Svör við erindum.

(Mál nr. 6823/2012)

Hinn 12. janúar 2012 kvartaði lánasjóðurinn A yfir því að hafa ekki borist svör frá velferðarráðuneytinu við kvörtun sem var send ráðuneytinu með bréfi, dags. 13. september 2011, og varðaði lögmæti gjaldtöku til að standa straum af rekstrarkostnaði umboðsmanns skuldara. Í kvörtuninni kom fram að ráðuneytinu hefðu verið sendar ítrekanir á kvörtuninni með tölvupósti dags. 1. nóvember, 15. nóvember og 1. desember 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins stóð barst umboðsmanni tölvupóstur frá A þar sem fram kom að velferðarráðuneytið hefði nú svarað erindinu með bréfi, dags. 21. ágúst 2012. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að aðhafast frekar vegna málsins og lauk meðferð sinni á því. Hann tók hins vegar fram að ef A væri ósáttur við niðurstöðu málsins gæti hann beint sérstakri kvörtun til sín þar að lútandi. Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita velferðarráðherra bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að það hefði tekið 350 daga að svara erindinu og að fimm skriflegum ítrekunum á erindinu hefði ekki verið svarað. Þá gerði umboðsmaður athugasemdir við að fyrirspurn embættisins vegna málsins hefði ekki verið svarað þrátt fyrir fjórar ítrekanir og að það hefði að lokum verið aðili málsins sem upplýst sig um lyktir þess. Umboðsmaður benti velferðarráðuneytinu því á að svara héðan í frá erindum umboðsmanns með tilliti til gefins frests hverju sinni.