Skipulags- og byggingarmál. Skipulagsmál.

(Mál nr. 7090/2012)

A og B kvörtuðu yfir stjórnsýslu í tengslum við skipulag og nýtingu sumarhúsalóða í sveitarfélagi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 11. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hæstiréttur sýknaði umrætt sveitarfélag af kröfum A og B í dómsmáli sem þau höfðuðu til ógildingar á samþykkt um breytingar á deiliskipulagi sem fólust í því að lóðir í nágrenni við sumarhúsalóð A og B voru stækkaðar og skipulagsskilmálum breytt þannig að leyfileg hámarksstærð sumarhúsa var aukin. Því brast lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti fjallað um þá þætti málsins, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Þá voru ýmis samskipti sem kvörtunin beindist að, s.s. tilteknar ákvarðanir sveitarstjórnar og úrskurðir úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, til lykta leidd utan ársfrests samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Það átti jafnframt við um úrlausn ríkissaksóknara í tilefni af kæru A og B vegna ákvörðunar sýslumanns um að hætta lögreglurannsókn á mögulegum brotum gegn skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 við framkvæmdir á tilgreindum sumarhúsalóðum í grennd við sumarhúsalóð þeirra og viðbrögð sveitarfélagsins við kröfu þeirra um skaðabætur úr hendi sveitarfélagsins.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 voru enn fremur ekki skilyrði að lögum til umfjöllunar umboðsmanns um tillögu að breytingu á deiliskipulagi frístundasvæðisins en meðferð tillögunnar var ólokið af hálfu sveitarfélagsins. Umboðsmaður tók þó fram að teldu A og B á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu sveitarfélagsins, og eftir atvikum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindanefndar, gætu þau leitað til sín að nýju.

Þar sem í lögum nr. 90/1989, um aðför, er byggt á því að ágreining sem rís við framkvæmd eða eftir lok aðfarargerðar, þ. á m. ágreining vegna fjárnáms samkvæmt III. þætti laganna, megi bera undir dómstóla brast lagaskilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um þau atriði í kvörtuninni sem lutu að ráðstöfunum sveitarfélagsins til að innheimta málskostnaðarkröfu sveitarfélagsins á hendur þeim, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann Alþingis.

Þar sem þurft gæti að viðhafa sönnunarfærslu og leggja mat á fram komin sönnunargögn til þess að upplýsa um tiltekin atriði í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem var innan ársfrests samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður að það yrði að vera verkefni dómstóla, sbr. til hliðsjónar ákvæði c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, að leysa úr ágreiningi varðandi þann úrskurð.

Að lokum tók umboðsmaður fram að eftir að hafa kynnt sér kvörtunina og gögn sem henni fylgdu teldi hann ekki tilefni til að taka þau atriði sem kvörtunin laut að til athugunar að eigin frumkvæði eða hefja almenna athugun á starfsemi þeirra stjórnvalda sem kvörtunin beindist að. Umboðsmaður hafði m.a. í huga að Hæstiréttur hefði í dómi sínum í máli A og B fjallað um einstök atriði í stjórnsýslu umræddra stjórnvalda og m.a. komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýsla sveitarfélagsins varðandi útgáfu byggingarleyfa á lóðum í grennd við lóð A og B hefði verið óvönduð og ómarkviss. Umboðsmaður benti A og B hins vegar á að að því marki sem kvörtunin kynni að beinast að almennum starfsháttum sveitarfélagsins kynnu þau eftir atvikum að eiga þess kost að bera erindi þar að lútandi undir innanríkisráðherra, sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Teldu þau enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu ráðherra í málinu gætu þau leitað til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að tiltekinn úrskurður nefndarinnar í máli A og B hefði verið kveðinn upp tæpum fjórum árum eftir að nefndinni barst málið í hendur. Í ljósi þess að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur nú verið lögð niður og þau ákvæði sem sem áður giltu um störf nefndarinnar, þ. á m. afgreiðslutíma hennar, verið numin úr lögum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að óska eftir því við nefndin veitti sér almennar upplýsingar um stöðu mála og afgreiðslutíma hjá nefndinni. Hann kom þó þeirri almennu ábendingu á framfæri að nefndin huga að afgreiðslutíma þeirra mála sem henni hefði verið falið að ljúka afgreiðslu á og að gera mætti ráð fyrir því að í byrjun árs 2013 yrði óskað eftir upplýsingum um stöðu óafgreiddra mála og stöðu mála hjá hinni nýju úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál.