Landspítalans um að ráða C í starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild. A taldi að hún hefði staðið þeim einstaklingi sem ráðinn var framar hvað varðar menntun, starfsreynslu og stjórnunarreynslu.

Settur umboðsmaður rakti almennar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um opinbert starf. Taldi hann ekki vafa undirorpið að A hefði haft lengri starfsreynslu en C. A hefði einnig haft umtalsvert meiri reynslu af stjórnun, starfsmannaábyrgð og rekstri. Þá hefði A ívið meiri menntun en C. Af gögnum málsins yrði dregin sú ályktun að það sjónarmið sem vegið hefði þyngst við ráðningu í starfið hefði verið hugmyndir C um framtíðarsýn starfseminnar. Settur umboðsmaður taldi að heimilt væri að ljá því sjónarmiði vægi við val á milli hæfra umsækjenda, einkum á sviði stjórnunar, hvaða hugmyndir þeir hefðu um viðkomandi starfsemi og hvort þær féllu að viðhorfum þess sem veitti starfið. Skírskotun veitingarvaldshafa til frammistöðu umsækjanda í viðtali og framtíðarsýnar hans gæti þó ekki ein og sér fengið slíkt vægi við hæfnismat að það ryddi almennt úr vegi öðrum umsækjanda sem hlutlægt séð hefði meiri menntun og töluvert meiri stjórnunarreynslu og reynslu af starfsmannaábyrgð og rekstri á því sviði sem um ræddi. Ætti þetta sérstaklega við þegar viðeigandi stjórnunarreynsla þess umsækjanda sem ráðinn væri í opinbert stjórnunarstarf væri afar lítil. Til að slíkt kæmi yfirhöfuð til greina yrði að liggja nægilega fyrir samkvæmt gögnum málsins að veitingarvaldshafi hefði gefið þeim umsækjanda, sem stæði sýnilega framar hvað varðar hlutlægar hæfiskröfur um menntun og starfsreynslu, raunhæft tækifæri til að setja fram hugmyndir sínar í þessum efnum.

Settur umboðsmaður taldi að á því hefði leikið vafi að Landspítalinn hefði gert nægilegan reka að því að gefa A, sem stóð framar C hvað varðar þær hlutlægu kröfur sem fram komu í auglýsingu, nægilegt tækifæri til að koma hugmyndum sínum um framtíð starfseminnar til skila í matsferlinu. Það var niðurstaða setts umboðsmanns þegar litið væri til menntunar og starfsreynslu A, þar á meðal reynslu hennar af stjórnun, starfsmannaábyrgð og rekstri, og hún borin saman við starfshæfni C á þessu sviði, að Landspítalinn hefði ekki sýnt fram á að það hefði verið forsvaranlegt að sjónarmið um framtíðarsýn umsækjenda hefði getað leitt til þeirrar niðurstöðu að C yrði valin fremur en A. Meira hefði þurft að koma til, einkum frekari upplýsingaöflun af hálfu Landspítalans, svo réttlætanlegt gæti talist á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar að ljá hugmyndum um framtíðarsýn jafn ríkt vægi andspænis því forskoti sem A hafði þegar litið væri til þeirra hlutlægu hæfiskrafna sem fram hefðu komið í auglýsingu.

Það voru tilmæli setts umboðsmanns Alþingis að virtum atvikum málsins að Landspítalinn leitaði leiða til að rétta hlut A og tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 30. ágúst 2011 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun Landspítalans 27. maí 2011 að ráða C í starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans, sem auglýst var 9. apríl 2011, en A var á meðal umsækjenda. Í kvörtuninni kemur fram að A telji að hún hafi staðið þeim einstaklingi sem ráðinn var framar hvað varðar menntun, starfsreynslu og stjórnunarreynslu. Þá telur hún að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki ráðningunni. Enn fremur eru gerðar athugasemdir við rökstuðning ákvörðunarinnar.

Með bréfi forseta Alþingis 14. nóvember 2012 var undirritaður settur á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis til að fjalla um mál þetta, þar sem kjörinn umboðsmaður hafði ákveðið að víkja sæti í því.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 4. febrúar 2013.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins sótti A um starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans með umsókn 13. maí 2011 í kjölfar auglýsingar starfsins í apríl 2011 á Starfatorgi og í Morgunblaðinu, en umsóknarfrestur hafði verið framlengdur einu sinni. Í auglýsingunni var starfssviði og helstu verkefnum deildarstjóra lýst með eftirfarandi hætti:

„Kvenna- og barnasvið auglýsir laust til umsóknar starf deildarstjóra meðgöngu- og sængurkvennadeildar. Deildarstjórinn er yfirmaður ljósmæðraþjónustu á deild, stjórnar daglegum rekstri og er leiðandi um ljósmóður- og hjúkrunarfræðileg málefni innan deildarinnar.

Helstu verkefni og ábyrgð

Fagleg ábyrgð

Fjárhagsleg ábyrgð

Starfsmannaábyrgð“

Í auglýsingunni var síðan mælt fyrir um eftirfarandi kröfur um almennt hæfi og kröfur um hæfni:

„Ljósmóður- og hjúkrunarfræðimenntun

Framhaldsnám í ljósmóður- og/eða hjúkrunarfræði er æskilegt

A.m.k. 3-5 ára starfsreynsla sem ljósmóðir

Leiðtogahæfileikar

Samskiptahæfni

Stjórnunarreynsla“

Fimm umsóknir bárust um starfið, en fjórir umsækjendur voru boðaðir í viðtöl, þar á meðal A og C. Leitað var álits stöðunefndar hjúkrunarráðs Landspítala á hæfni umsækjenda til að gegna stöðunni. Í áliti stöðunefndarinnar 20. maí 2011 kom fram það mat nefndarinnar að samkvæmt innsendum gögnum og kröfum settum fram í auglýsingu væru A og annar umsækjandi hæfust til að gegna stöðunni með þeim fyrirvara að umsókn þess síðarnefnda fylgdi ekki afrit af leyfum og prófskírteinum. Báðir umsækjendur hefðu reynslu af starfsmannastjórnun og hefðu áður gegnt stöðu deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennagangi. Þá var rakið í álitinu að C hefði ekki reynslu af starfsmannastjórnun.

