Fjármála- og tryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlit.

(Mál nr. 6701/2011)

A hf. kvartaði yfir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að leggja það fyrir stjórn stofnunarinnar að taka ákvörðun um afturköllun starfsleyfis félagsins, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. þar sem fram kemur að Fjármálaeftirlitið geti afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta nýti fyrirtækið ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins stóð barst umboðsmanni bréf Fjármálaeftirlitsins þar sem fram kom sú afstaða að mögulegt væri í einhverjum tilvikum að líta svo á að starfsleyfi fjármálafyrirtækis félli niður við afsal þess sjálfs á leyfinu en líta yrði svo á að í öllum tilvikum yrði það háð samþykki og mati Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið féllst jafnframt á afsal A hf. á starfsleyfi sínu og féll frá því að leggja fyrir stjórn stofnunarinnar að taka ákvörðun um afturköllun leyfisins með þeim réttaráhrifum slíta þyrftir félaginu, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 161/2001. Umboðsmaður taldi því ekki efni til að aðhafast frekar í málinu og lauk athugun sinni.