Persónuréttindi. Lögræðissvipting.

(Mál nr. 7122/2013)

A kvartaði yfir meðferð máls sem varðaði lögræðissviptingu hennar, einkum því að mati geðlæknis hennar og lögfræðings hefði ekki verið léð meira vægi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 er tekið fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við það voru ekki uppfyllt lagaskilyrði til umfjöllunar umboðsmanns um þann þátt kvörtunarinnar sem laut að þeirri meðferð dómstóla á máli A er leiddi til uppkvaðningar úrskurðar um lögræðissviptingu hennar á sínum tíma. Í erindi A kom ekki fram hvort hún væri enn svipt sjálfræði og/eða fjárræði, en umboðsmaður tók fram að ef málum væri þannig háttað væri gert ráð fyrir því í 15. gr. og 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 að ákvarðanir um niðurfellingu lögræðissviptingar væru endanlega í höndum dómstóla. Hann benti A því að snúa sér til dómstóla með erindið og lauk athugun sinni á málinu.