Heilbrigðissamþykkt. Ákvörðun um að fjarlægja bifreið af bifreiðastæði. Andmælaréttur. Leiðbeiningarskylda. Málsmeðferð í kærumáli.

(Mál nr. 1336/1995)

A kvartaði yfir því að óskráð bifreið hennar hefði verið fjarlægð af bifreiðastæði hennar samkvæmt heilbrigðissamþykkt Kjósarsvæðis. Kvartaði A yfir ýmsum atriðum er lutu að heilbrigðissamþykkt þessari og þeirri framkvæmd er bifreiðin var fjarlægð. Í áliti skipaðs umboðsmanns kom fram, að samþykktin hefði verið almenns efnis, en ekki beinst sérstaklega að bifreið A. Hins vegar hefði verið um sérstaka stjórnvaldsákvörðun að ræða, er bifreið A var fjarlægð af bifreiðastæði hennar. Var stjórnvaldsákvörðunin tekin eftir gildistöku stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og bar að fara eftir málsmeðferðarreglum þeirra laga. Skipaður umboðsmaður taldi aðfinnsluvert, að A var ekki tilkynnt um að málið væri til meðferðar eða gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun var tekin, í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Þá skorti á það, að A væru veittar leiðbeiningar um kæruleiðir vegna ákvörðunarinnar, í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga. Er A bar ákvörðunina undir Hollustuvernd ríkisins, var um kærumál að ræða, en mjög skorti á að málsmeðferðarreglum væri fylgt. Var ákvörðunin ekki tekin af stjórninni allri, eins og lögskylt var, heldur af framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins og reglum 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumáli að óverulegu leyti fylgt. Loks taldi skipaður umboðsmaður aðfinnsluvert að úrskurðarnefnd samkvæmt 30. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, tók kæru A ekki til efnislegrar meðferðar, en vísaði málinu frá. Um var að ræða kæru á synjun á því að fresta framkvæmd stjórnvaldsákvörðunar, og taldi skipaður umboðsmaður, að úrskurðarnefnd hefði borið að taka málið til efnislegrar meðferðar og kveða upp úrskurð, fyrir það tímamark, er framfylgja skyldi ákvörðuninni.

I. Með bréfi varaforseta Alþingis, dags. 31. janúar 1995, var Friðgeir Björnsson, dómstjóri, samkvæmt 14. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, skipaður til þess að fara með kvörtun A, þar sem umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, hafði vikið sæti við meðferð málsins. Hinn 16. janúar 1995 lagði A, fram hjá umboðsmanni Alþingis kvörtun, sem beindist að Heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis, stjórn Hollustuverndar ríkisins og Úrskurðarnefnd skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Kvörtunin er svohljóðandi: "Kvörtun beinist að: Heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis Stjórn Hollustuverndar Ríkisins Úrskurðarnefnd skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 Yfir hverju er kvartað: Heilbrigðisfulltrúi og Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis: 1) Að fjarlægja rússneska bifreið mína af bifreiðarstæði mínu skv. Heilbrigðissamþykkt dags. 20. október 1993. 2) Þessi samþykkt er mér óviðkomandi. 3) Þessi samþykkt er fallin úr gildi vegna aldurs. 4) Rannsóknarskylda samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993. 5) 14. grein heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. 6) 27. grein laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. 7) Skv. úrskurði dags. 20. apríl 1994 er mér gefin heimild fyrir einum bíl. 8) Ekki lagaleg heimild til að veita heimild fyrir einni bifreið í stuttan tíma. 9) Upplýsingaskylda um hver kvartaði samkvæmt 15. gr. laga nr. 37/1993. 10) Leiðbeiningarskylda skv. 20. gr. laga nr. 37/1993. Hollustuvernd Ríkisins: 11) Málið fór aldrei fyrir stjórn Hollustuverndar Ríkisins. 12) Ekki framkvæmdastjóra að svara. 