Hinn 27. maí 2011 var A tilkynnt símleiðis að tekin hefði verið ákvörðun um ráðningu í starfið. Með tölvubréfi 21. júní 2011 tilkynnti Landspítalinn A skriflega að C hefði verið ráðin í starfið. Í bréfinu var vakin athygli á því að samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu umsækjendur krafist rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Með tölvubréfi sama dag óskaði A eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðningu í starfið. Í rökstuðningi Landspítalans til A 13. júlí 2011 sagði eftirfarandi:

„Auk birtingar á Starfatorgi var starfið auglýst í Morgunblaðinu. 5 umsóknir bárust og voru 4 umsækjendur boðaðir til viðtals. Ákvörðun um ráðningu í umrætt starf byggðist á þeirri reglu stjórnsýsluréttar að ráða beri hæfasta umsækjandann í starf hjá stjórnvaldi. Mat á hæfi umsækjenda byggðist á innsendum gögnum og viðtölum við umsækjendur. Að loknu ferli við mat á hæfi umsækjenda var ákveðið að ráða [C] í starfið. Þau meginsjónarmið sem voru ráðandi við matið lutu að starfsreynslu, menntun og framtíðarsýn. [C] lauk B.S. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og embættisprófi í ljósmóðurfræði frá sama skóla árið 2006. [C] hefur starfað í Hreiðrinu frá árinu 2006 sem ljósmóðir og um 8 mánaða skeið á meðgöngu- og sængurkvennadeild 22A. Áður vann hún á hjartadeild 14E/G árin 2001-2005. [C] hefur víðtæka reynslu af fag- og félagsstörfum, var m.a. varaformaður Ljósmæðrafélags Íslands árin 2009-2011 og hefur verið stundakennari við ljósmóðurfræðinám Háskóla Íslands frá árinu 2009. Hún hefur einnig setið í ýmsum vinnuhópum, nefndum og ráðum á vegum framkvæmdastjóra hjúkrunar á LSH.

Hugmyndir [C] um þróun starfsins, þjónustu og stjórnun voru skýrar, framsæknar og trúverðugar auk þess að vera lausnamiðuð. Hún hefur góða framtíðarsýn en þörf LSH er að stjórnendur hafi skýra framtíðarsýn og gegna deildarstjórar lykilhlutverki í að framfylgja stefnu spítalans og vinna að þeim markmiðum sem hann starfar eftir og skipta leiðtogahæfileikar [C] þar miklu máli. Umrædd sjónarmið réðu mestu um ákvörðun um ráðningu í starfið.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Í tilefni af kvörtun A var Landspítalanum ritað bréf 7. september 2011, þar sem óskað var eftir öllum gögnum málsins, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Bárust gögn málsins með bréfi Landspítalans frá 21. október 2011. Umboðsmaður ritaði Landspítalanum bréf 1. nóvember 2011 og óskaði eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 að Landspítalinn lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar og skýrði nánar ástæður að baki ákvörðun um ráðningu í starfið og hvaða sjónarmið hefðu vegið þar þyngst. Í þessu sambandi óskaði umboðsmaður eftir því að gerð yrði grein fyrir því hvernig umsóknir A og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið hefðu verið metnar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ákvörðunin byggðist á. Þá óskaði umboðsmaður sérstaklega eftir því að Landspítalinn veitti umboðsmanni í svari sínu upplýsingar og skýringar á nánar tilteknum atriðum, en ég tel aðeins nauðsynlegt að víkja að þeim atriðum sem sérstaklega hljóta umfjöllun í kafla IV.

Umboðsmaður tók m.a. fram að í ljósi þess hve stjórnun væri stór hluti af starfi deildarstjóra meðgöngu- og sængurkvennadeildar, sbr. auglýsingu starfsins, óskaði hann sérstaklega eftir upplýsingum um hvort það sjónarmið hefði verið lagt til grundvallar við mat á umsækjendum og hvernig samanburði á þeim umsækjanda sem ráðinn var og A hefði verið háttað hvað þetta atriði varðaði. Þá benti umboðsmaður á að í rökstuðningi Landspítalans 13. júlí 2011 hefði komið fram að hugmyndir þess umsækjanda sem ráðinn hefði verið um þróun starfsins, þjónustu, stjórnun og framtíðarsýn hefðu ráðið mestu um ákvörðun um ráðningu í starfið. Óskaði umboðsmaður því eftir upplýsingum um hvernig þessi atriði hefðu verið könnuð hjá umsækjendum, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði umboðsmaður eftir því að honum yrði gerð grein fyrir hvað hefði falist í hugmyndum og framtíðarsýn þess umsækjanda sem ráðinn var og hvaða munur hefði verið á hugmyndum og framtíðarsýn þess umsækjanda og A.

Umboðsmanni Alþingis bárust svör frá Landspítalanum með bréfi frá 29. nóvember 2011, en í bréfinu sagði m.a. eftirfarandi:

„[...]

3. Við ákvörðun um ráðningu var lagt heildarmat á umsækjendur og var stjórnun einn þeirra þátta sem horft var til. [C] býr yfir mikilvægri reynslu af stjórnun innan félagsstarfa. Hún var varaformaður Ljósmæðrafélags Íslands, formaður foreldraráðs [X] og ritari bæði í stjórn hjúkrunarráðs Landspítala og stjórn fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga. Þegar lagt var heildstætt mat á hæfni umsækjenda var talið að skýr og framúrskarandi framtíðarsýn [C] væri svo verðmæt og mikilvæg að hún vægi upp á móti takmarkaðri reynslu hennar af starfsmannastjórnun. Það var hins vegar mat stjórnenda að [C] hefði góðan grunn og að þeir þættir sem þyrfti að bæta hjá henni væru þess eðlis að hún ætti auðvelt með að tileinka sér þá með þátttöku í öflugri stjórnendaþjálfun á Landspítala.

4. Hugmyndir umsækjenda voru kannaðar í viðtölum og öðrum innsendum gögnum. Atvinnuviðtölin, sem skráð voru í samræmi við 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, fóru að meginstefnu eins fram þar sem umsækjendur voru allir spurðir sömu spurninga. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og fram komnum gögnum telur Landspítali sig hafa fullnægt áskilnaði rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

5. Mat á umsókn [C]

Upphafsskoðun á innsendum gögnum leiddi í ljós að [C] uppfyllti allar lágmarkskröfur og var hún boðuð í viðtal. [C] mætti vel undirbúin og hafði kynnt sér núverandi stöðu deildarinnar, starfsemistölur deildarinnar og myndað sér ákveðna og mjög áhugaverða framtíðarsýn. Sú framtíðarsýn sem [C] kynnti byggðist á virkri faglegri þróun þar sem áherslan var á skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra. Sem dæmi um þróun starfseminnar fjallaði [C] um ávinning þess að setja á laggirnar sjúkrahústengda ljósmæðraþjónustu sem sinnti konum á meðgöngu jafnt sem veikum nýburum í heimahúsi. Einnig lagði hún áherslu á það markmið sitt að takmarka aðskilnað nýbura frá fjölskyldu eins mikið og mögulegt væri t.d. með því að taka ekki nýbura frá fjölskyldum þegar þörf væri að mæla lífsmörk, mæla blóðsykur eða gefa þurrmjólk. Þá fjallaði [C] um þau tækifæri sem fælust í fyrirhugaðri endurnýjun deildarinnar og hvernig mætti nýta þau og notaði aukið aðgengi fjölskyldna á sólarhringssamvist sem dæmi um tækifæri.

