Kirkjusóknir. Kosning sóknarnefnda. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 1278/1994)

A kvartaði yfir kosningu sóknarnefndarmanna sem fram fór á fundi, sem ekki var aðalsafnaðarfundur sóknarinnar. Þá taldi A, að ranglega hefði verið til fundarins boðað, þar sem fundarefni hefði ekki verið kynnt í fundarboði, svo sem lögboðið væri í 12. gr. laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl. Umboðsmaður gerði ítarlega grein fyrir stöðu kirkjusókna innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar og komst að þeirri niðurstöðu að kirkjusóknir féllu innan opinberrar stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjusókna og málsmeðferð þeirra félli því undir starfssvið umboðsmanns, samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987, en ákvarðanir og athafnir kirkjusókna er snerta kenningar þjóðkirkjunnar og trúariðkun féllu utan starfssviðs hans. Niðurstaða umboðsmanns um kvörtun A var, að samkvæmt ákvæðum laga nr. 25/1985 væri aðalsafnaðarfundur einn bær til að kjósa menn í sóknarnefnd og skyldi hann haldinn einu sinni á ári. Enda þótt átta sóknarnefndarmenn af fjórtán segðu sig úr sóknarnefnd var sóknarnefndin ályktunarfær samkvæmt 17. gr. laganna. Að því virtu taldi umboðsmaður að fundur sá sem boðað var til sem aukaaðalsafnaðarfundar hefði ekki verið bær til að kjósa sóknarnefndarmenn. Þá taldi umboðsmaður, að boðun fundarins hefði ekki verið með lögmætum hætti, samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 25/1985, þar sem fundarefnis var í engu getið í fundarboði.

I. Hinn 14. nóvember 1994 bar A fram kvörtun við mig út af kosningu manna í sóknarnefnd X-sóknar á safnaðarfundi hinn 22. september 1994. Taldi A, að slík kosning mætti aðeins fara fram á aðalsafnaðarfundi, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl. Þá taldi A, að safnaðarfundurinn hefði ekki verið ályktunarfær, þar sem ranglega hefði verið til hans boðað, með því að þess hafi ekki verið gætt að kynna fundarefni í fundarboði, svo sem lögboðið væri í 12. gr. fyrrnefndra laga. II. Samkvæmt frásögn A og öðrum gögnum málsins eru málavextir þeir helstir, að hinn 1. september 1994 sagði hann sig úr sóknarnefnd X-sóknar ásamt fleiri sóknarnefndarmönnum. Sögðu átta sóknarnefndarmenn, aðalmenn og varamenn, sig úr sóknarnefndinni vegna óánægju með prest safnaðarins. Var A gjaldkeri sóknarnefndar. Eftir í sóknarnefndinni sátu sex menn, fimm aðalmenn og einn varamaður, en sóknarnefndin er skipuð sjö aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Ákveðið var að halda aukaaðalsafnaðarfund svo fljótt sem kostur væri. Í samráði við prófast og biskupsritara var ákveðið, að fundur skyldi haldinn 22. september 1994 kl. 18.00. Var leitað til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um tilhögun fundarins og kosningu nýrrar sóknarnefndar. Sóknarprestur, sr...., boðaði til fundarins úr stól við messu sunnudaginn 18. september 1994 og sendi messutilkynningu til skrifstofu prófasts, er síðan annaðist framsendingu messutilkynningarinnar til fjölmiðla samkvæmt venju. Auglýsingin misprentaðist í Morgunblaðinu, þar sem hún birtist laugardaginn 17. september 1994. Á aukaaðalsafnaðarfundinum voru kosnir menn í sóknarnefndina í stað þeirra, sem höfðu sagt sig úr henni hinn 1. september 1994. Hinn 25. september 1994 afhenti A, fráfarandi gjaldkeri, B gögn þau, er hann hafði undir höndum vegna gjaldkerastarfs síns í fyrri sóknarnefnd, með fyrirvara um lögmæti safnaðarfundarins. Þá ritaði A... dómprófasti, bréf, dags. 25. september 1994, þar sem hann tjáði dómprófastinum viðhorf sín viðvíkjandi lögmæti safnaðarfundar þess, sem haldinn var hinn 22. september 1994, svo sem hann rökstuddi á sama hátt og í kvörtuninni, og gerði jafnframt grein fyrir afhendingu gagna til viðtakandi