13) Ekki löglegur úrskurður sem hefur komið skv. 31. gr. og 22. gr. laga 37/1993, þeir eiga að vera tveir. 14) Ég hef heimild fyrir einni bifreið samkvæmt úrskurði Úrskurðarnefndar dags. 20. apríl 1994. 15) 14. grein heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. 16) 27. grein laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. 17) Leiðbeiningarskylda samkvæmt 20. gr. laga nr. 37/1993. 18) Rannsóknarskylda samkvæmt 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefnd: 19) Úrskurður nefndarinnar kom ekki nægilega snemma. Málshraði samkvæmt 9. gr. ssl. 20) Ekki rétt að vísa úrskurðinum frá. 21) Ekki nægilegur rökstuðningur fyrir frávísun. 22) Ekki löglegur úrskurður. Þetta er einn úrskurður en eiga að vera tveir. 23) Skv. úrskurði dags. 20. apríl 1994 er mér veitt heimild fyrir einni bifreið á bifreiðastæði mínu í ótiltekinn tíma. 24) 14. grein heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. 25) 27. grein laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. 26) Samrýmist ekki stjórnarskrá að veita heimild fyrir einni bifreið. 27) Upplýsingar um hver kvartaði. 28) Ekki rétt meðfylgjandi bréf. 29) Rannsóknarskylda úrskurðarnefndar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993." II. Forsendur og niðurstöður álits skipaðs umboðsmanns, dags. 15. september 1995, eru svohljóðandi: "Aðdragandi þessa máls er sá að fundur var haldinn í heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis 20. október 1993 og á honum var málið "[Y], Seltjarnarnesi" tekið fyrir og er eftirfarandi bókað í fundargerð: "Vegna óskráðra bíla á lóðinni, þá samþykkti Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis eftirfarandi bókun: "Heilbrigðisnefnd telur að þegar um er að ræða að fjarlægja þurfi númerslausar bifreiðar sem standa á lóðum húseigenda, samkvæmt ákvæðum II. kafla heilbrigðisreglugerðarinnar, þá skuli miða við að einungis sé heimilt að geyma eina slíka bifreið á aðkeyrslu að bílskúr og því aðeins að bifreið þessi sé í góðu ástandi og geymsla þessi sé aðeins til skamms tíma. Heilbrigðisnefnd heimilar heilbrigðisfulltrúa að framfylgja ofangreindri samþykkt hvað varðar húsin [Y] og [X] á Seltjarnarnesi". A átti tvær bifreiðar í innkeyrslu að bílskúr sínum á þessum tíma og var önnur þeirra, sendibifreið, fjarlægð af heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis um mánaðamótin apríl/maí 1994 í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988, sem gekk 20. apríl 1994. Eins og rakið hefur verið var þess krafist með bréfi heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis dags. 5. október 1994, að A fjarlægði hina bifreiðina, , fyrir 15. október 1994. Síðan var henni gefinn nýr frestur til 21. október s.á. A varð ekki við kröfunni og var bifreiðin fjarlægð af heilbrigðisfulltrúanum þann dag. Kvörtunarefni A eru rakin að framan og eru þau í 29 liðum. Ekki þykja efni til þess, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að taka afstöðu til kvartana í 8. og 23.-29. lið. Verða öðrum liðum gerð skil hér á eftir eftir því sem ástæða þykir til og þar um vísað til tölusetningar þeirra. Um 1-3. Samþykkt þá er Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis gerði 20. október 1993 um númerslausar bifreiðar er standa á lóðum húseigenda verður að telja almenna samkvæmt hljóðan sinni, þ.e. ekki bundna við bifreiðar á lóð hússins að Y, Seltjarnarnesi, enda þótt tilefni hennar kunni að hafa verið bifreiðar á þeirri lóð. Þykir ótvírætt eftir orðalagi samþykktarinnar að henni er ætlað að ná jafnt til bifreiða á lóðinni að X og annarra bifreiða sem hún efni sínu samkvæmt gæti náð til. Ekkert er komið fram um það að samþykktin hafi verið