Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6977/2012)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem staðfest var synjun á umsókn um veðlánaflutning á þeim grundvelli að lánin næmu meira en 80% af matsverði fasteignarinnar sem hún fyrirhugaði að flytja veðið á, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 522/2004, um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í framhaldi af fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins og upplýsinga frá Íbúðalánasjóði taldi úrskurðarnefndin rétt að endurupptaka mál A. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A yrði ósátt við niðurstöðu nefndarinnar að fengnum nýjum úrskurði gæti hún leitað til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.