Í viðtali við [C] mátti sjá ótvíræða leiðtogahæfileika hennar enda var hún hugmyndarík auk þess sem hún hafði mikinn skilning og innsæi á ljósmóðurstarfinu, hjúkrunarfræðum og þeim kröfum sem gerðar yrðu til hennar sem leiðtoga. Þá þótti hugmyndafræði hennar byggjast á jákvæðri og lausnarmiðaðri nálgun sem lagði áherslu á góða liðsheild og samstarf innan deildarinnar. Með góðri liðsheild er deildin betur í stakk búin til að taka á hvers kyns áskorunum og nýta þau tækifæri sem finna má í starfi deildarinnar enda mikilvægur þáttur í faglegri þróun spítalans.

Mat á umsókn [A]

Upphafsskoðun á innsendum gögnum leiddi í ljós að [A] uppfyllti allar lágmarkskröfur og var hún boðuð í viðtal. [A] lagði áherslu á að nýta reynslu sína til uppbyggingar í framtíðinni án þess þó að koma með dæmi. [A] tók fram að hún væri þjónustumiðuð og nálgaðist starfið sem „skipstjórinn í brúnni“ sem hefði það hlutverk að sjá til þess að starfsmenn gætu sinnt starfi sínu en virtist hvorki hafa fastmótaða stefnu né ákveðin markmið fyrir deildina. Svör [A] snerust meira um hana en deildina og óljóst var hverju hún vildi breyta, hvað hún vildi bæta eða hver framtíðarsýn hennar væri. Óljós framtíðarsýn ásamt skorti á raunverulegum dæmum um aðferðarfræði hennar leiddi þar að auki af sér vafa um hvernig hún ætlaði að stuðla að faglegri þróun deildarinnar.

Niðurstaða

Við samanburð á umsóknum er varðar hugmyndir og framtíðarsýn umsækjendanna þá kom [C] fram með skýra stefnu og markmið og tók dæmi um það sem betur mætti fara og hvernig skyldi bregðast við því. [A] virtist hins vegar hvorki hafa skýra stefnu né ákveðna framtíðarsýn. Þá ber að geta þess að það var samhljóma álit allra þeirra sem tóku umrædd viðtöl að [C] væri hæfasti umsækjandinn þegar metin voru innsend gögn og viðtöl líkt og ákvörðun um ráðningu byggir á.

6. Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis nr. 4205/2004 verður að telja að Landspítali hefði í rökstuðningi sínum til [A] átt að útlista betur fyrir henni í hverju framtíðarsýn [C] fólst og mun spítalinn kappkosta að fullnægja áskilnaði 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 betur í framtíðinni. Landspítali telur að í svari þessu til umboðsmanns Alþingis sé að finna fullnægjandi greinargerð fyrir grundvelli ákvörðunar um ráðningu í umrætt starf og því óþarft að bregðast við þessari yfirsjón sérstaklega.

7. Landspítali hafnar þeim ummælum [A] að ákvörðun um ráðningu hafi byggst að einhverju leyti á sparnaðarsjónarmiðum. Á Landspítala er ætíð reynt að ráða hæfasta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni. Við ráðningar stjórnenda er sérstaklega mikilvægt að ráða réttan aðila þar sem kostnaður sem leiðir af röngum stjórnendum er margfalt meiri en sem nemur þeim launamun sem [A] gefur í skyn að spítalinn hafi verið að spara sér í máli þessu.

8. Landspítali hafnar því alfarið að [A] hafi verið mismunað vegna aldurs.

[...]“

Með bréfi 1. desember 2011 var A gefinn kostur á að gera athugasemdir við svarbréf Landspítalans og bárust athugasemdir hennar með bréfi 8. desember 2011. Umboðsmaður Alþingis ritaði á ný bréf til Landspítalans 28. febrúar 2012 og óskaði eftir því að spítalinn veitti sér upplýsingar og skýringar á nánar tilgreindum atriðum, en sem fyrr takmarka ég endursögn þeirra við þau atriði sem hljóta sérstaka umfjöllun í áliti mínu. Snúa þau atriði í fyrsta lagi að framtíðarsýn umsækjanda, í öðru lagi að kröfum í auglýsingu um menntun og í þriðja lagi að stjórnunarreynslu. Þar sem fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis er ítarlegt mun ég nú draga saman helstu efnisatriði þess.

Um fyrsta atriðið ítrekaði umboðsmaður Alþingis þá ósk sína að Landspítalinn skýrði nánar þau sjónarmið sem hefðu legið til grundvallar ráðningu í starfið, hvert vægi þessara sjónarmiða hefði verið og hvernig samanburði hefði verið háttað á milli A og þess umsækjanda sem ráðinn hefði verið á grundvelli þessara sjónarmiða. Óskaði hann eftir upplýsingum um hvort sjónarmið um framtíðarsýn umsækjenda hefði verið vegið á móti hæfniskröfum og öðrum sjónarmiðum sem lögð hefðu verið til grundvallar við ráðningu í starfið og miðuðu að því að upplýsa hvers mætti vænta um frammistöðu viðkomandi í starfinu svo viðhlítandi samanburður færi fram á starfshæfni umsækjenda. Óskaði hann einnig eftir því að fram kæmi á hvaða lagagrundvelli spítalinn teldi að unnt hefði verið að láta „framtíðarsýn“ vega upp á móti þeim „hæfniskröfum“ sem lýst hefði verið í auglýsingu um starfið og þá jafnframt með tilliti til hinnar óskráðu reglu stjórnsýsluréttarins að ráða skuli hæfasta umsækjandann úr hópi umsækjenda. Þá óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort umsækjendum um starfið hefði verið fyrirfram greint frá því að þeir yrðu beðnir um að gera grein fyrir framtíðarsýn sinni og hugmyndum um þróun starfsins í starfsviðtali eða að ætlunin hefði verið að byggja á þessu atriði við mat á umsækjendum. Umboðsmaður bað Landspítalann jafnframt um að gera honum grein fyrir því hvort A, sem ekki hefði verið starfandi innan spítalans á þeim tíma sem hún sótti um starfið, hefði verið kynntar upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á Landspítalanum og um rekstur hans. Umboðsmaður óskaði enn fremur eftir afstöðu Landspítalans til þess hvort gætt hefði verið jafnræðis milli umsækjenda við könnun á framtíðarsýn þeirra. Loks óskaði umboðsmaður eftir að Landspítalinn skýrði nánar hvernig hann teldi að skráning upplýsinga í viðtölum fullnægði þeim kröfum sem fram kæmu í 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þá sérstaklega í tilvikum annarra umsækjenda en þess sem ráðinn hefði verið.

Um annað atriðið óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða menntun þess umsækjanda sem ráðinn hefði verið í starfið hefði verið talin falla undir það viðmið í auglýsingu um að framhaldsmenntun í ljósmóður- og/eða hjúkrunarfræði væri æskileg. Jafnframt óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort það væri afstaða spítalans að meistaragráða A í lýðheilsufræði teldist ekki falla undir þá lýsingu sem fram kom í auglýsingunni um framhaldsmenntun.