felld úr gildi og ekki er hægt að líta svo á að hún hafi fallið úr gildi fyrir notkunarleysi. Í kjölfar samþykktarinnar heimilar heilbrigðisnefnd heilbrigðisfulltrúa að framfylgja henni að því er varðar húsin að Y og X. Virðist því í upphafi hafa verið ætlunin að framfylgja samþykktinni að því er varðar þær tvær númerslausu bifreiðar, , sem í innkeyrslu að bílskúr A stóðu á þessum tíma. Önnur þeirra, sendibifreiðin, var fjarlægð um mánaðamótin apríl/maí 1994, en hin, þ.e. umræddur rússajeppi, látin afskiptalaus um sinn, en krafa er gerð til þess 16. nóvember 1993, 9. febrúar og 28. apríl 1994, að hún yrði fjarlægð, en ekki hafist handa um að framfylgja þeirri kröfu. Heilbrigðisfulltrúi Kjósarsvæðis gerir þá kröfu í bréfi sínu dags. 5. október 1994 að rússajeppinn verði fjarlægður. Var þá liðið tæpt ár frá því samþykkt heilbrigðisnefndarinnar var gerð og rúmir 5 mánuðir frá því sendibifreiðin var fjarlægð og síðast gerð krafa til þess að rússajeppinn yrði fjarlægður. Í bréfi sínu vísar Heilbrigðisfulltrúi Kjósarsvæðis í eldri bréf Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og samþykkt Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20. október 1993 og kveður hvorugu þeirra skilyrða, sem samþykktin kveður á um að fullnægja þurfi til þess að geymsla sé heimil, nú (auðk. mín) til að dreifa að því er varðar rússajeppann. Er ekki annað af bréfinu að sjá en heilbrigðisfulltrúi telji að samkvæmt samþykktinni hafi verið heimilt að geyma rússajeppann í innkeyrslunni frá því að samþykktin var gerð þar til hann gerir kröfu um að hún verði fjarlægð. Þá segir í svarbréfi Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis til mín dags. 5. apríl sl. eftirfarandi: "Þegar [A] var gert með bréfi dags. 05.10.1994 að fjarlægja Rússajeppann þá var augljóst að heimild nefndarinnar átti ekki við lengur (auðk. mín). Bíllinn í slæmu ásigkomulagi og "skammur tími" útrunninn fyrir löngu. Heilbrigðisfulltrúa bar því að framfylgja ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar og þá sérstaklega eftir að kvörtun út af druslu þessari hafði borist nefndinni". Telja verður að heilbrigðisfulltrúinn hafi út af fyrir sig haft heimild til þessarar kröfugerðar samkvæmt framangreindri samþykkt, en engu að síður verður að líta svo á að hér sé um sérstaka stjórnvaldsákvörðun að ræða, þ.e. þá að gera kröfu til að rússajeppi A verði fjarlægður, enda þótt þessi ákvörðun sé tekin á grundvelli samþykktarinnar frá 20. október 1993. Hafa ber í huga, auk orðalagsins í bréfi heilbrigðisfulltrúans og bréfi heilbrigðisnefndarinnar, sem gefur til kynna að um nýja ákvörðun hafi verið að ræða, að ekkert er aðhafst að því er rússajeppann varðar frá 28. apríl 1994, þar til heilbrigðisfulltrúinn gerði kröfu um að hann yrði fjarlægður í bréfi sínu 5. október 1994. Þetta hlaut að eiga þátt í að skapa réttmætt traust hjá A á því, að henni væri heimilt að láta bifreiðina standa þar sem hún stóð. Þar sem hér var um að ræða sérstaka stjórnvaldsákvörðun um að fjarlægja rússajeppann, sem tekin var eftir gildistöku stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá var skylt samkvæmt 13. og 14. gr. laganna að vekja athygli A á því að þetta mál væri til meðferðar og gefa henni kost á því tjá sig um það áður en ákvörðunin var tekin. Skal í þessu sambandi bent á, að ekki var verið að afstýra yfirvofandi hættu með því að fjarlægja bifreiðina og vitað var hver var eigandi hennar. Málið byrjaði að frumkvæði annars aðila en A og henni var ekki kunnugt um að fyrirhugað væri að fjarlægja bifreiðina. Hér var um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að ræða, sem varð að byggja á mati á ástandi bifreiðarinnar þegar ákvörðunin var tekin. Þá skipti einnig máli hvort fyrirhugað var að láta bifreiðina standa áfram í innkeyrslu bílskúrsins. Verður að telja það verulegan ágalla á meðferð málsins að A var ekki gert viðvart um meðferð málsins og henni veitt færi á að tjá sig um það. Hér er rétt að vekja athygli á því að með sama hætti væri að sjálfsögðu skylt að gera öðrum bifreiðaeigendum viðvart áður en tekin yrði ákvörðun um að fjarlægja bifreiðar þeirra á grundvelli samþykktar heilbrigðisnefndar frá 20. október 1993. Um 4. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægilega vel upplýst áður en ákvörðun er tekin um það. Telja verður í ljós leitt að hinn 16. september 1994 hafi nágranni A kvartað vegna rússajeppans. Í maíbyrjun 1994 hafði önnur bifreið A verið fjarlægð af bílastæðinu á lóðinni að X. Heilbrigðisfulltrúi hefur lagt fram myndir sem sýna ástand rússajeppans, en að vísu er ekki fullvíst hvenær þær hafa verið teknar. Myndirnar þykja sýna að bifreiðin er í bágbornu ásigkomulagi. Mat og úrlausn stjórnvalda í málinu er m.a. byggð á umræddum myndum. Ekki verður annað séð en að málið hafi verið rannsakað á viðhlítandi hátt með tilliti til þess hvernig það var vaxið og tel ég ekki tilefni til athugasemda við þennan þátt málsins. Rétt er hér að taka fram að ég hefi skoðað bifreiðina, sem nú stendur í innkeyrslu að bílskúrnum að X. Samkvæmt upplýsingum A hefur bifreiðin verið máluð og framljós lagað eftir að hún var fjarlægð af heilbrigðisfulltrúa. Um 5-7, 14 og 15. Að því er varðar 14. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 skal vísað til þess sem segir þar um í áliti umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 1090/1994, þ.e. um kvörtun A, bls. 10 og áfram. [SUA 1994:93]. Samþykkt heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20. október 1993, sem að framan er getið kveður á um það að einungis sé heimilt að geyma eina númerslausa bifreið í aðkeyrslu að bílskúr á lóð húseiganda og því aðeins að bifreiðin sé í góðu ástandi og geymslan aðeins til skamms tíma. Samkvæmt því sem fram er komið um rússajeppa A, að telja verður að ástand hennar hafi verið slíkt að það falli undir ákvæðið í samþykkt heilbrigðisnefndar um ástand bifreiða og upphafsákvæði 1. mgr. 14. gr. heilbrigðisreglugerðarinnar þannig að aðgerðir Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis hafi verið byggðar á reglugerðarákvæði sem hafi næga stoð í lögum. Þykir því 27. gr. laga nr. 81/1988 ekki skipta máli hér þar sem aðrar réttarheimildir eru fyrir hendi. En eins og fyrr segir bar heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúa skylda til þess að gera A viðvart skv. 13. og 14. gr. laga nr. 37/1993 um að til stæði að fjarlægja bifreiðina áður en sú ákvörðun var tekin. Með vísan til 12. gr. laga nr. 37/1993 verður þó að telja eðlilegt að farið sé eftir ákvæðum 27. gr. laga nr. 81/1988 um áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta og verður að telja að það hafi verið gert. Um 9. Í 15. gr. laga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila til þess að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans varða. A fór fram á það að fá vitneskju um hver hefði kvartað undan því að rússajeppi hennar stæði í innkeyrslunni að X. Þær upplýsingar fékk hún ekki þegar um þær var beðið. Hins vegar hefur A nú fengið umbeðnar upplýsingar og þykir því þetta kvörtunaratriði ekki gefa tilefni til frekari umfjöllunar. Um 10. Ekki þykir skipta máli þótt ágreiningur um rétt A til að láta bifreiðar standa í innkeyrslu á lóð hússins að X hafi hafist áður en stjórnsýslulögin tóku gildi. Deilan snýst nú um það hvort heimilt hafi verið að fjarlægja rússajeppann og hvort það hafi verið gert