gjaldkera. III. A rökstyður kvörtun sína svo, að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., skuli halda aðalsafnaðarfund ár hvert. Aðalsafnaðarfundur 1994 hafi verið haldinn 16. janúar 1994, þar sem sóknarnefnd og framkvæmdanefnd hafi gert reikningsskil gerða sinna fyrir árið 1993. Ætla megi af hinni óljósu auglýsingu um aukaaðalsafnaðarfundinn, að aðalsafnaðarfundi X-sóknar, sem haldinn hafi verið 16. janúar 1994, hafi ekki lokið með eðlilegum hætti og verið sé að boða til annars fundar, aukaaðalsafnaðarfundar, af þeim sökum, til að leysa einhver ágreiningsmál, sem þá kunni að hafa verið uppi, og þar með verið að gera tortryggileg störf þeirra, er sögðu sig úr sóknarnefndinni. Mótmælir A þessu og tekur fram, að umræddur aðalsafnaðarfundur hafi verið haldinn með lögmætum hætti og það gert á honum, sem mælt sé fyrir um í 1. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 25/1985. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinar þessarar skuli halda aðra safnaðarfundi, m.a. ef meirihluti sóknarnefndar óskar þess. Slíkir fundir séu hins vegar ekki aukaaðalsafnaðarfundir, eins og þeir sóknarnefndarmenn, sem eftir hafi setið í sóknarnefndinni eftir brotthvarf meirihluta sóknarnefndar, hafi kosið að kalla í fundarboði hinn umdeilda safnaðarfund, sem haldinn hafi verið 22. september 1994. Þá vísar A til þess, að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 25/1985 skuli fundarefni kynnt í fundarboði, og að samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar sé fundur ályktunarfær, ef rétt sé til hans boðað. Ekki dregur hann í efa, að til fundarins hafi verið boðað með nægjanlegum fyrirvara. Hins vegar hafi safnaðarfundurinn, sem haldinn var 22. september 1994, ekki verið ályktunarfær, þar sem ranglega hafi verið til hans boðað, enda skuli kynnt í fundarboði það fundarefni, sem taka eigi fyrir á safnaðarfundi. IV. Með bréfi, dags. 17. nóvember 1994, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins gerði ég ráðuneytinu grein fyrir kvörtun A. Óskaði ég eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að áður en ég tæki afstöðu til þess, hvort skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, væru uppfyllt til meðferðar málsins, gerði ráðuneytið grein fyrir viðhorfi sínu til þess, hvort málskot væri heimilt til æðri stjórnvalda kirkjumála varðandi kvörtunarefnið. Svör dóms- og kirkjumálaráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 8. desember 1994, og verður af þeim ráðið, að af hálfu ráðuneytisins hafi ekki verið talið heimilt að skjóta slíkum ágreiningi undir úrskurð ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 30. janúar 1995, til sóknarnefndar X-sóknar óskaði ég eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að sóknarnefndin gerði grein fyrir viðhorfum sínum til kvörtunar A og léti mér í té gögn þau, er málið snertu. Í svarbréfi sóknarnefndar X-sóknar, dags. 22. mars 1995, segir svo: "[A] var í hópi þeirra sóknarnefndarmanna sem sögðu sig úr sóknarnefnd [X]-kirkju þann 1. september 1994 þar sem þeir gátu ekki sætt sig við endurkomu sóknarprestsins, séra [...], til starfa að loknu leyfi. Eftir í sóknarnefnd sátu 5 sem gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa. Í sóknarnefnd [X]-sóknar sitja 7 aðalmenn og jafnmargir varamenn. Ljóst var að brýna nauðsyn bar til að fullsetin sóknarnefnd starfaði í sókninni fram til næsta aðalsafnaðarfundar 1995. Vetrarstarf kirkjunnar var að hefjast og mikils undirbúnings þörf í því sambandi. Því var ákveðið að efna til auka aðalsafnaðarfundar svo fljótt sem kostur væri. Í samráði við prófast, séra [...] og biskupsritara var ákveðið að fundur skyldi haldinn 22. september 1995 kl. 18.00. Allur undirbúningur fundarins var unninn í samvinnu við prófast og biskupsstofu. Leituðu þessir aðilar