Stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði.

(Mál nr. 7015/2012)

A kvartaði yfir innheimtu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á 5000 kr. stöðvunarbrotsgjaldi fyrir að leggja bifreið á grasbletti.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í 3. mgr. 27. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er lagt bann við því að stöðva ökutæki eða leggja því á gangstétt eða gangstíg, nema annað sé ákveðið, og á það sama við um umferðareyjar og „svipaða staði“. Á grundvelli atvikalýsingar í erindi A og fyrirliggjandi gagna málsins, þ. á m. ljósmynda af bifreið hans, taldi umboðsmaður sig ekki hafa nægilegar forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að grasbletturinn félli undir hugtakið „svipaðir staðir“ í skilningi ákvæðisins. Ekki varð ráðið af gögnum málsins að frágangur umferðarmannvirkja í næsta umhverfi við staðinn þar sem A lagði bifreiðinni hefði verið með þeim hætti að hann gæfi ekki nægilega skýrt til kynna hvar mörk svæða sem ætluð væru fyrir umferð og stöðu bifreiða og svæða þar sem óheimilt væri að leggja bifreiðum lægju. Umboðsmaður taldi enn fremur að ákvæði 2. mgr. 5. gr. a í umferðarlögum, um akstur vegna óhjákvæmilegrar þjónustu, sjúkraflutninga eða annarra ámóta óhjákvæmilegrar umferðar, ættu ekki við í málinu, en í kvörtun var því haldið fram að ákvæðið ætti við þar sem mikil umferð hefði verið umræddan dag vegna góðs veðurs. Þá tók umboðsmaður fram að við mat á því hvort beiting á heimildum til að leggja á stöðvunarbrotsgjald samrýmdist meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skipti máli hvort stjórnvöld hefðu að lögum átt kost á öðru og vægara úrræði sem komið hefði getað að sama gagni og það úrræði sem beitt var. Þá þyrfti að leggja á það mat hvort við beitingu þess úrræðis sem fyrir valinu varð hafi verið farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til. Samkvæmt 2. gr. gjaldskrár vegna stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg nr. 414/2010 skal gjald vegna stöðvunarbrota vera 5.000 kr. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera þá athugasemd að fjárhæð gjaldsins leiddi til þess að álagning þess færi gegn meðalhófsreglu. Að öllu þessu virtu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur að fella háttsemi A umrætt sinn undir 3. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1987 og á þeim grundvelli leggja á hann gjald fyrir stöðvunarbrot á grundvelli a-liðar 1. mgr. 108. gr. laganna.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina. Í ljósi þess að brot gegn ákvæðum 3. mgr. 27. gr. umferðarlaga geta orðið grundvöllur gjaldtöku af hálfu stjórnvalda ákvað umboðsmaður hins vegar að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann vakti athygli á tilteknum athugunarefnum varðandi skýringu ákvæðisins þá með það í huga að þau yrðu höfð til hliðsjónar við fyrirhugaða endurskoðun umferðarlaga. Jafnframt óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvað liði áformum ráðuneytisins um endurskoðun gjaldskrár vegna stöðvunarbrota í Reykjavík, nánar tiltekið á 1.-3. gr. hennar þar sem gert er að skilyrði fyrir 1.100 kr. afslætti af gjöldum „ef greitt er án fyrirvara og andmæla í bankastofnun eða heimabanka innan þriggja virkra daga frá álagningu gjaldsins“. Í svarbréfi innanríkisráðuneytisins kom fram að auglýsing um gjaldskrá vegna stöðvunarbrota hefði verið undirrituð 14. september 2012 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2012. Þar var umrætt skilyrði ekki lengur að finna og því taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.