Svör við erindum. Fyrirspurnir.

(Mál nr. 7085/2012)

Hinn 10. júlí 2012 barst kvörtun frá foreldraráði leikskóla yfir því að erfiðlega hefði gengið að fá svör hjá sveitarfélagi um málefni leikskólans. M.a. hefði foreldraráðið óskað eftir upplýsingum um stöðu útboðs vegna framkvæmda á húsnæði leikskólans 29. apríl 2012 en ekki fengið haldbær svör við fyrirspurnum sínum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 6. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum sveitarfélagsins kom fram að vegna mistaka hefði dregist að svara umræddu erindi en það hefði nú verið gert og beðist hefði verið velvirðingar á töfunum. Þá hefði öðrum erindum frá ráðinu verið svarað utan eins erindis sem áætlað væri að svara skriflega í kjölfar fundar fræðsluráðs tilgreindan dag. Í ljósi þess að erindum foreldraráðsins hafði ýmist verið svarað eða til stóð að svara þeim innan skamms taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni að þessu leyti og lauk athugun sinni á málinu. Þar sem undirliggjandi kvörtuninni var að ráðið teldi sveitarfélagið hafa látið undir höfuð leggjast að sinna nauðsynlegum úrbótum á húsnæði leikskólans tók umboðsmaður fram að í ljósi þeirra skýringa sveitarfélagsins að framkvæmdir væru yfirstandandi og fyrirhugað væri að húsnæðið uppfyllti allar kröfur teldi hann ekki tilefni til að taka það til frekari athugunar. Hann hefði því ekki tekið afstöðu til þess í hvaða mæli það gæti fallið undir starfssvið sitt að fjalla efnislega um kvartanir frá foreldraráði leikskóla með tilliti til þess hvort ráðið telst einkaaðili eð hluti af stjórnsýslu sveitarfélagsins.