til dóms- og kirkjumálaráðuneytis um tilhögun fundarins og kosningu til nýrrar sóknarnefndar. Sóknarprestur, séra [...], boðaði til fundarins úr stól við mjög fjölmenna messu sunnudaginn 18. september og sendi svo sem venja er messutilkynningu til skrifstofu prófasts, sem síðan annast framsendingu messutilkynninga úr prófastsdæminu til fjölmiðla. Auglýsingin misprentaðist því miður í Morgunblaðinu laugardaginn 17. september 1994. Sóknarnefnd hefur aflað staðfestingar hjá skrifstofu prófastsdæmisins á auglýsingunni sem skrifstofan sendi fjölmiðlum. Fylgir hún hér með. Flestum er kunnugt að málefni [X]-kirkju og sóknarprestsins voru á allra vörum síðastliðið sumar og haust. Varla leið svo dagur að mál sóknarinnar bæri ekki á góma í fjölmiðlum. Fjölmiðlar fylgdust grannt með fyrirhuguðum fundi 22. september dagana fyrir fundinn. Fékk hann af þessum sökum meiri auglýsingu en tíðkast um slíka fundi. Það er mat sóknarnefndar [X]-kirkju að hafi [A] haft einhverjar efasemdir um lögmæti þessa fundar hafi honum verið í lófa lagið að sækja fundinn, gera sínar athugasemdir og skýra viðhorf sín. Þetta gerði hann ekki, en sendir kvörtun til yðar tæpum tveimur mánuðum síðar. Því miður hefur nokkuð dregist að svara bréfi yðar, sem stafar m.a. af undirbúningi aðalsafnaðarfundar sem haldinn var 12. febrúar s.l. og undirbúningsvinnu með nýrri sóknarnefnd sem kjörin var á þeim fundi." Með bréfi, dags. 24. mars 1995, gaf ég A kost á að gera þær athugasemdir í tilefni af bréfi sóknarnefndarinnar, sem hann teldi ástæðu til. Í bréfi, dags. 31. mars 1995, gerði A grein fyrir athugasemdum sínum. Kom meðal annars fram af hans hálfu, að hann telur það ekki skipta máli, hvort fimm menn sitji í sóknarnefnd í stað sjö, því að nægjanlegur fjöldi hafi verið eftir í nefndinni fram að næsta lögmætum aðalsafnaðarfundi. Þá telur hann haldlaus þau atriði önnur, sem fram komi í bréfi sóknarnefndar því til stuðnings, að safnaðarfundurinn hafi verið lögmætur, svo sem hann rekur nánar. Í tilefni af athugasemd í bréfi sóknarnefndarinnar um síðbúnar aðfinnslur minnir A á það í bréfi sínu, að hann hafi borið fram athugasemdir sínar við dómprófast í bréfi, dags. 25. september 1994. V. Í áliti mínu, dags. 16. október 1995, gerði ég grein fyrir stöðu kirkjusókna innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Í álitinu segir: "1. Áður en vikið verður að efni kvörtunar A, tel ég ástæðu til þess að víkja nokkrum orðum að stöðu kirkjusókna innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Samkvæmt 62. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skal hin evangeliska lúterska kirkja vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Í stjórnarskrárákvæðinu er þess ekki getið, í hverju stuðningur ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna skuli vera fólginn. Er almenna löggjafanum því eftirlátið að kveða nánar á um það. Kemur sá stuðningur og vernd fram í margháttaðri löggjöf og varðar bæði fjárhagsleg og menningarleg málefni. Þá er málefnum þjóðkirkjunnar stjórnað af ríkinu. Enda þótt henni sé fengin sjálfsstjórn um ákveðin mál, þá er það alveg á valdi ríkisins að ákveða mörk þessarar sjálfsstjórnar. Samkvæmt stjórnskipulegri stöðu þjóðkirkjunnar, sem hér hefur stuttlega verið lýst, skipar Alþingi málefnum hennar með almennri löggjöf og ákvörðunarvald um þau á miðstjórnarstigi er í höndum ríkisstjórnar (dóms- og kirkjumálaráðherra). Í stjórnskipulegu og stjórnarfarslegu tilliti er þjóðkirkjan því grein af meiði opinberrar stjórnsýslu jafnframt því að vera sérstaklega skilgreint trúarlegt samfélag. Breytir engu um þetta, þótt staðbundið ákvörðunarvald sé ekki að öllu leyti í höndum stjórnvalda, skipaðra af ríkisvaldinu, heldur að nokkru leyti á snærum safnaðarfunda sóknarmanna og sóknarnefnda, sem kjörnar eru af