á grundvelli réttra heimilda og með lögformlegum hætti. Skiptir því ekki máli í þessu sambandi að samþykktin frá 20. október 1993, sem ákvörðun heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis byggist á, var gerð áður en stjórnsýslulögin tóku gildi. Ákvörðunin um að fjarlægja rússajeppann kom til eftir gildistöku stjórnsýslulaganna. Einnig ber að hafa í huga að talið var að stjórnvöld hefðu ákveðna leiðbeiningarskyldu gagnvart aðilum máls áður en stjórnsýslulögin tóku gildi. Ekkert er komið fram um það að A hafi af hálfu heilbrigðisfulltrúa verið veittar leiðbeiningar um heimildir og aðferðir til að kæra til æðra stjórnvalds þá ákvörðun að fjarlægja þegar í stað rússajeppa hennar. Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, er kveðið á um skyldu stjórnvalda til þess að veita leiðbeiningar um heimildir til að kæra stjórnvaldsákvarðanir og annað er að kærum lýtur. A hafði reynslu af málskoti frá fyrri tíma, og ekki verður séð að neins konar réttarspjöll hafi hlotist af hugsanlegum skorti á upplýsingum frá hendi Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis og heilbrigðisfulltrúa um kæruheimild og önnur atriði er vörðuðu kæru á úrskurði hennar. Hins vegar ber stjórnvaldi, þegar ákvörðun hefur verið tekin sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að láta aðila í té upplýsingar um kæruheimildir og kæruleiðir og í athugasemdum við 20. gr. þess frumvarps sem varð að stjórnsýslulögum segir að leiðbeiningar þessar skuli gefnar skriflega og þær skuli fylgja þegar ákvörðun er tilkynnt. Um 11-13 og 16-17. Í bréfi til heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis dags. 7. október 1994 setti A fram þá kröfu að því yrði frestað að fjarlægja rússajeppann úr innkeyrslunni að bílskúr hennar. Í bréfi sínu óskaði A eftir því að yrði kröfunni synjað þá yrði synjunin rökstudd. Kröfu hennar var í raun synjað með bréfi heilbrigðisfulltrúa dags. 17. október 1994, þótt ekki sé það gert berum orðum. Hins vegar er í bréfinu sú krafa ítrekuð að bifreiðin sé fjarlægð og nýr frestur gefinn til þess. Með bréfi dags. 11. október 1994 gerir A sömu kröfu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins og óskar eftir því að yrði kröfunni synjað þá yrði synjunin rökstudd. Í sama bréfi gerir A þá kröfu að felldur verði úr gildi "þessi nýji úrskurður Heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis, þar sem hann hefur ekki við nein lög né reglur að styðjast, og er ekki í neinu samræmi við fyrri úrskurð sem honum hlýtur að vera skylt að vinna eftir, en ekki búa til nýjar reglur eftir eigin geðþótta. Ekki síst í ljósi þess að engin breyting hefur orðið á þessari bifreið frá því fyrri úrskurður var felldur". Verður að líta svo á að hér sé um að ræða málskot til æðra stjórnvalds, ekki aðeins á synjun heilbrigðisfulltrúa á að fresta því að fjarlægja rússajeppann heldur einnig málskot á þeirri ákvörðun að fjarlægja hann. Með bréfi dagsettu sama dag synjar framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins kröfu A um að frestað verði að fjarlægja bifreiðina. Bréf framkvæmdastjórans er svohljóðandi: "Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. október 1994, varðandi númerslausa bifreið að [X]. Rætt hefur verið við heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis um þetta mál. Hollustuvernd ríkisins sér ekki ástæðu til að hlutast til um að réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis verði frestað. Röksemdir fyrir afstöðu stofnunarinnar eru fyrrgreindar viðræður við heilbrigðisfulltrúa, bréf heilbrigðisfulltrúans frá 05/10/1994, bréf Hollustuverndar ríkisins frá 30/12/1993 og niðurstaða úrskurðarnefndar frá 20. apríl 1994, varðandi