Fjármála- og tryggingastarfsemi. Tryggingar.

(Mál nr. 7163/2012)

A kvartaði yfir því að brotið hefði verið á andmælarétti sínum í tveimur málum sem hann hafði borið undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum starfaði á grundvelli sérstaks samkomulags atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sem ráðuneytis fjármálamarkaðarins þ. á m. vátryggingamála, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga. Í 141. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, kæmi fram að úrskurðum nefndarinnar yrði ekki skotið til stjórnvalda og í athugasemdum við ákvæði í frumvarpi til laganna segði að nefndin væri ekki stjórnsýslunefnd, færi ekki með stjórnsýsluvald og mælti ekki fyrir um réttindi og skyldur þeirra sem færu með mál fyrir nefndina. Úrskurðir hennar væru ekki bindandi og þeim yrði ekki skotið til stjórnvalda. Nefndarmenn væru ekki opinberir starfsmenn og henni mætti helst líkja við samningsbundinn gerðardóm. Umboðsmaður taldi því ljóst að löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið þá afstöðu að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum færi ekki með stjórnsýsluvald og tæki ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður komst því að þeirri niðurstöðu að kvörtun A félli utan starfssviðs hans og að ekki væru skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar. Hann lauk því umfjöllun sinni um hana.