Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6765/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til sín á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. A kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, en kærunni var vísað frá á þeim grundvelli að hún hefði borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufrestur rann út. A óskaði í kjölfarið eftir því að nefndin endurupptæki málið á grundvelli nýrra upplýsinga, en þeirri beiðni var hafnað.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins stóð óskaði umboðsmaður afstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til þess hvort rétt væri að líta á bréf sem A sendi Vinnumálastofnun í kjölfarið á ákvörðun stofnunarinnar í máli hans sem beiðni um endurupptöku málsins og þá hvaða þýðingu þau samskipti hefðu á útreikning kærufrests í málinu, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi nefndarinnar kom fram að ákveðið hefði verið að taka mál til meðferðar að nýju. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að yrði A ósáttur við niðurstöðu nefndarinnar í nýjum úrskurði gæti hann leitað til sín á ný. Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita Vinnumálastofnun bréf þar sem hann kom þeirri ábendingu á framfæri að komið geti til endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga eftir að þriggja mánaða frestur samkvæmt ákvæðinu er liðinn og jafnframt séu stjórnvöld almennt talin hafa nokkuð víðtæka heimild til að endurupptaka mál fari aðili þess fram á það. Þá taldi umboðsmaður rétt að stofnunin tæki til skoðunar hvort rétt væri að endurskoða leiðbeiningar stofnunarinnar til málsaðila um endurupptöku mála með hliðsjón af þessu.