samskonar mál að [X]. Stofnunin vill fyrir sitt leyti endurtaka þau rök og ítreka vegna þessa máls. Stofnunin álítur að þau rök sem koma fram í þessum gögnum séu haldgóð og þarfnist ekki endurtekningar í sérstakri greinargerð. Stofnunin er þeirrar skoðunar að aðgerðir Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis eigi sér næga stoð í lögum og reglugerðum. Vakin skal athygli á að ákvörðun Hollustuverndar ríkisins er hægt að vísa til sérstakrar úrskurðarnefndar skv. lögum nr. 81/1988". Í bréfi framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins til mín dags. 7. mars 1995 kemur fram, eins og fyrr er rakið, að hann hafi kynnt bréf A í framkvæmdastjórn stofnunarinnar og stjórnarformaður kynnt sér efni þess vel svo og málavöxtu. Mat formannsins hafi verið það að unnt væri að afgreiða málið án umfjöllunar allra stjórnarmanna eins og málið væri vaxið. Svarbréfið hafi verið samið í samráði við stjórnarformanninn og fyrir hönd stjórnarinnar. Samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit gr. 30.1. er hægt að vísa ágreiningi um ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar, eins og A gerði. Hollustuvernd ríkisins er stjórnvald æðra Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. Í 31. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um form og efni úrskurða í kærumáli til æðra stjórnvalds og er ljóst að í því tilviki sem hér um ræðir hefur sú lagagrein verið þverbrotin. Formreglum er einungis fylgt að óverulegu leyti. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins var ákvörðun ekki tekin af stjórninni allri, en hér ber þess og sérstaklega að gæta að um kæru er að ræða, en ekki ákvörðun stjórnvalds á fyrsta stigi. Stjórnin hefur ekki einu sinni undirritað þá niðurstöðu sem komist er að, en telja verður að stjórnin geti ekki framselt úrskurðarvald sitt að þessu leyti til framkvæmdastjóra síns. Á þessari framkvæmd þarf greinilega að ráða verulega bót til þess að lögum sé réttilega framfylgt. Þá er ekki að sjá að Hollustuvernd ríkisins hafi tekið neina afstöðu til þess kæruefnis A að felld yrði úr gildi sú ákvörðun að fjarlægja rússajeppann, en eins og að framan greinir verður að líta svo á að um sérstaka stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða, sem skotið hafi verið til æðra stjórnvalds. A var í niðurlagi framangreinds bréfs Hollustuverndar ríkisins bent á þá kæruleið sem fyrir hendi var. Framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins segir í bréfi til mín dags. 7. mars 1995 að A hafi verið gerð munnlega grein fyrir rétti sínum til málskots og kemur þar einnig fram að slíkt hið sama hafi heilbrigðisfulltrúinn gert. Að vísu er ekki gerð grein fyrir því hverjar þessar leiðbeiningar voru. Líkur benda þó til að þær hafi verið nægjanlegar, enda verður ekki séð að hugsanlegur skortur á leiðbeiningum hafi valdið réttarspjöllum. Samkvæmt fyrrnefndum athugasemdum í greinargerð við 20. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 á aftur á móti að veita leiðbeiningar skv. 20. gr. skriflega. Um 18. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Með hvaða hætti það er gert verður matsatriði hverju sinni og fer eftir eðli máls og umfangi. Ekki þykir annað í ljós leitt en að nægilegar upplýsingar hafi í sjálfu sér verið fyrirliggjandi, þegar framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins skrifar bréf sitt 11. október 1994. Um 19-22. A kærði ákvörðun stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðarnefndar skv. