Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 7095/2012)

Hinn 24. júlí 2012 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist svör frá sýslumannsembætti við erindi, dags. 19. ágúst 2011, sem hann sendi upphaflega til þinglýsingastjóra í öðru sýslumannsembætti um leiðréttingu á þinglýsingu í kaupsamningi. Sýslumaðurinn var settur til að fara með málið 3. apríl 2012.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 6. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum sýslumanns til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindinu hefði nú verið svarað en það hefði dregist vegna frekari gagnaöflunar, anna og sumarleyfa. Afrit af bréfi til A, dags. 9. ágúst 2012, fylgdi skýringunum og kom þar fram að hjálögð væri ákvörðun þinglýsingastjóra í máli A. Umboðsmaður taldi því ekki efni til að aðhafast frekar í málinu og lauk athugun sinni á því. Í tilefni af athugasemdum A við niðurstöðu sýslumanns í málinu ritaði umboðsmaður A bréf og benti á að samkvæmt 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 mætti bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara með nánar tilgreindum hætti og úrskurður hans væri síðan kæranlegur til Hæstaréttar. Þar sem starfssvið umboðsmanns er takmarkað með þeim hætti að það tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður ekki efnislega um niðurstöðu sýslumanns.