Skattar og gjöld. Vörugjald.

(Mál nr. 6628/2011)

A ehf. kvartaði yfir því að jafnræðisregla væri brotin á innlendum framleiðendum slökkvi- og sjúkrabíla miðað við innflytjendur tilbúinna slökkvi- og sjúkrabíla. Erindið laut að vörugjöldum og áhrifum þeirra á rekstur A ehf.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins stóð aflaði umboðsmaður upplýsinga frá iðnaðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og tollstjóra. Þær upplýsingar bárust frá fjármálaráðuneytinu, sem fór með mál er varða tolla og vörugjöld, að til stæði að funda með A ehf. og fulltrúum annarra stjórnvalda sem málið varðaði. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að svo stöddu. Hann tók hins vegar fram að yrði félagið ósátt við viðbrögð fjármálaráðuneytisins eða eftir atvikum annarra stjórnvalda í framhaldinu, s.s. ef tiltekin ágreiningsmál yrðu lögð í úrskurðarfarveg innan stjórnsýslunnar, gæti það leitað til sín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (áður iðnaðarráðuneytinu) bréf þar sem hann gerði athugasemdir við tafir sem urðu á svörum þess vegna málsins og lagði áherslu á að eftirleiðir yrði þess gætt að svara erindum umboðsmanns innan frests.