Um þriðja atriðið óskaði umboðsmaður eftir nánari skýringum á því hvernig stjórnunarreynsla sem fengin væri í gegnum félagsstörf gæti jafnast á við stjórnunarreynslu af daglegum rekstri og starfsmannahaldi, þar með talið um stjórnun undirmanna og verkstjórn á vinnustað. Að því marki sem lagt hefði verið mat á og byggt á reynslu umsækjenda af félagsstörfum og öðru starfi þar sem ekki hefði legið fyrir ráðningarsamband óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvernig reynsla umsækjenda af slíkum viðfangsefnum hefði verið metin innbyrðis og hver hefði verið niðurstaðan úr því mati.

Í svarbréfi Landspítalans til umboðsmanns Alþingis 18. apríl 2012 sagði meðal annars eftirfarandi:

„Frekari samanburður á umsóknum þess sem ráðin var, [C] [...] og [A]

[C] kom mjög vel undirbúin í viðtalið, var drífandi og ástríðufull. Þá kom fljótlega í ljós að [C] hafði sýnt mikið frumkvæði með því að kynna sér vel stefnumótunarskjal Landspítala og hlutverk stjórnenda á spítalanum. Þá þekkti hún framtíðarsýn spítalans og nýtti þá þekkingu til að tengja saman framtíðarsýn spítalans við framtíðarsýn sína fyrir deildina. [A] hafði hvorki sama drifkraft né ástríðu og kom ekki jafn vel undirbúin og [C]. Í viðtalinu talaði [A] einungis um sig sem stjórnanda án raunverulegra dæma um hvernig hún myndi takast á við hluti og þótti skorta trúverðugleika sem stjórnandi á deild 22A.

Þegar lagt var mat á faglega þætti var litið til þess að mun styttra er síðan [C] lauk námi og þeim mikla mun á námi sem nú er kennt við Háskóla Íslands og því námi sem [A] lauk úr ljósmæðraskólanum 1970. Þar að auki hefur [C] unnið í faginu frá útskrift ólíkt [A] sem hefur ekki unnið í faginu lengi eða síðan 1998 ef frá eru talin fjögur sumur fyrir all löngu síðan. Þau sumur sem [A] sinnti sumarafleysingum fóru að mestu fram á [Y] þar sem álag er mun minna en á Landspítala. [C] hefur viðhaldið þekkingu sinni mjög vel frá útskrift, ólíkt [A], sem aukið hefur kunnáttu og fagmennsku hennar. Slík þekking er þörf og hjálpar mjög til við að sætta ólík sjónarmið, sem reynslan sýnir að þurfi oft, á deildum þar sem starfsaldur er mislangur. [C] þekkti starfsemina á meðgönguhluta deildarinnar þar sem hún hafði bæði unnið á deildinni í nokkra mánuði fyrir ári síðan og sem ljósmæðranemi. [A] þekkti meðgöngumeðferð hins vegar ekki.

[A] þótti vel hæf en þar sem hún hefur ekki verið fastráðin ljósmóðir síðan 1998 þótti skorta vissa þekkingu á faginu. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að líta stuttlega til þeirrar þróunar sem orðið hefur á þjónustu við meðgöngu og sængurkonur síðan þá. Á Landspítala í dag hefur sængurlega styst mikið en í dag þiggja yfir 85% sængurkvenna heimaþjónustu ljósmæðra. Heimaþjónustan, sem hér um ræðir, hefur þróast mikið undanfarin 2 ár. Í dag fara konur eftir eðlilega meðgöngu og fæðingu heim eftir dvöl í Hreiðrinu [...] en á meðgöngu- og sængurkvennadeild dvelja fyrst og fremst konur sem hafa verið í áhættumæðravernd eða upplifað erfiða fæðingu með fylgikvillum.

Sængurlega sem áður var 5-7 dagar er nú að meðaltali 2,5 sólarhringar. Á undanförnum 10-15 árum hefur hlutfall of þungra kvenna aukist mikið og samfara því tíðni meðgöngusykursýki og meðgöngueitrunar hækkað. Hlutfall kvenna með sögu um alvarlegan kvíða, þunglyndi og aðrar geðraskanir er í dag mun meira en áður þekktist ásamt fleiri tilfellum kvenna sem stríða við fíkniefnavanda á meðgöngu. Framangreindar breytingar hafa aukið fylgikvilla meðgöngu og fæðingar. Með nákvæmari fósturskimunum og betri lyfjameðferðum eykst fjöldi þeirra kvenna sem eru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma og/eða fötlun. Starfið á meðgöngu- og sængurkvennadeild er mjög krefjandi og álag aukist verulega í seinni tíð. Alls staðar hefur legutími styst og útskrift kvenna og nýbura af gjörgæslu- og vökudeildum á sér stað mun fyrr en áður jafnvel þó til staðar séu flóknari hjúkrunarvandamál. Þá er ekki óalgengt að vera með 35 vikna fyrirbura á deildinni auk barna sem vega einungis rétt rúmlega 2000 gr. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var og allir þessir þættir auka verulega á hjúkrunarþyngd deildarinnar. Með hliðsjón af framansögðu þótti [C] hæfari umsækjandi en [A] í starf deildarstjóra á deild 22A.

Landspítali hafnar fullyrðingum [A] um að hún hafi meiri og betri reynslu en [C]. Reynsla verður ekki einungis metin út frá því hversu lengi umsækjandi gegndi starfi innan fagsins heldur einnig hvenær hann gegndi því, hvaða endurmenntun hefur hann sótt og að lokum hver er eða var nálægð hans við það starf sem sótt er um. Við samanburð á framangreindum sjónarmiðum varð það niðurstaða ráðningarvalds og ráðgjafa hans að þeirri niðurstöðu að reynsla [C] væri betri hvað varðar þetta tiltekna starf.

Við mat á fjárhagslegri ábyrgð má sjá að [A] hefur meiri og betri reynslu en [C]. Fjárhagsleg ábyrgð er hins vegar það sem helst má læra en öflug stjórnendafræðsla fer fram á Landspítala sem tekur m.a. á fjárhagslegri ábyrgð stjórnenda. Vægi fjárhagslegrar ábyrgðar var við mat á umsækjendum takmarkað og endurspeglast sú afstaða best í þeirri staðreynd að ekki var rætt sérstaklega um fjárhagslega ábyrgð í viðtölum við umsækjendur.

