Húsnæðismál. Húsaleigubætur.

(Mál nr. 7054/2012)

Hinn 6. júní 2012 kvörtuðu A og B yfir því að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefði ekki svarað erindi B frá 2. janúar og 15. mars 2012. Erindið varðaði kæru B frá 5. desember 2011 á ákvörðun sveitarfélags um að hafna umsókn þeirra um húsaleigubætur. Á meðan á athugun málsins stóð úrskurðaði nefndin í máli B og staðfesti synjun sveitarfélagsins á þeim grundvelli að skilyrðum 2. og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur, væri ekki fullnægt. Þar kemur fram að með íbúðarhúsnæði í lögunum sé átt við venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og sé lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi, ásamt séreldhúsi eða eldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Húsaleigubætur greiðast ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús eða snyrting eru sameiginleg fleiri. A og B töldu þetta leiða til þess að námsmenn, sem leigðu herbergi sem ekki væru á heimavist eða á námsgörðum, nytu ekki jafns réttar á við þá sem það gera.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála kom fram að litið hefði verið svo á að með erindum sínum hefði B verið að nýta sér rétt sinn til athugasemda og síðar ítrekað þær og því hefði þeim ekki verið sérstaklega svarað. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um þann þátt málsins. Hvað varðaði ólíkan rétt námsmanna sem leigja herbergi og námsmanna sem búa á heimavist eða námsgörðum, þá lá fyrir að löggjafinn hefði í ákveðið að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að leiga á einstaklingsherbergi skapaði ekki rétt til húsaleigubóta, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997. Kvörtun A og B lyti því að löggjöf sem Alþingi hefði sett. Í ljósi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, taldi umboðsmaður ekki efni standa til þess að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað að rita úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála bréf þar sem hann gerði athugsemdir við það að hafa ekki verið upplýstur um það þegar úrskurður var kveðinn upp í máli B hinn 27. júní 2012.