Húsnæðismál. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 6899/2012)

A kvartaði yfir álitsgerð kærunefndar húsamála. A var þinglýstur eigandi íbúðar í fjöleignarhúsi sem á hvíldi kvöð um ótímabundinn samning er fól í sér rétt til nánar tilgreindrar þjónustu gegn greiðslu þjónustugjalds. Hann óskaði eftir áliti nefndarinnar vegna ágreinings við íbúa í öðru fjöleignarhúsi sem átti aðild að samningnum. Sá var jafnframt formaður hagsmunafélags húseigenda við götuna. Kvörtunin beindist að því að nefndin hefði vísað frá kröfu hans um viðurkenningu á ólögmæti þjónustusamningsins og jafnframt að þeirri niðurstöðu að ákvæði samningsins um tiltekna þjónustu bryti ekki í bága við ákvæði 2. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Þá gerði A athugasemdir við aðild hagsmunafélagsins að málinu fyrir nefndinni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 6. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Eftir að hafa kynnt sér álit nefndarinnar og gögn málsins fékk umboðsmaður ekki annað ráðið en að nefndin hefði farið að gildandi reglum við úrlausnina. Hvað varðaði aðild hagsmunafélagsins að málinu, þá tók umboðsmaður fram að samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 881/2001, væri eigendum, einum eða fleiri, heimilt að leita til nefndarinnar með ágreiningsefni sín og ekki hefði annað komið fram en að félagsmenn í hagsmunafélaginu væri allir eigendur í þeim fjöleignarhúsum sem ættu aðild að samningnum. Af fyrirliggjandi bréfaskiptum varð jafnframt ráðið að nefndin hefði frá upphafi litið svo á að félagið væri gagnaðili í málinu, en ekki formaður þess persónulega. Þá fékk umboðsmaður ekki séð að athugasemdir A um þetta atriði hefðu sérstaka þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Eftir að hafa kynnt sér álit kærunefndarinnar taldi umboðsmaður enn fremur ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar í málinu. Umboðsmaður taldi ljóst að þau álitaefni sem A lagði fyrir nefndina lytu fyrst og fremst að einkaréttarlegum ágreiningi, þ.e. um lögmæti þjónustusamningsins sem var undirritaður við kaup á fasteigninni og þinglýst sem kvöð. Úrlausn um gildi slíks einkaréttarlegs gjörnings, milli A og seljanda fasteignarinnar og þjónustuaðilans, yrði ekki fengin nema með aðkomu dómstóla þar sem kynni að reyna á sönnunarfærslu, svo sem með skýrslutökum, hugsanlegu mati dómkvaddra matsmanna, og síðan mati á sönnunargögnum. Umboðsmaður tók þó fram að hann hefði enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni væri til þess af hálfu A að leggja málið fyrir dómstóla eða hver yrði líkleg niðurstaða dómsmáls. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.