Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7080/2012)

Hinn 4. júlí 2012 kvartaði A yfir því að úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefði ekki enn úrskurðað um kæru sem hann lagði fram 27. mars 2012.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum nefndarinnar til umboðsmanns vegna málsins var gerð grein fyrir meðferð þess og kom jafnframt fram að stefnt væri að því að ljúka málinu sem fyrst, en þó væri mikill fjöldi mála til afgreiðslu hjá nefndinni. Í ljósi þess og þar sem kvörtun A laut lýtur að atriði sem þegar var til skoðunar í frumkvæðismáli hjá umboðsmanni taldi umboðsmaður rétt að ljúka málinu. Hann tók þó fram að ef meðferð málsins drægist enn á langinn gæti hann leitað til sín á nýjan leik. Þá tók hann fram að yrði A ósáttur við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar gæti þér leitað til sín með sérstaka kvörtun vegna þess. Loks ákvað umboðsmaður að rita úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bréf þar sem hann minnti á að stjórnvald sem óskar eftir umsögn, sbr. 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða kallar eftir gögnum, í tilviki A hjá Vinnumálastofnun, ber engu að síður ábyrgð á því að afgreiðsla málsins tefjist ekki af þeim sökum. Þá minnti umboðsmaður að að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast, upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.