Félög. Stéttarfélög.

(Mál nr. 7125/2012)

A kvartaði yfir því að í lögum stéttarfélags væri kveðið á um að félagsmenn misstu félagsleg réttindi sín við starfslok þ.e. misstu kosningarétt og kjörgengi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að stéttarfélagið teldist ekki stjórnvald sem tilheyrði stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga í skilningi 2. gr. laga nr. 85/1997. Þá yrði ekki séð að setning laga félagsins fæli í sér stjórnsýslu sem félli undir starfssvið umboðsmanns. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði til þess að taka kvörtun A til frekari meðferðar og lauk athugun sinni á erindinu.