þeim. Kvörtunin varðar lögmæti safnaðarfundar í kirkjusókn og kosningu sóknarnefndar í því sambandi. Í lögum nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o. fl., er meðal annars mælt fyrir um kirkjusóknir og skipan þeirra, störf og starfshætti. Í I. kafla laga þessara kemur fram, að kirkjusóknir eru liður í umdæmisskiptingu þjóðkirkjunnar og er tekið fram, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, að landinu skuli skipt í kirkjusóknir, er myndi prestaköll, prófastsdæmi og biskupsdæmi, svo og kjördæmi vegna kosninga til kirkjuþings. Kirkjusókn er skilgreind svo í 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 25/1985: "Kirkjusókn er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar, sem býr innan sóknarmarka. Kirkjusókn er sjálfstæð fjárhags- og félagsleg eining, en tengist öðrum sóknum innan prófastsdæmis með sameiginlegum héraðsfundi og með annars konar samstarfi, sem héraðsfundur kann að mæla fyrir um, eða einstakar sóknarnefndir stofna til." Um skipun, störf og starfshætti sóknarnefnda er fjallað í V. kafla laga nr. 25/1985. Í 13. gr. laganna er mælt fyrir um að í hverri kirkjusókn skuli vera sóknarnefnd. Almennt er mælt fyrir um verkefni sóknarnefnda í grein þessari svo og í 18. gr. laganna. Samkvæmt þessum almennu ákvæðum annast sóknarnefnd framkvæmdir á vegum sóknarmanna og styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti eða sóknarprestum og starfsmönnum sóknarinnar, og vinnur að þeim verkefnum, sem henni eru ætluð í lögum og stjórnvaldsreglum eða fengin henni með samþykktum safnaðarfunda, svo og að málum, sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur eða biskup vísar til hennar. Ýmis sérgreind verkefni eru falin sóknarnefndum samkvæmt lögum nr. 25/1985. Ekki eru viðfangsefni sóknarnefnda þó tæmandi talin í lögum þessum heldur ráðast þau jafnframt af ýmsum lögum um kirkjuleg málefni. Þá geta verkefnin stafað frá samþykkt safnaðarfunda eða hinum ýmsu kirkjuyfirvöldum og Alþingi eða einstökum nefndum þess, sbr. 18. gr. laganna og athugasemdir við þá grein í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 25/1985. Samkvæmt 24. gr. laganna skal biskup setja sóknarnefndum almennt erindisbréf. Í IV. kafla laga nr. 25/1985 er fjallað um safnaðarfundi, auk þess að ýmis önnur ákvæði laganna víkja að slíkum fundum og hlutverki þeirra. Samkvæmt 11. gr. laganna eru safnaðarfundir annars vegar aðalsafnaðarfundur, sem haldinn skal ár hvert, og hins vegar aðrir safnaðarfundir, sem halda skal, ef meirihluti sóknarnefndar eða tiltekinn lágmarks minnihluti sóknarmanna óskar þess. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 25/1985 fer aðalsafnaðarfundur með æðsta ákvörðunarvald innan sóknar í málum þeim, sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmætum ákvörðunum. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna skulu á aðalsafnaðarfundi rædd málefni sóknarinnar, þar á meðal mál, sem lögmælt er, að undir hann beri. Þá segir þar, að aðalsafnaðarfundur sé vettvangur starfsskila og reikningsskila af hendi sóknarnefndar og einstakra nefnda innan sóknarinnar. Meðal lögbundinna hlutverka aðalsafnaðarfunda er kosning sóknarnefnda og endurskoðenda, sbr. 15. gr. og 5. mgr. 16. gr. laga nr. 25/1985. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 25/1985, er vikið að stöðu kirkjusókna innan skipulags þjóðkirkjunnar. Þar segir meðal annars: "Hin lýðræðislega uppbygging innan þjóðkirkjunnar markast bæði af hluttöku sóknarmanna í stjórnun kirkjusóknar á vettvangi safnaðarfunda og með kjöri sóknarnefnda og með þátttöku leikmannafulltrúa á héraðsfundum, að því er varðar málefni prófastsdæmis." (Alþt. 1984, A-deild, bls. 724). Þá segir svo: "Kirkjusóknin er grunneining í umdæmisskiptingu þjóðkirkjunnar. Hún er smæsta einingin þar og jafnframt á ýmsan veg virkasta aflið í kirkjulegu starfi eða umgerð um það - sá þátturinn, sem snýr gagngert að einstökum þjóðkirkjumanni og mestu skiptir um rétt hans til kirkjulegrar þjónustu og færi hans á þátttöku í kirkjustarfinu. Á vettvangi kirkjusóknar afmarkast fyrst og fremst staða þjóðkirkjumanns innan kirkju sinnar." (Alþt. 1984, A-deild, bls. 725.) Samkvæmt því, er hér að framan hefur verið rakið, tel ég, að kirkjusóknir falli innan opinberrar stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Stjórnsýsla kirkjusókna, svo sem málsmeðferð þeirra, fellur því undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Ákvarðanir og athafnir kirkjusókna, er snerta kenningar þjóðkirkjunnar og trúariðkun, falla aftur á móti utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis. Eins og áður segir, telur dóms- og kirkjumálaráðuneytið, að þeim álitaefnum, sem kvörtun A lýtur að, verði ekki skotið til ráðuneytisins til úrskurðar. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um málskotsrétt vegna ákvarðana, sem teknar eru innan vébanda kirkjusókna. Með vísan til afstöðu ráðuneytisins tel ég hins vegar ljóst, að ákvæði 3. mgr. 6. gr. standi því ekki í vegi að ég fjalli um málið." Um kvörtunarefni A segir svo í álitinu: "2. Kvörtun A er í fyrsta lagi á því byggð, að kosning sóknarnefndarmanna hafi ekki mátt fara fram á fundi þeim, sem haldinn var hinn 22. september 1994, þar sem sá fundur hafi ekki verið aðalsafnaðarfundur, er einn sé bær að lögum til að kjósa sóknarnefndarmenn. Í öðru lagi telur A, að fundur þessi hafi ekki verið ályktunarfær, þar sem ranglega hafi verið til hans boðað sökum þess, að fundarefni hafi ekki verið kynnt í fundarboði, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1985. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 25/1985 er mælt fyrir um, hversu margir skuli sitja í sóknarnefnd og ræðst það af fjölda sóknarmanna í sókn, svo sem nánar greinir í lagaákvæði þessu. Í X-sókn skipa sjö aðalmenn sóknarnefnd. Í 2. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar er kveðið á um, að kjósa skuli að minnsta kosti jafnmarga varamenn og aðalmenn eru, er taki sæti í forföllum aðalmanna eftir þeirri röð, sem þeir voru kosnir í. Um kosningu sóknarnefnda er fjallað í 15. gr. laga nr. 25/1985. Þar kemur fram, að sóknarnefnd skuli kosin til fjögurra ára í senn, sbr. 1. mgr. greinarinnar, með því fráviki samkvæmt 3. mgr. greinarinnar, að nokkur hluti kjörinna aðalmanna og varamanna skal ganga úr nefndinni að tveimur árum liðnum frá kosningunni eftir ákveðnum reglum, sem tilgreindar eru í málsgrein þessari. Í 2. mgr. 15. gr. laganna er mælt svo fyrir um, að á fyrsta aðalsafnaðarfundi, sem haldinn sé eftir gildistöku laganna, skuli kjósa sóknarnefndir samkvæmt þeim í öllum kirkjusóknum landsins og falli umboð sóknarnefndar niður, þegar ný sóknarnefnd hefur verið kosin. Um kosningu sóknarnefnda segir svo í athugasemdum með 15. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 25/1985: "Sóknarnefnd ber að kjósa á aðalsafnaðarfundi, þ. á m. á framhaldsaðalsafnaðarfundi, ef slíku er til að dreifa, svo sem tíðkast hefir." (Alþt. 1984, A-deild, bls. 730.) Í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 25/1985 er fjallað um þau atvik, þegar starfi sóknarnefndarmanns lýkur, áður en kjörtímabil hans er úti. Málsgrein þessi er svohljóðandi: "Nú andast sóknarnefndarmaður, flytur úr sókninni eða hverfur úr sóknarnefnd af öðrum ástæðum. Skal þá kjósa aðalmann í hans stað á næsta aðalsafnaðarfundi fyrir þann hluta kjörtímabilsins, sem þá er eftir, að því er þann mann varðar. Varamaður hans gegnir starfi uns sú kosning fer fram." Vegna ákvæðis þess, sem hér að ofan getur, er rétt að taka fram, að gera verður ráð fyrir því, að sóknarnefndarmenn geti sagt nefndarstarfi sínu lausu, áður en kjörtímabil þeirra er úti, enda bendir lagaákvæðið frekast til þess og starfinn er þess eðlis, að styðja þyrfti gagnstæða niðurstöðu við skýra lagaheimild. Samkvæmt þeim ákvæðum laga nr. 25/1985, sem hér hafa verið rakin, og öðrum ákvæðum laga þessara, sbr. einkum 16. gr., tel ég ljóst, að aðalsafnaðarfundur sé einn bær til að kjósa menn í sóknarnefnd. Þessu til frekari áréttingar er rétt að benda á athugasemdir við 11. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 25/1985, en grein þessi fjallar um aðalsafnaðarfundi og verksvið þeirra. Þar segir: "Bent skal á, að stundum er áskilið, að mál hlíti meðferð á aðalsafnaðarfundi, þ. á m. kosning sóknarnefndar og endurskoðenda...." (Alþt. 1984, A-deild, bls. 729.) Samkvæmt framansögðu er að mínum dómi alveg ljóst, að samkvæmt lögum nr. 25/1985 er kosning sóknarnefndar lögbundið verkefni aðalsafnaðarfundar. Þá verður að telja, að hér sé um að ræða skyldubundið verkefni aðalsafnaðarfundar, þannig að ekki sé heimilt að framselja ákvörðunarvald um slík mál öðrum stjórnunaraðilum innan kirkjusóknar. Verður ekki séð, að unnt sé, svo að gilt sé, að framselja almennum safnaðarfundi þetta vald, hvort sem framsalið væri bundið við einstakt tilfelli eða varanlegt. Þrátt fyrir þetta tel ég þó óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því, í samræmi við reglur félagaréttar, að heimilt sé á almennum safnaðarfundi að kjósa menn í sóknarnefnd, þegar svo stendur á, að það margir hafa horfið úr sóknarnefnd, að nefndin er ekki lengur ályktunarfær, sbr. 17. gr. laga nr. 25/1985, þar sem svo er kveðið á, að fundur í sóknarnefnd sé ályktunarfær, ef meiri hluti nefndarmanna sækir fundinn. Sóknarnefnd X-sóknar hafði verið kosin á aðalsafnaðarfundi, sem haldinn var 16. janúar 1994. Hinn 1. september 1994 sögðu sig úr sóknarnefndinni átta sóknarnefndarmenn, aðalmenn og varamenn. Þrátt fyrir afsagnir þessar var sóknarnefndin ályktunarfær, sbr. 17. gr. laga nr. 25/1985. Að þessu virtu og með skírskotun til ákvæða 4. mgr. 15. gr. laganna tel ég, að sá safnaðarfundur (aukaaðalsafnaðarfundur), sem haldinn var 22. september 1994, hafi ekki verið bær til þeirrar kosningar sóknarnefndarmanna, sem þar fór fram, enda verður ekki séð, að í lögum nr. 25/1985 sé gert ráð fyrir því, að fleiri en einn aðalsafnaðarfundur sé haldinn ár hvert. Í 12. gr. laga nr. 25/1985 er fjallað um boðun til safnaðarfunda. Boðar sóknarnefnd safnaðarfundi með þriggja daga fyrirvara hið skemmsta á sama hátt og tíðkanlegt er um messuboð í sókninni. Skal fundarefni kynnt í fundarboði. Í svarbréfi sóknarnefndar X-sóknar til mín, dags. 22. mars 1995, er meðal annars vikið að boðun til hins umdeilda safnaðarfundar, sem haldinn var 22. september 1994, og boðunarhætti til fundarins. Verður ekki annað ráðið af bréfinu en það, sem þar segir um boðunarhátt, eigi við um almennt tíðkanlegan boðunarhátt messuboða. Í messuboði, er fylgdi bréfinu, var jafnframt svohljóðandi boðun til umrædds safnaðarfundar: "Auka aðalsafnaðarfundur verður fimmtudaginn 22. september kl. 18:00." Eins og fram kemur í málinu misprentaðist fundarboð þetta í Morgunblaðinu, er út kom 17. september 1994. Þar er fundarboðið svohljóðandi á eftir messuboði: "Auk aðalsafnaðarfundar verður fimmtudaginn 22. september kl. 18." Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, fæ ég ekki séð, að boðun til umrædds fundar hafi verið í samræmi við 2. mgr. 12. gr. laga nr. 25/1985, þar sem fundarefnis var í engu getið." VI. Niðurstaða álits míns var svohljóðandi: "Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að sá safnaðarfundur í X-sókn (aukaaðalsafnaðarfundur), sem haldinn var hinn 22. september 1994, hafi ekki verið bær til að kjósa menn í sóknarnefnd. Þá tel ég, að boðun til fundarins hafi ekki verið með lögmætum hætti."