Lögreglu- og sakamál. Samskipti, ummæli, framkoma.

(Mál nr. 7118/2012)

A kvartaði yfir því að lögregla hefði farið inn á heimili hennar án þess að hafa til þess heimild og veitt nágranna hennar, sem kallaði lögregluna til, leyfi til að fara inn á heimilið. Af kvörtuninni varð ráðið að lögreglumenn hefðu notað lykil til að komast inn á heimili A en lykillinn hefði án hennar vitneskju verið í vörslu nágranna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af erindi A varð ekki ráðið að hún hefði áður freistað þess að bera umkvörtunarefnið undir innanríkisráðherra, sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu og hefur almennt eftirlit með starfsháttum lögreglu, sbr. 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því ekki fullnægt skilyrðum laga til að geta tekið erindið til frekari umfjöllunar að svo stöddu. Hann lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A leitaði til innanríkisráðuneytisins og væri enn ósátt að fenginni niðurstöðu þess væri henni að sjálfsögðu heimilt að leita til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.