Svör við erindum. Ákvarðanir um málsmeðferð.

(Mál nr. 6998/2012)

Hinn 23. apríl 2012 kvartaði A yfir því að hluta erindis sem hann sendi innanríkisráðuneytinu 16. janúar 2012 hefði ekki verið svarað. Sá hluti erindisins varðaði hæfi starfsmanns til meðferðar á máli sem A hafði vísað til ráðuneytisins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á meðan á athugun málsins stóð barst umboðsmanni afrit af bréfi innanríkisráðuneytisins til A, dags. 12. september 2012, þar sem erindinu var svarað og hann var beðinn velvirðingar á töfunum. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar og lauk athugun sinni á málinu. Hann ákvað þó að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann gerði athugsemdir við að tæpa átta mánuði hefði tekið að svara erindinu og tók fram að það hefði ekki verið í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um málshraða, sbr. einnig 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður mæltist til þess að ráðuneytið hugaði betur að framangreindu og hefði þá sérstaklega í huga eðli erindisins og þýðingu úrlausnar þess fyrir framhald máls A.