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 81/1988 með bréfi dags. 12. október 1994. Í kærunni segir m.a. þetta: "Ég kæri hér með ákvörðun Hollustuverndar Ríkisins um að fresta ekki réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis skv. 29. gr. laga 37/1993....Ekki er búið að úrskurða í stjórn Hollustuverndar Ríkisins um hvort sá úrskurður gildir í dag eða ekki...". A skrifar ítrekunarbréf 19. október og aftur 7. desember s.á. Úrskurður nefndarinnar er kveðinn upp 8. desember 1994 og er málinu frávísað. Úrskurðurinn er sendur A með bréfi dags. 9. desember s. á. Telja verður eins og hér stóð á, þ.e. að A hafði verið gefinn frestur til þess að fjarlægja bifreið sína til 21. október, að rétt hefði verið að úrskurðurinn hefði verið kveðinn upp fyrir þann tíma, en ekki hafa komið fram skýringar er réttlæta þann tíma er afgreiðsla málsins tók. Niðurstaða úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 var sú að kæru A var vísað frá. Þar sem hér var um að ræða kæru á synjun á því að fresta framkvæmd þeirrar ákvörðunar að fjarlægja rússajeppann, sem ráðist var í löngu eftir að úrskurður nefndarinnar gekk sem vísað er til og telja verður sérstaka stjórnvaldsákvörðun, verður ekki séð að til þeirrar ákvörðunar hafi verið tekin afstaða í fyrri úrskurði nefndarinnar. Nefndinni bar því að taka kærumálið til efnislegrar meðferðar, hafi hún ekki talið ástæðu til frávísunar þess af einhverjum öðrum sökum en tilgreindar eru. Hins vegar verður ekki séð að skorti á rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu út af fyrir sig. A kærði til úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 þá einu ákvörðun Hollustuverndar ríkisins að synja henni um frest á framkvæmd ákvörðunar um að fjarlægja rússajeppann, enda lá ekki önnur niðurstaða Hollustuverndar ríkisins fyrir í því máli. Þessi kæra var tekin til úrskurðar þótt efnisniðurstaða fengist ekki. [III.] Helstu niðurstöður Eins og að framan greinir verður að líta svo á að sérstök stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin um að fjarlægja rússajeppa A, enda þótt hún sé tekin á grundvelli samþykktarinnar frá 20. október 1993. Aðfinnsluvert er að A var ekki gefinn kostur á því, eins og ætlast er til að gert sé samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 37/1993, að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðunin var tekin. Ekkert er komið fram um það að A hafi verið veittar leiðbeiningar af hálfu Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og heilbrigðisfulltrúa um heimildir til að kæra til æðra stjórnvalds þá ákvörðun að fjarlægja rússajeppa hennar. Telja verður að samkvæmt stjórnsýslulögum beri stjórnvaldi sjálfkrafa að láta aðila í té skriflegar upplýsingar um kæruheimildir og kæruleiðir sbr. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 37/1993. Að því er varðar Hollustuvernd ríkisins þá var ekki nema að óverulegu leyti fylgt reglum 31. gr. stjórnsýslulaga um form og efni úrskurða í kærumáli til æðra stjórnvalds. Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins var ákvörðun ekki tekin af stjórninni allri, eins og telja verður lögskylt og stjórnin hefur ekki undirritað þá niðurstöðu sem komist er að. Hér er um að ræða málskot og getur stjórnin ekki framselt úrskurðarvald sitt til framkvæmdastjóra síns. Stjórn Hollustuverndar ríkisins tók ekki til úrskurðar kæru A á þeirri stjórnvaldsákvörðun að fjarlægja skyldi rússajeppann. Telja verður að úrskurðarnefnd skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 hafi borið að taka kærumálið til efnislegrar meðferðar, þar sem hér var um að ræða kæru á synjun á því að fresta framkvæmd þeirrar stjórnvaldsákvörðunar að fjarlægja rússajeppann, sem ráðist var í löngu eftir að úrskurður nefndarinnar gekk sem vísað er til. Æskilegt hefði verið að úrskurður hefði verið kveðinn upp fyrir 21. október 1994."