Við mat á hvernig umsækjendur myndu takast á við starfsmannaábyrgð byggði handhafi ráðningarvalds bæði á innsendum gögnum og viðtölum. Í viðtalinu svaraði [C] öllum spurningunum af ástríðu og auðmýkt án þess að upphefja sig. Handhafi ráðningarvalds og ráðgjafar hans sáu mikinn drifkraft hjá [C] og hæfileika til að laða til sín fólk, fá það í lið með sér og leiða það. [C] þótti vera með góða nærveru og naut þess greinilega að eiga samskipti við viðmælendur sína. Tilfinning handhafa ráðningarvalds fær stuðning í því trausti sem [C] hefur verið sýnt í félagsstörfum sínum m.a. á vegum Ljósmæðrafélags Íslands þar sem hún gegndi stöðu varaformanns í rúm 2 ár áður en hún tók að sér deildarstjórastöðuna á Landspítala. Sem varaformanni Ljósmæðrafélags Íslands var [C] veitt brautagengi af samstarfsmönnum sínum til að efla ljósmæðrastéttina og stuðla að aukinni menntun ljósmæðra. [A] hefur mikla og góða reynslu af starfsmannastjórnun og meiri en [C]. [A] sagðist vera með þjónustumiðaða nálgun án þess þó að útskýra hvað hún ætti í raun við eða koma með raunhæf dæmi. Skortur á útskýringum og dæmum drógu út trúverðugleika hennar sem stjórnanda á auglýstri deild. [C] var, að mati þeirra sérfræðinga sem að ákvörðun um ráðningu komu, best til þess fallin að fara með starfsmannaábyrgð á deild 22A.

Spurning 1:

Samkvæmt auglýsingu var megin áhersla lögð á fagið, sem í þessu tilfelli er ljósmóður- og/eða hjúkrunarfræði. Lýðheilsufræði fellur ekki undir þá skilgreiningu. [C] hefur lokið ljósmóðurnámi á háskólastigi en þeir áfangar sem kenndir eru í ljósmóðurnáminu hafa verið metnir inn í meistaranám við Háskóla Íslands. Þessi menntun var talin vega þyngra en meistaragráða í lýðheilsuvísindum þegar kom að vali í þessa tilteknu stöðu. Þá hefur [C] fylgst með nýjustu straumum í ljósmóðurfræðum og viðhaldið þekkingu sinni einkar vel enda sinnt kennslu og rannsóknum á sviði ljósmóðurfræða ásamt því að hafa setið fjölda fagnámskeiða.

Spurning 2:

Í auglýsingu var kveðið á um að meðal helstu verkefna væri fagleg ábyrgð. Þegar horft er til hlutverks og starfsskyldna deildarstjóra á deild 22A verður ekki hjá því komist að telja að framtíðarsýn falli undir hugtakið fagleg ábyrgð. Umsækjendum var ekki kynnt sérstaklega að þeir yrðu spurðir um framtíðarsýn enda hæfum umsækjendum ljóst að spurt yrði á einhvern hátt um hvernig þeir, sem stjórnendur/leiðtogar, myndu vilja sjá starfsumhverfi deildarinnar mótast undir eigin leiðsögn. Landspítali telur sig hafa fullnægt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með spurningum er vörðuðu áherslu umsækjenda í starfsumhverfi sitt og hugmyndir þeirra um mikilvægustu hlutverk stjórnenda og tækifæri til að koma á framfæri öðrum atriðum sem umsækjendur vildu tjá sig um, þar með talið tækifæri til að viðra framtíðarsýn þeirra. Í auglýsingu kom fram að ráðning byggðist annars vegar á innsendum gögnum og hins vegar á viðtölum. Við heildarmat á innsendum gögnum og viðtölum þótti [C] bera af í þetta starf enda einstaklega hæf og þeir sérfræðingar sem að ráðningarferlinu komu á einu máli um það að óþarft væri að kalla umsækjendur í annað viðtal.

Spurning 3:

[C] hafði unnið á deildinni u.þ.b. ári áður en starfið var auglýst. Viðtalið byggðist því ekki á upplýsingum sem öðrum voru ókunnar. [C] hafði, ólíkt öðrum umsækjendum, kynnt sér stefnumótunarskjal Landspítala og hlutverk stjórnenda á spítalanum. Þá þekkti hún framtíðarsýn spítalans og nýtti sér þá þekkingu þegar hún tengdi þær við eigin hugmyndir um framtíð deildarinnar. Framangreindar upplýsingar gat og getur hver sem er lesið á heimasíðu spítalans. Landspítali spurði staðlaðra spurninga þar sem hver og einn umsækjandi svaraði á sinn hátt. Sú staðreynd að [C] hafi nýtt tækifærið og komið sínum hugmyndum að, þegar hún var spurð um áherslur í starfsumhverfi, eigin hugmyndir um mikilvægustu hlutverk stjórnenda og hvort það væri eitthvað annað sem hún vildi koma á framfæri, verður ómögulega skýrt sem brot Landspítala á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993. Landspítali gætti jafnræðis við þá ráðningu sem hér um ræðir.

Spurning 4:

Landspítali telur að skráning hafi ekki verið nægjanlega vönduð sem heyrir til undantekninga. Spítalinn hefur þó brugðist við þessari yfirsjón með því að árétta nauðsyn þess að vanda betur til verks við skráningu þegar atvinnuviðtöl eiga sér stað.

Spurning 5:

Við mat á félagsstörfum [C] er það einkum þrennt sem vekur athygli og gefur þeim aukið vægi. Í fyrsta lagi hefur [C] frá útskrift unnið ötullega að framgangi ljósmæðra og þróun ljósmóðurstarfsins sem endurspeglar brennandi áhuga hennar á faginu. Í öðru lagi þá hefur iðulega verið óskað eftir áframhaldi [C] í félagsstörfum, af þeim einstaklingum sem hún er að vinna með, sem verður að teljast góður mælikvarði á samskiptahæfni hennar og stjórnunarhæfileika. Í þriðja lagi þá gegndi hún starfi formanns foreldraráðs, og varaformanns Ljósmæðrafélags Íslands en í slíkri vinnu er að finna margvísleg verkefni sem krefjast stjórnunar, mikilla samskipta við ólíka aðila og úthlutun verkefna milli einstaklinga.

Niðurstaða:

Eftir heildarmat á því hvaða umsækjandi væri best hæfur til að tryggja öryggi sjúklinga var það samhljóma niðurstaða handhafa ráðningarvalds og ráðgjafa hans að [C] væri hæfasti umsækjandinn. Hún þótti mesti leiðtoginn, líkleg til að bæta starfsumhverfið faglega og félagslega og best til þess fallin að efla framþróun fagsins innan deildarinnar. Ráðning [C] í starf deildarstjóra á deild 22A uppfyllir áskilnað meginreglu stjórnsýslulaganna um að ráða beri hæfasta umsækjandann ásamt því að vera órjúfanlegur þáttur í því að ná fram [einu af markmiðum] spítalans sem er að veita sjúklingum fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.“

Með bréfi 23. apríl 2012 var A gefinn kostur á að gera athugasemdir við svarbréf Landspítalans. Athugasemdir hennar bárust með bréfi frá 6. maí 2012.

IV. Álit setts umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Kvörtun A er á því byggð að ekki hafi farið fram málefnalegt mat á hæfni hennar og þess umsækjanda sem ráðinn var í starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans. Athugun mín hefur því beinst að því hvort efnislegir annmarkar hafi verið á mati Landspítalans á umsækjendum hvað varðar sjónarmið um menntun, stjórnunarreynslu og framtíðarsýn umsækjenda.

