Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 6902/2012)

A kvartaði yfir því að Landhelgisgæsla Íslands hefði hafnað því að veita sér upplýsingar um umsækjendur um tiltekin störf hjá stofnuninni. Á meðan á athugun málsins stóð voru upplýsingarnar afhentar A og í framhaldi af því kvartaði hann einnig yfir nokkrum atriðum er vörðuðu framkvæmd ráðninga í störf hjá stofnuninni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 11. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þrátt fyrir að talsverður tími hefði liðið frá því að A sótti um tiltekið starf hjá Landhelgisgæslunni í febrúar 2011 þar til honum barst var, að því er virtist í janúar 2012, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að taka það atriði til frekari athugunar þar sem erindinu hafði nú verið svarað. Jafnframt taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við það að Landhelgisgæslan hefði leitað atbeina ráðningarfyrirtækis við ráðningar í störf sem voru auglýst laus til umsóknar í janúar 2012 og m.a. falið fyrirtækinu að taka við umsóknum um störfin.

Þar sem umsækjandi um opinbert starf getur jafnan ekki gert þá kröfu til stjórnvalds að umsókn hans fái tiltekna meðferð sem er frábrugðin meðferð annarra umsókna um sama starf taldi umboðsmaður ekki heldur tilefni til að gera athugasemd við það að Landhelgisgæslan hefði bent honum á að senda umsókn sína til ráðningarfyrirtækisins. Einnig taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við svör Landhelgisgæslunnar við erindum A varðandi umsóknina enda réð hann ekki annað af gögnum málsins en að A hefði verið leiðbeint um hvert beina ætti umsóknum um störfin og að það fyrirkomulag var almennt ekki íþyngjandi fyrir umsækjendur. Enn fremur taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við að ekki hefði verið litið á A sem umsækjanda um störfin sem voru auglýst í janúar 2012, enda hafði honum verið leiðbeint um nauðsyn þess að beina umsókninni til ráðningarfyrirtækisins, hann hafði sent stofnuninni tölvupóst þar sem kom fram að hann kysi að sækja ekki um starf ef umsóknin þyrfti að fara í gegnum fyrirtækið og af því tilefni hafði nauðsyn þess að senda umsóknina til ráðningarfyrirtækisins verið ítrekuð og tölvupóstur þar sem hann óskaði þess að umsókn hans yrði tekin til greina og yrði áfram að skrá var ekki sendur fyrr en að umsóknarfresti liðnum.

Að lokum tók umboðsmaður fram að það væri ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds væri að ræða, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Hann taldi því falla utan við starfssvið sitt að taka afstöðu til nokkurra atriða í kvörtuninni sem lutu að ráðningarferlinu, s.s. um framsetningu auglýsingar og hvort hún hefði gefið tilefni til að hæfasti umsækjandinn yrði ráðinn.

Hvað varðaði afgreiðslu Landhelgisgæslunnar á beiðni A um aðgang að upplýsingum um umsækjendur um þau störf sem voru auglýst í janúar 2012, þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að aðhafast frekar vegna þess þar sem A hafði fengið upplýsingarnar afhentar. Hann benti A hins vegar á að ef hann teldi ástæðu til að afla sér nánari upplýsinga um umsækjendurna í samræmi við 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gæti hann óskað eftir því sérstaklega við Landhelgisgæsluna.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað engu að síður að rita Landhelgisgæslu Íslands bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að ekki hefðu verið veittar skýringar á því hvers vegna A fékk lista yfir umsækjendur ekki afhentan fyrr en mánuði eftir að hann óskaði eftir honum og meira en sex vikum eftir að umsóknarfrestur rann út. Þar sem listinn sem A var ekki í fullu samræmi við 4. tölul. 4. gr., þ.e. ekki komu fram heimilisföng umsækjenda, mæltist umboðsmaður jafnframt til þess að ef ný beiðni um upplýsingar bærist frá A yrði hún afgreidd í samræmi við lög. Að lokum gerði umboðsmaður athugasemdir við að bréfi A til starfsmannastjóra og forstjóra Landhelgisgæslunnar hefði ekki verið svarað og áréttaði mikilvægi þess að slíks yrði betur gætt í framtíðinni.