Hollustuhættir- og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 7129/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með þrjú erindi sem lutu að ýmsum atriðum, m.a. ágreiningi við annan eiganda í fjöleignarhúsi um húshitunarkostnað, gæðum neysluvatns og skemmdum matvælum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málunum með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að einhver af ágreiningsefnum hennar við annan eiganda í fjöleignarhúsi gætu komið til úrlausnar kærunefndar húsamála, sbr. 80. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, en tók þó fram að nefndin kvæði ekki upp bindandi úrskurði heldur veitti álit. Umboðsmaður benti A einnig á að heilbrigðisnefnd bæri að sjá um að framfylgja ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og færi m.a. með eftirlit með því hvort sýrustig neysluvatns færi yfir hámarksgildi, sbr. einnig 12. gr. reglugerðar nr. 536/2001, um neysluvatn. Þá færi heilbrigðisnefnd, undir yfirumsjón Matvælastofnunar, með opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, sbr. 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Niðurstöður heilbrigðisnefndar kynni að vera unnt að bera undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998, eða eftir atvikum Matvælastofnun. Að öðru leyti fékk umboðsmaður ekki skýrlega ráðið að hvaða stjórnvöldum kvartanir A beindust eða um hvaða athafnir eða ákvarðanir væri að ræða eða þá á hvaða tíma þær áttu sér stað. Umboðsmaður taldi því að kvartanir A væru ekki þannig úr garði gerðar að þær væru tækar til frekari umfjöllunar af sinni hálfu. Hann lauk því meðferð sinni á málum A.


Sjá tengt mál
Sjá tengt mál