Menntamál. Grunnskólar.

(Mál nr. 6926/2012)

A kvartaði yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði vísað frá erindi vegna fyrirkomulags við skólavist sonar hennar á þeirri forsendu að hann stundaði ekki lengur nám við skólann og hún ætti því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af umfjöllun ráðuneytisins. Syni A hafði verið vísað úr skóla í mars 2011 og upp frá því ekki fengið að stunda nám innan almennrar bekkjardeildar. Í nóvember 2011 hætti hann í skólanum þar sem móðir hans taldi aðstæðurnar fallnar til að valda honum skaða.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í framhaldi af fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins ákvað mennta- og menningarmálaráðuneytið að taka málið til meðferðar að nýju og óska m. a. eftir umsögn skólans um þá málsmeðferð sem höfð var uppi um skólagöngu sonar A. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu og lauk athugun sinni. Hann tók hins vegar fram að ef A teldi sig og son sinn enn beitt rangindum að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins í málinu gæti hún að sjálfsögðu leitað til sín að nýju vegna þess. Yrðu tafir á afgreiðslu málsins í ráðuneytinu gæti hún jafnframt leitað til sín með sérsaka kvörtun þar að lútandi.

Að lokum ákvað umboðsmaður að rita mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem hann lagði áherslu á nauðsyn þess að svör stjórnvalda við erindum borgaranna yrðu að vera bæði ákveðin og skýr til þess að málsaðili gæti skilið þau og metið réttarstöðu sína. Umboðsmaður benti einnig á að almennt bæri að gjalda varhuga við að vísa kærumáli í stjórnsýslunni frá á þeim grundvelli að úrlausn málsins hefði ekki raunhæfa þýðingu fyrir viðkomandi. Yrði yfir höfuð fallist á að það væri heimilt væri ljóst að slík frávísun teldist stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því bæri að gæta málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga gagnvart aðila slíks máls, þ. á m. um efni rökstuðnings. Að lokum áréttaði umboðsmaður að tilvist stjórnsýslulaga girti ekki fyrir að aðili máls gæti átt ríkari rétt í samskiptum við stjórnvöld á ákveðnum málefnasviðum á grundvelli sérlagaákvæða, s.s. á grundvelli sérákvæða um kærurétt, og færi ráðherra með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir yrði að leggja á það mat hvort atvikum væri þannig háttað að ráðherra væri beinlínis skylt að taka mál til athugunar á þeim grundvelli bærist honum beiðni um slíkt. Í ljósi þess að ráðuneytið ákvað að taka mál A nýrrar umfjöllunar taldi umboðsmaður þó ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það af þessu tilefni.