Um það hvort rökstuðningur Landspítalans fyrir veitingu starfsins hafi samrýmst 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 liggur fyrir að Landspítalinn hefur viðurkennt að spítalanum hafi borið að útlista betur í rökstuðningi í hverju framtíðarsýn C hafi falist og muni spítalinn kappkosta að uppfylla kröfur framangreinds ákvæðis um efni rökstuðnings betur í framtíðinni. Ekki er því ástæða til að fjalla frekar um þetta atriði.

Í kvörtun A er því haldið fram að henni hafi verið mismunað við ráðninguna vegna aldurs og að sparnaðarsjónarmið hafi haft áhrif á ráðninguna. Í skýringum Landspítalans er þessum fullyrðingum A hafnað. Ekkert í gögnum málsins veitir mér nægar forsendur til að fullyrða að þessi sjónarmið hafi haft þýðingu við ráðninguna. Ekki er því heldur tilefni til frekari umfjöllunar um þessi atriði.

2. Lagagrundvöllur málsins.

Í 5. mgr. 9. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu kemur fram að forstjórar heilbrigðisstofnana ráði starfslið heilbrigðisstofnana. Samkvæmt gögnum málsins hefur forstjóri Landspítalans framselt ráðningarvald til framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs Landspítala, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en sá síðarnefndi tók ákvörðun um ráðningu í það starf sem hér er til umfjöllunar. Ekki er tilefni til að gera athugasemdir við meðferð málsins að þessu leyti.

Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Nær gildissvið laganna til ákvarðana um ráðningu í opinber störf, sbr. athugasemdir með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.) Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. áðurnefndra laga nr. 40/2007 bera deildarstjórar hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana faglega ábyrgð á þeirri hjúkrunarþjónustu sem undir þá heyrir gagnvart framkvæmdastjóra hjúkrunar eða næsta yfirmanni samkvæmt skipuriti stofnunar. Starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans telst opinbert starf, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996. Var Landspítalanum því skylt að fylgja fyrirmælum stjórnsýslulaga og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar við ráðningu í það starf sem hér er til umfjöllunar. Þar á meðal var skylt að gæta að þeirri grundvallarreglu að velja beri hæfasta umsækjandann að loknu heildstæðu og forsvaranlegu mati á þeim sem sótt hafa um starf, þar sem málefnaleg sjónarmið eru lögð til grundvallar að loknum samanburði á umsækjendum. Ég vísa að öðru leyti til þeirra almennu sjónarmiða um þetta efni sem umboðsmaður Alþingis hefur sett fram í fjölmörgum álitum á undanförnum árum, sjá til dæmis nýlega álit umboðsmanns Alþingis frá 14. júlí 2011 í máli nr. 6218/2010.

Í auglýsingu starfs deildarstjóra meðgöngu- og sængurkvennadeildar voru gerðar kröfur um að umsækjandi hefði ljósmóður- og hjúkrunarfræðimenntun, að minnsta kosti 3-5 ára starfsreynslu sem ljósmóðir, leiðtogahæfileika, samskiptahæfni og stjórnunarreynslu. Þá var tekið fram að framhaldsnám í ljósmóður- og/eða hjúkrunarfræði væri æskilegt. Þessar kröfur um almennt hæfi og sjónarmið um hæfni voru að mínu áliti málefnaleg þegar litið er til eðlis starfsins.

Eins og lagt hefur verið til grundvallar í álitum umboðsmanns Alþingis verður að gera þá kröfu að heildstæður samanburður á framkomnum umsóknum fari almennt fram. Megináhersla skal lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfi. Skal þá tekið tillit til þeirra málefnalegu sjónarmiða sem lögð hafa verið eða átt hefur að leggja til grundvallar við mat á umsækjendum sem jafnframt verður að teljast forsvaranlegt þegar á heildina er litið. Þá ber veitingarvaldshafa samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að sjá til þess að nægar upplýsingar liggi fyrir um þau atriði sem lögð eru til grundvallar mati á hæfni umsækjenda.

3. Efnislegt mat á umsækjendum og upplýsingaöflun Landspítalans.

Að framan er vikið að þeim kröfum um almennt hæfi og hæfnissjónarmiðum sem sett voru fram í auglýsingu starfs deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans. Í áliti stöðunefndar hjúkrunarráðs Landspítala 20. maí 2011 á hæfni umsækjenda til að gegna stöðu deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild var komist að þeirri niðurstöðu að A og annar umsækjandi væru hæfust til að gegna starfinu samkvæmt innsendum gögnum og kröfum sem fram komu í auglýsingu. Báðir umsækjendur hefðu reynslu af starfsmannastjórnun og hefðu áður gegnt stöðu deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennagangi. C hefði ekki reynslu af starfsmannastjórnun. Í rökstuðningi Landspítalans fyrir ráðningu í starfið 13. júlí 2011 segir að þau meginsjónarmið sem voru ráðandi við mat á umsækjendum hafi verið starfsreynsla, menntun og framtíðarsýn umsækjenda. Síðan er nánar gerð grein fyrir menntun og starfsreynslu C. Þá kemur fram að hugmyndir C um þróun starfsins, þjónustu og stjórnun hafi ráðið mestu um ákvörðun um ráðningu í starfið. Landspítalinn hefur síðan í skýringarbréfum sínum til umboðsmanns Alþingis, sem nánar eru rakin í kafla III hér að framan, útskýrt þá afstöðu sína frekar.

Af gögnum málsins verður ráðið að A útskrifaðist sem ljósmóðir frá Ljósmæðraskóla Íslands 1970 og sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands 1973. Hún lauk B.Sc. prófi í hjúkrunarfræðum frá Háskóla Íslands 2003 og meistaranámi í lýðheilsufræðum með áherslu á stefnumótun og stjórnun við Háskólann í Reykjavík árið 2010. Þá er hún með diploma í kennslufræðum við Háskólann í Reykjavík. Ljóst er af umsóknargögnum A að hún hefur langa reynslu sem ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur og töluverða stjórnunarreynslu og reynslu af starfsmannastjórnun og rekstri, en hún var meðal annars deildarstjóri sængurkvennadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss við Hringbraut árin 1987-1998. Af umsóknargögnum A er ljóst að hún hefur meðal annars unnið við sumarafleysingar sem hjúkrunarforstjóri og ljósmóðir við Heilsugæslustöðina á Y árin 2001-2003. Þá var hún hjúkrunarfræðingur á sýkingavarnadeild Landspítalans með ábyrgð og eftirlit á Barnaspítala og kvennadeild árin 2003-2004 og 2005-2008. Þá hefur A unnið að ýmsum sveitarstjórnar- og félagsstörfum og meðal annars verið formaður í fjölmörgum nefndum.

