Opinberir starfsmenn. Starfslok.

(Mál nr. 6950/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun opinberrar stofnunar um að segja sér upp störfum. A dró í efa að forsendur uppsagnarinnar, sem voru fjárhagserfiðleikar stofnunarinnar og áætlun um að draga úr verkefnum sem hún starfaði við, stæðust. Þá taldi hún fullyrðingu um að ekki hefði verið hægt að bjóða sér aðra stöðu hjá stofnuninni órökstudda.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi skýringa stofnunarinnar og gagna málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að önnur sjónarmið en rekstrarleg hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að segja A upp störfum hjá stofnuninni. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar taldi umboðsmaður ekki heldur ástæðu til að draga í efa að lögmætar ástæður hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að draga saman í tilteknum verkefnum sem A sinnti. Í ljósi þess að ekki varð annað séð en að starf A hefði verið einskorðað við þau verkefni, að undanskildu tilteknu afleysingastarfi, og með tilliti til skýringa stofnunarinnar á því hvers vegna öðrum starfsmönnum sem gegndu nánar tilgreindum störfum var ekki sagt upp taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að skylt hefði verið að leggja frekara mat á hæfni A samanborið við aðra starfsmenn áður tekin var ákvörðun um uppsögnina. Í skýringum stofnunarinnar til umboðsmanns kom fram að engin önnur störf hefðu verið í boði þar sem öðrum starfsmönnum hefði verið sagt upp, samið hefði verið um starfslok annarra og dregið hefði verið úr þeim verkefnum sem A sinnti. Þá hefði verið dregið saman víðsvegar í starfseminni og í lok árs 2011 hefðu starfsmenn verið spurðir að því hvort þeim myndi henta að minnka starfshlutfall sitt vegna fjárhagserfiðleika stofnunarinnar. Í ljósi þess taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ákvörðun um uppsögn A hefði farið í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá fékk umboðsmaður ekki heldur séð að þörf hefði verið á því vegna rannsóknar málsins að veita A kost á að tjá sig um ákvörðunina áður en hún var tekin eða að hún hefði átt andmælarétt. Með hliðsjón af öllu þessu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ákvörðun um uppsögn A með vísan til rekstrarlegra ástæðna og hagræðingar hefði verið ólögmæt.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað að rita forstöðumanni umræddrar stofnunar bréf og benda honum að að gæta þess að efni rökstuðnings fyrir uppsögn úr starfi væri í samræmi við raunverulegar ástæður sem réðu ákvörðuninni, en eins og efni rökstuðnings til A var úr garði gerð mátti ætla að hæfnismat hefði haft þýðingu við töku ákvörðunar um hvaða starfsmönnum var sagt upp hjá stofnuninni. Síðar kom í ljós að svo var ekki. Þá vakti umboðsmaður athygli á því að í rökstuðningnum var ekki vísað til 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo sem rétt hefði verið samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun er byggð á.