Sjávarútvegsmál. Strandveiðar.

(Mál nr. 7119/2012)

A og B kvörtuðu yfir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði synjað umsókn þeirra um veiðileyfi að loknu tímabili strandveiða á svæði A, þ.e.a.s. frá og með 8. ágúst 2012 þar til nýtt fiskveiðiár hæfist.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti ákvæði 4. gr. og 6. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og tók fram að hann fengi ekki betur séð en að með þeim hefði löggjafinn með skýrum hætti tekið afstöðu til þess að ef fiskiskip fengi strandveiðileyfi gæti það ekki, frá þeim tíma til loka fiskveiðiársins, stundað aðrar veiðar en strandveiðar. Athugasemdir A og B beindust því að að efni lagareglu sem Alþingi hafði sett. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis Umboðsmaður taldi því falla utan starfssviðs síns að fjalla um erindið á grundvelli kvörtunar. Þá tók umboðsmaður fram að þegar álitaefni beindist að ósamræmi á milli almennra laga, afgreiddum af Alþingi með stjórnskipulega réttum hætti, og stjórnarskrár og/eða þjóðréttarlegra skuldbindinga sem íslenska ríkið hefði undirgengist, gæti helst komið til þess að umboðsmaður nýtti heimild 11. gr. laga nr. 85/1997, til að fjalla að eigin frumkvæði um meinbugi á lögum, þegar slíka niðurstöðu mætti leiða af dómum Hæstaréttar eða eftir atvikum alþjóðlegra úrskurðaraðila. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki efni til að fjalla frekar um málið á þeim grundvelli.