Af gögnum málsins verður ráðið að sá umsækjandi sem ráðinn var, C, hafi lokið B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og embættisprófi í ljósmóðurfræði við sama skóla 2006. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur við lyflækningasvið Landspítalans, hjartadeild frá maí 2001 til ágúst 2005. Þá starfaði hún sem ljósmóðir við kvenna- og barnasvið Landspítalans, deild 23B, frá júní 2006 og við sama svið á deild 22A frá september 2009 til apríl 2010. Þá var hún meðal annars varaformaður Ljósmæðrafélags Íslands árin 2009-2011 og hefur verið stundakennari í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um menntun, starfsreynslu, stjórnunarreynslu, reynslu af starfsmannaábyrgð og rekstri, sbr. þær kröfur sem fram komu í auglýsingu starfsins, tel ég ekki vafa undirorpið að A hafi haft lengri starfsreynslu en C. Þá hefur A umtalsvert meiri reynslu af stjórnun, starfsmannaábyrgð og rekstri meðal annars vegna starfa sem deildarstjóri sængurkvennadeildar Landspítalans um tíu ára skeið. Styðst sú ályktun jafnframt við álit stöðunefndar hjúkrunarráðs Landspítala 20. maí 2011 á hæfni umsækjenda. Reynsla C af stjórnun innan félagsstarfa verður ekki talin jafnast á við reynslu A af stjórnun, daglegum rekstri og starfsmannahaldi að þessu leyti. A hefur auk þess einnig umtalsverða reynslu af stjórnun á vettvangi félags- og sveitarstjórnarmála.

A hefur auk þess ívið meiri menntun en C, en hún útskrifaðist sem ljósmóðir frá Ljósmæðraskóla Íslands 1970 og sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands 1973. Þá lauk hún B.Sc. prófi í hjúkrunarfræðum frá Háskóla Íslands 2003 og meistaranámi í lýðheilsufræðum 2010, með áherslu á stefnumótun og stjórnun, við Háskólann í Reykjavík.

Af rökstuðningi Landspítalans og skýringum hans til umboðsmanns Alþingis verður dregin sú ályktun að það sjónarmið sem hafi vegið hvað þyngst við ráðningu í starfið hafi verið hugmyndir C um þróun starfsins, svokölluð „framtíðarsýn“ hennar um þjónustu og stjórnun. Gögn málsins benda eindregið til þess að veruleg áhersla hafi verið lögð á þetta atriði í samanburði á henni og A og hafi það ráðið úrslitum um ráðningu C.

Umsóknir um opinber störf hjá ríkinu eru í eðli sínu liður í ferli þar sem samkeppni ríkir á milli umsækjenda. Þeir umsækjendur sem gera sérstakan reka að því að leggja rækt við umsóknargerðina og að undirbúa sig undir viðtöl eiga því að njóta almennt séð góðs af því frumkvæði í hæfnismatinu. Þá er ljóst að framtíðarsýn umsækjenda um opinbert stjórnunarstarf hlýtur eðli máls samkvæmt að koma til athugunar þegar ráðið er í slík störf. Heimilt er að ljá því hæfnissjónarmiði vægi við val á milli hæfra umsækjenda um opinbert starf, einkum á sviði stjórnunar, hvaða hugmyndir þeir hafi um viðkomandi starfsemi og hvort þær falli að viðhorfum þess sem veitir starfið. Ekki er því fært að álykta á þann veg að þar sem á hafi skort að sérstaklega væri skírskotað til framtíðarsýnar umsækjenda í auglýsingu hafi Landspítalanum af þeirri ástæðu verið fyrirmunað að leggja áherslu á það sjónarmið í mati sínu. Til að mat á hæfni umsækjenda geti talist málefnalegt og forsvaranlegt verður þó að vega atriði af þessu tagi á móti öðrum hlutlægum forsendum sem augljóslega miða að því að upplýsa hvers megi vænta um frammistöðu umsækjenda í starfinu. Landspítalanum bar því að vega hugmyndir umsækjenda um framtíðarsýn upp á móti atriðum eru lutu meðal annars að menntun og starfsreynslu umsækjenda, þar á meðal stjórnunarreynslu í sambærilegum störfum, eins og þeim hlutlægu kröfum var sérstaklega lýst í auglýsingu.

Á því leikur ekki vafi að það hafi verið mat Landspítalans að C hafi í umsóknarferlinu varpað í töluvert ríkum mæli ljósi á hugmyndir sínar um framtíð starfseminnar og að þær hugmyndir hafi fallið í góðan jarðveg hjá yfirstjórn spítalans. Hún setti þær hugmyndir þegar fram í umsókn sinni auk þess sem ekki verður dregið í efa að hún hafi fylgt þeim vel eftir í viðtali. Á slíkt hafi nokkuð skort hjá A samkvæmt skýringum Landspítalans. Hvað sem þessu líður getur skírskotun veitingarvaldshafa til frammistöðu umsækjanda í viðtali, og framtíðarsýnar hans í tilefni af ráðningu í opinbert stjórnunarstarf, ekki eitt og sér fengið slíkt vægi við hæfnismat að það ryðji almennt séð úr vegi öðrum umsækjanda sem hlutlægt séð hefur meiri menntun og töluvert meiri stjórnunarreynslu og reynslu af starfsmannaábyrgð og rekstri á því sviði sem um ræðir. Á það sérstaklega við þegar viðeigandi stjórnunarreynsla þess umsækjenda, sem ráðinn er í opinbert stjórnunarstarf, er afar lítil. Til að slíkt komi yfirhöfuð til greina verður að liggja nægilega fyrir samkvæmt gögnum að veitingarvaldshafi hafi gefið þeim umsækjanda, sem stendur sýnilega framar hvað varðar hlutlægar hæfiskröfur um menntun og starfsreynslu, raunhæft tækifæri til að setja fram hugmyndir sínar í þessum efnum.

Í skýringum Landspítalans segir að hugmyndir umsækjenda hafi verið kannaðar í viðtölum og af öðrum innsendum gögnum. Viðtölin hafi að meginstefnu farið eins fram þar sem umsækjendur hafi allir verið spurðir sömu spurninga. Umsækjendum hafi þó ekki verið kynnt sérstaklega að þeir yrðu spurðir um framtíðarsýn. Hæfum umsækjendum hafi þó mátt vera ljóst að mati Landspítalans að spurt yrði um hvernig þeir, sem stjórnendur/leiðtogar, myndu vilja sjá starfsumhverfi deildarinnar mótast undir eigin leiðsögn. Því hafi verið fullnægt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að áliti spítalans með slíkum spurningum og með því að umsækjendum var gefið tækifæri til að koma á framfæri öðrum atriðum sem umsækjendur vildu tjá sig um, þar með talið tækifæri til að viðra framtíðarsýn þeirra. Í auglýsingu hafi komið fram að ráðning byggðist annars vegar á innsendum gögnum og hins vegar á viðtölum. Þá segir í skýringunum að viðtalið hafi ekki byggst á upplýsingum sem öðrum hafi verið ókunnar. C hafi ólíkt öðrum umsækjendum kynnt sér stefnumótunarskjal Landspítalans og hlutverk stjórnenda á spítalanum. Þá hafi hún þekkt framtíðarsýn spítalans og nýtt sér þá þekkingu þegar hún tengdi hana við eigin hugmyndir um framtíð deildarinnar. Hafi hver sem er getað lesið þessar upplýsingar á heimasíðu spítalans. Landspítalinn hafi spurt staðlaðra spurninga þar sem hver og einn umsækjandi hafi svarað á sinn hátt.

Miðað við þá lýsingu í skýringum Landspítalans til umboðsmanns í bréfi frá 29. nóvember 2011 á framtíðarsýn þess umsækjanda, sem ráðinn var, verður ekki annað ráðið en að hún sé að mestu sótt í umsókn viðkomandi. Af minnispunktum um viðtalið má jafnframt ráða að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi fylgt þessum hugmyndum eftir í viðtalinu. Í því skráningarformi sem notað var fyrir viðtölin, og hafði meðal annars að geyma efnisflokka og staðlaðar spurningar, er þó ekki sérstaklega vísað til framtíðarsýnar. Í tilviki þess sem ráðinn var er stuttlega vikið að framtíðarsýn umsækjandans í svörum við tveimur spurningum, en í tilvikum annarra umsækjenda, þar með talinni C, er ekkert skráð efnislega um þetta atriði eða hægt að ráða með skýrum hætti hvort og þá hvernig hafi verið spurt um framtíðarsýn og hugmyndir umsækjenda um þróun í starfi deildarinnar.

Taka þarf mið af ýmsum lagakröfum við framkvæmd starfsviðtala og vinnslu upplýsinga sem aflað er á þann hátt. Ber meðal annars að skrá þær upplýsingar sem fram koma í slíku viðtali samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hafi þær verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Við framkvæmd viðtala, sem miða að því að afla upplýsinga sem geta haft verulega þýðingu við hæfnismat umsækjenda, verður einnig að gæta samræmis við upplýsingaöflunina þannig að unnt sé að leggja mat á umsækjendur út frá hliðstæðum forsendum. Af gögnum málsins er ljóst að í umsókn þess umsækjanda sem ráðinn var voru settar fram ákveðnar hugmyndir um þróun starfsemi meðgöngu- og sængurkvennadeildar sem vaknað höfðu hjá umsækjandanum þegar hann vann á deildinni 2009-2010. Af skýringum Landspítalans verður aftur á móti ráðið að umsækjendum hafi, eins og áður greinir, ekki fyrirfram verið greint frá því að þeir yrðu beðnir um að gera grein fyrir framtíðarsýn sinni og hugmyndum um þróun starfsins í viðtali. Því leikur vafi á því að Landspítalinn hafi gert nægilegan reka að því að gefa A, sem stóð framar C hvað varðar þær hlutlægu kröfur sem fram komu í auglýsingu, nægilegt tækifæri til að koma hugmyndum sínum um framtíð deildarinnar til skila í matsferlinu. Ég ítreka að hugmyndir umsækjenda um framtíðarsýn deildarinnar höfðu verulega þýðingu fyrir ákvörðun um ráðningu í starfið. Það liggja aftur á móti ekki fyrir skrifleg gögn um þær ályktanir sem voru dregnar um hvern umsækjanda fyrir sig, að undanskilinni C. Í skýringum Landspítalans er raunar viðurkennt að skráning upplýsinga sem fram komu í viðtölum hafi ekki verið nægjanlega vönduð.

Að framan er rakin sú niðurstaða mín að samkvæmt gögnum málsins hafi A sýnilega staðið framar þeim umsækjanda sem ráðinn var hvað varðar menntun og einkum stjórnunarreynslu, sbr. einnig álit stöðunefndar hjúkrunarráðs Landspítala 20. maí 2011 á hæfni umsækjenda sem hefur þýðingu í þessu sambandi. Með vísan til þessa er það álit mitt að þegar litið er til menntunar og starfsreynslu A, þar á meðal reynslu hennar af stjórnun, starfsmannaábyrgð og rekstri, og hún borin málefnalega saman við starfshæfni C á þessu sviði, hafi Landspítalinn ekki sýnt fram á að það hafi verið forsvaranlegt að sjónarmið sem tengdust framtíðarsýn umsækjenda hafi getað leitt til þeirrar niðurstöðu að C yrði valin fremur en A. Meira þurfti til að koma, einkum frekari upplýsingaöflun af hálfu Landspítalans, svo réttlætanlegt gat talist á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar að ljá hugmyndum um framtíðarsýn jafn ríkt vægi andspænis því forskoti sem A hafði þegar litið var til þeirra hlutlægu hæfiskrafna sem sérstaklega voru tilgreindar í auglýsingu. Það er því niðurstaða mín að ákvörðun Landspítalans í máli þessu hafi ekki verið í samræmi við lög.

V. Niðurstaða.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ákvörðun Landspítalans frá 27. maí 2011 um ráðningu í starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans hafi ekki verið í samræmi við lög.

Niðurstaða mín hér að framan felur ekki í sér efnislega afstöðu til þess hvern hafi átt að ráða í starf deildarstjóra á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans. Þegar litið er þessa, hagsmuna þess umsækjanda sem ráðinn var og réttarframkvæmdar á þessu sviði er ólíklegt að framangreindir annmarkar leiði til ógildingar á ákvörðuninni fyrir dómstólum. Með tilliti til atvika í þessu máli eru það tilmæli mín til Landspítalans að leitað verði leiða til að rétta hlut A. Að öðru leyti verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um hugsanlegar afleiðingar þeirra annmarka sem voru á meðferð þessa máls af hálfu Landspítalans og þar með talið hugsanlegrar bótaábyrgðar ríkisins gagnvart henni. Ég beini jafnframt þeim tilmælum til Landspítalans að spítalinn taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

Undirritaður hefur fjallað um mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í tilefni af fyrirspurn minni um málið barst mér svarbréf Landspítala, dags. 14. apríl 2014. Þar kemur fram að í ágúst 2013 hafi sjúkrahúsinu borist krafa A um skaðabætur sem hafi grundvallast á að samkvæmt áliti setts umboðsmanns hefði hún átt að hljóta það starf sem ráðið var í. Landspítali hafi ekki talið sýnt fram á að hún hefði verið ráðin þótt farið hefði verið eftir þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu enda hafi umsækjendur um starfið verið þrír. Skaðabótakrafan hafi því verið send ríkislögmanni ásamt umsögn spítalans þess efnis að ekki væri fallist á bótakröfuna. Ríkislögmaður hafi hafnað kröfunni með bréfi í september 2013. Að öðru leyti er tekið fram að tilmæli um að rétta hlut A séu óljós og að ekki verði séð með hvaða hætti spítalinn geti rétt hlut einstaklings sem ekki er ráðinn í starf. Hvað varðar almennt tilmæli umboðsmanns segir að stjórnendur og aðrir starfsmenn sem koma að ráðningum séu meðvitaðir um mikilvægi þess að reglum stjórnsýsluréttarins, skráðum sem óskráðum, sé fylgt við ráðningar. Í kjölfar álitsins hafi niðurstöður þess verið kynntar og farið yfir þau sjónarmið sem þar komu fram á fundi með mannauðsráðgjöfum spítalans en þeir séu stjórnendum til stuðnings í ráðningarferlinu.